Public deli
Public deli

Mannlíf

Gerðist aðdáandi  Bítlanna áður en  þeir urðu frægir
Þórður með æskuhetjum sínum, Bítlunum á vaxmyndasafninu í London.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 27. apríl 2024 kl. 06:14

Gerðist aðdáandi Bítlanna áður en þeir urðu frægir

Þórður B. Þórðarson fór á marga tónleika með Bítlunum í Þýskalandi á upphafsárum þeirra. Starfaði í nærri fjóra áratugi í Slökkviliði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og tók m.a. þátt í slökkvistarfi í eldgosinu í Vestmannaeyjum.

Þórður B. Þórðarson bjó lengstan hluta ævi sinnar í Njarðvík en hann er nýlega fluttur í Hafnarfjörð til að vera nær börnum og barnabörnum sínum. Eftir að hafa starfað sem sjómaður ákvað hann að fara í land og vann eftir það hjá slökkviliði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Í sjómennskunni var hann lengstum á fraktskipum og um tíma vann hann á Tröllafossi sem sigldi m.a. til Hamborgar í Þýskalandi. Á þeim siglingum kom hann auga á hljómsveit sem átti heldur betur eftir að láta að sér kveða en hvort hún hét Beatals eða Silver Beetles þá man Þórður ekki alveg. Þar sem Þórður var meira að spá í skvísunum en hve margir voru í þessari nýju uppáhaldshljómsveit sinni veit hann ekki hvort hann sá þá bæði sem fimm manna hljómsveit á meðan Stuart Sutcliffe plokkaði ennþá bassann og sem fjögurra manna hljómsveit eftir að Stuart hætti og Paul McCartney tók við bassaleiknum!

Þórður ólst upp í Reykjavík en flutti svo til Njarðvíkur árið 1975 og við spyrjum hann að því hvernig það kom til.

„Fyrstu árin bjó ég í vesturbænum en náði aldrei að verða KR-ingur, við fluttum svo í Lauganesið þegar ég var fimm ára gamall og eftir það gerðist ég Framari og hef verið allar götur síðan, þó svo að félagið sé búið að flytja sig upp í Úlfarsárdal. Um fermingaraldur fór ég á sjóinn, byrjaði á togara og við vorum mikið að fiska hinum megin við Grænland og sigldum stundum með aflann til Grimsby m.a. en lönduðum annars í Reykjavík. Árið 1959 réði ég mig svo á Tröllafoss sem háseta og var alla mína sjómennsku eftir það hjá Eimskipafélagi Íslands. Þetta var eitt stærsta skipið á Íslandi á þeim tíma, við bárum sex þúsund tonn sem telst nú ekki mikið í dag. Tröllafoss sigldi til margra landa, m.a. til Hamborgar en ég kem að því síðar. Árið 1961 fór ég svo í Stýrimannaskólann og kláraði farmanninn. Ég var á sjónum til ársins 1972 þegar ég réði mig hjá slökkviliðinu uppi á velli, ég vildi geta verið meira með börnunum mínum, sjá þau vaxa úr grasi og ákvað því að segja skilið við sjómennskuna. Við bjuggum áfram í Reykjavík en ákváðum svo að flytja til Njarðvíkur árið 1975.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Árið 1959 fékk Þórður starf á Tröllafoss sem sigldi til margra landa.

Barðist við eldgosið í Vestmannaeyjum

Þórður var ekki búinn að vera lengi í starfi hjá slökkviliði bandaríska sjóhersins þegar hann svaraði kalli.

„Á hverjum morgni var nafnakall og í febrúar árið 1973 vorum við spurðir hvort við vildum fara til Vestmannaeyja og hjálpa til varðandi eldgosið, m.a. við að sprauta sjó á hraunið. Ég rétti upp höndina og tveimur tímum síðar var ég farinn upp í Hercules-flugvél ásamt 40 bandarískum hermönnum og dvaldi í tvær vikur. Áður en við tókum á loft í Keflavík var vodkaflaskan látin ganga á milli manna, þetta var siður hjá Könunum og við héldum í þetta ævintýri í Vestmannaeyjum. Þetta var mjög sérstakt, við héldum til á Skansinum við höfnina, rétt hjá þar sem eldgosið kraumaði. Við dældum sjó á 1.000 gallona bíl og sprautuðum á hraunið og kældum, það er talið að þessi aðgerð hafi bjargað höfninni í Vestmannaeyjum. Yfirslökkviliðsstjórinn uppi á velli hét Sveinn Eiríksson, jafnan kallaður Sveinn Patton eftir hinum fræga bandaríska hershöfðinga, Georg S. Patton. Hann var mjög vel tengdur og gat fengið margar stórar dælur frá Bandaríkjunum og þá fyrst gátum við kælt hraunið niður, eins og ég segi þá er mjög líklegt að þetta hafi bjargað höfninni og þá hugsanlega byggð í Vestmannaeyjum því ég er ekki viss um hvernig hefði verið að búa þar ef hvorki var hægt að koma með fisk til hafnar né farþega í Herjólfi. Ég er stoltur yfir að hafa tekið þátt í þessum björgunarleiðangri.

Með félögum sínum í Slökkviliði Varnarliðsins.

Ég minnist þessara 37 ára hjá slökkviliðinu með bros á vör, það var alltaf gaman í vinnunni, ég fékk að læra það sem ég vildi og það var alltaf nóg að gera. Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli fékk margar viðurkenningar fyrir eldvarnir, við unnum margar keppnir milli slökkviliða Bandaríkjahers. Það var bandaríski flugherinn sem rak herstöðina í Keflavík fyrst en svo tók sjóherinn við, við vorum í raun eins og flugmóðurskip úti á miðju Atlantshafi, það hentaði mjög vel að vera með herstöð í Keflavík. Við vorum mjög oft kallaðir í verkefni utan flugvallarins, ef það kom upp bruni í Njarðvík, Keflavík eða annars staðar á Suðurnesjum, jafnvel víðar, vorum við kallaðir til. Þannig fengum við auðvitað góða æfingu í leiðinni og þá, eins og núna, sinntum við líka sjúkraflutningum, fórum á sjúkraflutninganámskeið hjá hernum. Undir það síðasta minnkaði starfsemi varnarliðsins og stöðinni var endanlega lokað árið 2006, tveimur árum áður en ég komst á eftirlaunaaldur en ég hætti árið 2008 og hef notið lífsins síðan þá. Ég hef lengi haft áhuga á fjallaferðum og fylgist vel með íþróttunum, er Framari í fótboltanum en held að sjálfsögðu með Njarðvík í körfunni. Ég fór oft á leiki hér áður fyrr og held ég fái mér nú áskrift af Stöð 2 Sport fyrst úrslitakeppnin er hafin í körfunni,“ segir Þórður.

Sveitaball með Bítlunum í Hamborg

Blaðamaður er mikill aðdáandi Bítlanna. Honum fannst sérstakt að hitta mann um daginn sem hafði þá sögu að segja að pabbi sinn hefði verið í siglingum. Eftir að hafa landað í Bremerhaven í Þýskalandi vildu hann og félagar hans frekar kíkja út á lífið í Hamborg. Þeir báðu leigubílsstjórann að láta sig úr við fyrsta bar í Hamborg og þangað komu þeir og fjórir náungar voru að spila á sviðinu. Það var fátt, Íslendingarnir tóku að færa hljómsveitarmeðlimum bjór og fengu að fara með þeim í eftirpartý. Nokkru síðar áttuðu þeir sig á að þeir hefðu verið í eftirpartýi með sjálfum Bítlunum. Blaðamann langaði nánast til að fá að snerta þennan son manns sem hafði upplifað þetta! Þórður náði nú ekki að fara í eftirpartý með Bítlunum en hann gerðist aðdáandi þeirra.

Það var líf og fjör á bítlatónleikum í Þýskalandi.

„Það var talsverð sena lifandi tónlistar í Hamborg á þessum árum en hinar hljómsveitirnar sem allar voru þýskar komust ekki með tærnar þar sem þessi hljómsveit var með hælana. Við stoppuðum alltaf  í nokkra daga og þá kíkti ungur maðurinn að sjálfsögðu út á lífið og fljótlega sá ég þá spila og varð strax mjög hrifinn. Þeir voru að spila svokallaða beat-tónlist, gömlu rokkslagarana og voru einfaldlega miklu ferskari og skemmtilegri en allar aðrar hljómsveitir sem maður sá þarna á þessum tíma. Þeir voru oftast í Kaiserkeller og ég er nokkuð viss um að þeir hafi verið fimm þá en annars var ég meira að skoða dömurnar en telja hve margir voru í hljómsveitinni. Hver veit? Kannski náði ég að sjá þá eftir að þeir breyttu sér úr fimm manna hljómsveit yfir í fjögurra manna, eftir að Paul McCartney fór yfir á bassann en ég sá þá þegar Stuart Sutcliffe plokkaði bassann. Það var síðan ekki fyrr en 1964, þegar ég var orðinn stýrimaður á Tungufossi, sem ég fattaði hvaða hljómsveit ég hafði séð þessum árum fyrr, þá var lagið She loves you kynnt í útvarpinu og sagt að Bítlarnir hefðu lengi verið að spila í Hamborg. Ég trúði varla mínum eigin eyrum og upp frá þessu gerðist ég mikill aðdáandi þessarar að mínu mati, merkustu hljómsveitar allra tíma. Ég held að aldrei eigi önnur eins hljómsveit eftir að koma fram á sjónarsviðið og er auðvitað einkar ánægður með hafa gerst aðdáandi Bítlanna áður en þeir urðu Bítlarnir. Ég man nú ekki nafnið á þeim þegar þeir voru að spila, það hefur annað hvort verið Beatals eða að þeir voru búnir að breyta því yfir í Silver Beetles. Þegar ég les mér til um sögu þeirra virðast þeir hafa breytt nafninu yfir í The Beatles seint á árinu 1960 en þá var ég löngu byrjaður að fylgja þeim, kannski sá ég þá undir þremur nafngiftum, Beatals, Silver Beatles og The Beatles. Sagan væri toppuð ef ég sá þá bæði sem fimm manna og fjögurra manna hljómsveit, kannski gerðist það en ég ætla ekkert að fara ljúga til að gera þessa sögu betri, hún er alveg nógu góð eins og hún er. Eitt get ég þó staðfest, ég sá Ringo Starr ekki spila með þeim, hann var ekki ráðinn fyrr en 1962 þegar þeir tóku upp fyrstu plötuna sína. Ég heyrði hana eitthvað í útvarpinu en áttaði mig ekki þá á að ég hafði séð þá spila í Hamborg. Ég man að ég kunni strax að meta tónlistina en eftir að ég áttaði mig við kynninguna á She loves you fór aðdáun mín upp úr þakinu! Ég veit ekki hversu oft ég sá þá spila en á þessum árum sem ég var á skipinu, við sigldum örugglega fimmtán til tuttugu sinnum til Hamborgar og stoppuðum alltaf nokkur kvöld. Ég held ég sé ekki að ljúga miklu ef ég segist hafa séð þá 30 til 40 sinnum,“ sagði Þórður að lokum.

Heiðursgestur á þjóðhátíð

Blaðamaður er hluti af hinni svokölluðu Bítlasyrpu en uppruni hennar er frá hvítu tjaldi á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Bítlasyrpan fer þannig fram að Bítlaaðdáendur koma saman og syngja Bítlalög eins og enginn sé morgundagurinn. Það er Eyjapeyinn Leifur Geir Hafsteinsson sem heldur Bítlasyrpuna og þegar blaðamaður sagði Leifi frá því að bæði hefði Þórður gerst aðdáandi Bítlanna í Hamborg og að hann hefði átt þátt í að bjarga höfninni í Vestmannaeyjum, spurði svo hvort Þórður fengi að mæta í næstu syrpu, stóð ekki á svari Eyjapeyjans;

„hann verður heiðursgestur!“

Þórður er fluttur á höfuðborgarsvæðið til að vera nærri börnum og barnabörnum en bjó í áratugi í Njarðvík.

Stýrimaðurinn Þórður.