Mannlíf

Eyjamenn bjóða Grindvíkingum á tónleika í Salnum, Kópavogi
Föruneyti GH á sviði í Vestmannaeyjum á síðasta ári.
Laugardagur 13. apríl 2024 kl. 06:08

Eyjamenn bjóða Grindvíkingum á tónleika í Salnum, Kópavogi

Eyjapistlarnir ógleymanlegu, Gísli Helgason og Eyjalögin.

Laugardagskvöldið 20. apríl ætla valinkunnir Eyjamenn að bjóða Grindvíkingum á skemmtun sem ber yfirskriftina Eyjapistlarnir ógleymanlegu, Gísli Helgason og Eyjalögin. Þessi skemmtidagskrá var frumflutt á Goslokahátíðinni í fyrra og þar sem einkar vel tókst til og Grindvíkingar eru að ganga í gegnum svipaðar raunir og Eyjamenn árið 1973 fékk Föruneyti GH þá hugmynd að halda skemmtunina fyrir Grindvíkinga og fékk Kópavogsbæ með sér í lið, sem lánar Salinn endurgjaldslaust. Grindvíkingum er boðið en aðrir þurfa að greiða aðgangseyri og mun það fé sem safnast renna til Grindvíkinga.

Gísli Helgason.

Gísli er fæddur og uppalinn Vestmannaeyingur, er landsþekktur tónlistarmaður og líklega þekktastur fyrir blokkflautuleik sinn. Hann er mikið sjónskertur en hefur ekki látið það stoppa sig til þessa og er mjög fær að spila á blokkflautu, munnhörpu og önnur blásturshljóðfæri. Hann hefur samið urmul laga, þekktast er hugsanlega hið hugljúfa Kvöldsigling en um hvað snerust þessi Eyjapistlar á sínum tíma og hvers mega Grindvíkingar og aðrir vænta þann 20. apríl í Salnum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Fimmta febrúar 1973 var mikill örlagadagur í lífi okkar tvíbura, Arnþórs og mín. Magnús bæjarstjóri hringdi og spurði hvort við værum tilbúnir að koma fram í Eyjapistli. Ég varð harla glaður og tók því vel og rúmri klukkustund síðar hringdi Stefán Jónsson, fréttamaður á RÚV, og sagði að frá og með morgundeginum ættum við að sjá um Eyjapistil og fór nánar út í það. Gerði okkur grein fyrir að það væri ekkert undanfæri, þetta væri borgaraleg skylda okkar. Við áttum að nota tvær klukkustundir á dag í vinnu við þættina. Staðreyndin varð sú að þetta var þrotlaus vinna.

Eyjapistlarnir voru á hverjum degi fram til júnímánuðar, svo sex sinnum í viku og fór svo fækkandi. Við höfðum alltaf símann við eyrað á nóttunni og það hringdu margir og helltu tilfinningum sínum yfir okkur. Ég var stundum miður mín eftir samtölin, var rétt 21 árs og vissi ekkert hvernig ég átti að höndla þetta. Þá voru móðir mín og Eygló móðursystir mín eins og klettar við hliðina á mér.

Eyjapistlarnir voru á dagskránni frá sjöunda febrúar 1973 til 25. mars 1974. Þarna voru lesnar ýmsar tilkynningar, fréttir, afmæliskveðjur og birt viðtöl við fólk. Við reyndum að hafa yfirbragð þáttanna með eins léttu móti og við höfðum vit á.“

Tónlist og valin atriði

Á skemmtuninni eru sagðar sögur, spiluð brot úr Eyjapistlunum en tónlistin ræður samt ríkjum.

„Við köllum okkur Föruneyti GH, með mér eru Herdís Hallvarðsdóttir, eiginkona mín. Hún spilar á bassa, eins og hún gerði listavel með Grýlunum á sínum tíma. Svo eru hjónin Sigurmundur G. Einarsson á gítar og Unnur Ólafsdóttir söngkona, Hafsteinn Guðfinnsson á gítar, Magnús R. Einarsson á gítar, söngvarinn Þórarinn Ólason og á húðir lemur kokkurinn Grímur Þór Gíslason. Við munum flytja lög eftir mig og önnur Eyjalög og lofa ég góðri skemmtun. Ég vil endilega sjá sem flesta Grindvíkinga, þeir eru hjartanlega boðnir velkomnir en þurfa að fara á tix.is til að nálgast sinn frímiða. Ég veit að margir Eyjamenn vilja mæta og þeir munu glaðir borga sex þúsund króna aðgangseyrinn því þeir vita að allur ágóði mun renna til Grindvíkinga. Ég hlakka mikið til og lofa góðri skemmtun,“ sagði Gísli að lokum.

Föruneyti GH