Flugger
Flugger

Mannlíf

Úr Garðinum á stóru sviðin úti í heimi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. maí 2024 kl. 06:11

Úr Garðinum á stóru sviðin úti í heimi

„Það var ofboðslega spennandi þegar áhugi á hljómsveitinni vaknaði í Bandaríkjunum,“ segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, ein meðlima einnar vinsælustu hljómsveitar Íslands á erlendri grundu, Of Monsters and Men. Nanna ólst upp í Garðinum, fór í FS og heldur ennþá mikilli tengingu við Suðurnesin. Hljómsveitin vann Músíktilraunir árið 2010 og skaust má segja strax upp á stjörnuhimininn. Fjórða platan er í vinnslu en Nanna hefur auk þess gefið út eina sólóplötu og fleiri munu pottþétt fylgja í kjölfarið.

Nanna er ánægð með að hafa alist upp í Garðinum. Hún fæddist í Keflavík árið 1989 og bjó þar fyrstu árin en ólst svo upp í Garðinum svo fyrstu minningarnar eru þaðan. „Ég var held ég hefðbundið barn, byrjaði snemma að æfa íþróttir og þá helst fótbolta, ég á bara góðar minningar af því að hafa alist upp í Garðinum, þetta er yndislegt samfélag og mér finnst alltaf jafn gott að koma þangað. Ég fékk snemma áhuga á tónlist og um þrettán ára aldurinn fékk ég minn fyrsta gítar. Ég er ættuð frá Vestmannaeyjum, amma mín og afi í móðurætt eru þaðan eins og Geiri frændi minn, sem kenndi mér fyrstu gítargripin og fljótlega var ég farin að semja. Ég hafði strax mjög mikinn áhuga á að reyna búa til lög og skrifa texta, í raun þurfti ég að læra á hljóðfæri til að geta komið lögunum frá mér. Ég gat dundað mér endalaust inni í herbergi að teikna, skrifa texta og æfa mig á gítarinn og ég gekk líka í tónlistarskólann í Garðinum, var með frábæra kennara þar. Ég var ánægð með hvað þeir ýttu mér meira út í að læra m.v. að ég væri að semja, í stað þess að kenna mér á hefðbundinn máta. Mér fannst leiðinlegt að læra nótur og þetta hefðbundna sem manni er kennt í tónlistarskóla en fékk í staðinn aðeins að leika lausum hala. Í dag er ég hins vegar farin að hafa áhuga á að læra að lesa nótur, mér finnst magnað hvernig tónlistarmaður getur mætt í gigg án þess að hafa heyrt viðkomandi lag og spilar það bara eftir nótum!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir grunnskóla fór ég í FS og var þá farin að spila aðeins opinberlega, kynntist fljótlega Brynjari Leifssyni, gítarleikara, sem er með mér í Of Monsters and Men (OMAM) í dag og við fórum að spila saman. Við byrjuðum að spila í Keflavík, t.d. á Paddy´s og vorum farin að spila talsvert í Reykjavík og víðar. Þarna vorum við eingöngu að spila mín lög, við Brynjar höfðum mjög svipaðan tónlistarsmekk og „bonduðum“ mjög vel tónlistarlega. Eftir nám í FS flutti ég svo til Reykjavíkur, fór í myndlistaskólann að læra myndlist, vann m.a. á videoleigu og var að spila, fljótlega urðu svo kaflaskil má segja.“

Of monsters and men

Það leið ekki á löngu þar til upphafið af því ævintýri sem er búið að vera í gangi síðan þá og er hugsanlega bara rétt byrjað, hófst.

„Fljótlega eftir að ég flutti í bæinn kynntist ég Ragga [Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari í OMAM], ég hafði heyrt hann syngja og hreifst af röddinni hans, spurði hvort hann vildi ekki prófa að syngja og spila með mér. Hann var til og við spiluðum þrjú saman í smá tíma en svo kom að Músíktilraunum og við ákváðum að skrá okkur til leiks. Raggi þekkti trommuleikarann Arnar Rósenkranz Hilmarsson sem var í hljómsveitinni Cliff Clavin en hann var orðinn þreyttur á að tromma og vildi spila á eitthvað annað með okkur, endaði á að spila á melódikku, Raggi spilaði á klukkuspil, ég á kassagítar og Brynjar á rafmagnsgítar. Við æfðum okkur fyrir keppnina og fimm mínútum fyrir skráningu kom Raggi upp með nafnið á hljómsveitinni, Of monsters and men en það kom úr hugarheimi Ragga sem var að gera myndasögu sem fjallaði um mannfólk og skrímsli. Við tókum þrjú lög í keppninni og eitt þeirra, Love, love, love rataði svo á fyrstu plötuna okkar sem heitir My head is an animal. Hin lögin voru Phantom og Sugar in a bowl, þau komu bæði út á tíu ára afmælisútgáfu My head is an animal. Okkur gekk greinilega vel í keppninni, við unnum og verðlaunin voru m.a. upptökutímar í stúdíói og við réðumst strax í að taka upp plötu. Þeir tuttugu stúdíótímar sem við fengum í verðlaun dugðu skammt en við söfnuðum öll peningum, fengum lánað og My head is an animal kom út 20. september 2011, ári eftir að við unnum Músíktilraunir,“ segir Nanna.

Áhugi frá Bandaríkjunum

Hljómsveitin tók breytingum eftir sigurinn í Músíktilraunum. Arnar fór í sína eðlilegu stöðu á bak við trommusettið, Kristján Páll Kristjánsson plokkaði bassann og Árni Guðjónsson spilaði á píanó, hljómborð og harmonikku. Ragnhildur Gunnarsdóttir, trompetleikari, var líka í bandinu á þessum tíma en síðan þá eru hún og Árni snúin til annarra verka. Sveitin kom fram á Iceland Airwaves haustið 2011 og út frá því fæddist óvænt áhugi frá Bandaríkjunum.

„Þegar við gáfum plötuna út höfðum við mesta trú á tveimur lögum en útvarpsstöðvarnar höfðu mesta trú á Little talks, blessunarlega má kannski segja því lagið fékk strax mjög mikla spilun. Ég man hvað það var góð tilfinning að vita að fólk kynni að meta tónlistina okkar en þess ber líka að geta að á þessum tíma var landslagið allt öðruvísi, Spotify var ekki komið til sögunnar, Facebook varla eða hvað þá aðrir samfélagsmiðlar og plötu- og geisladiskasala enn á fullu. Við vorum mikið að spila í kringum Iceland airwaves árið 2011 og á einu giggi á torgi niðri í bæ segir sagan að Bandaríkjamaður hafi labbað hjá, hlustað á okkur spila Little talks og tók það upp á símann sinn og sendi vini sínum sem vann á útvarpsstöð í Bandaríkjunum. Útvarpsstöðin setti lagið strax í spilun og það breiddist víðar út. Við vorum líka að spila á svokölluðu „Off venue“ [tónleikar utan dagskrár] á Iceland airwaves fyrir útvarpsstöð í Seattle sem heitir KEXP og áður en varði vorum við komin með ansi mikla spilun víða í Bandaríkjunum. Þegar ég hugsa til baka er gaman að velta fyrir sér litlu tilviljununum í lífinu, hvað hefði gerst ef þessi maður hefði ekki gengið fram hjá þegar við vorum að spila á þessu torgi, eða ef við hefðum ekki nennt að spila þetta gigg heima í stofu hjá Ragga fyrir KEXP, sem kom upp með skömmum fyrirvara. Upp frá þessu kom mikill áhugi frá Bandaríkjunum og við spiluðum „showcase“-tónleika [tónleikar settir upp fyrir plötufyrirtæki], gerðum í kjölfarið samning við Universal Music og út frá þessu vorum við farin að spila á fullu í Bandaríkjunum, tókum þátt í fullt af tónlistarhátíðum og spiluðum mikið.“

Vel heppnuð önnur plata

Oft er talað um að hljómsveitir eigi erfitt með að fylgja góðri frumraun eftir. Það átti aldeilis ekki við um Of monsters and men, önnur plata sveitarinnar, Beneath the skin fékk frábæra dóma og mörg laganna fengu mikla útvarpsspilun. Sterkasta vígi hljómsveitarinnar eru Bandaríkin en hróðurinn er farinn að berast út um allan heim.

„Þegar við gefum út plötu höfum við venjulega tekið tvo Ameríku- og Evróputúra og farið einu sinni til Asíu, Ástralíu og Suður Ameríku. Okkur tókst mjög vel upp með aðra plötuna og lagið Crystals fékk strax mikla spilun. Við túruðum og fórum svo að vinna að gerð þriðju plötunnar, Fever dream sem kom út árið 2019. Við gátum ekki fylgt þeirri plötu eins vel eftir því COVID skall á ári síðar og svo erum við að vinna í fjórðu plötunni núna. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig við erum að vinna þessa fjórðu plötu, ég held að þótt við glöð vildum þá gætum við ekki samið þessa plötu eins og þá fyrstu. Við erum öll rúmum tíu árum eldri, erum búin að þroskast og breytast og eðlilega breytist tónlistin með. Ég er t.d. farin að leika mér að því að semja lög með því að stilla gítarinn öðruvísi en í hefðbundinni stillingu. Þekktasta aðferðin er hugsanlega að „droppa D-strengnum“ [E strengur gítars lækkaður í D]. Ég hef t.d. mjög gaman af því að stilla gítarinn í D, A, D, Fís, A D. Þegar maður leggur þannig hljóm þá ómar gítarinn ofboðslega fallega, svo setur maður puttana bara einhvers staðar sem meikar engan sens í hefðbundinni stillingu og eitthvað nýtt og fallegt gerist. Ég fór að reyna þetta þegar ég var orðin pínulítið leið á að spila á gítarinn með hefðbundinni stillingu, þá var frábært að geta víkkað sjóndeildarhringinn svona út,“ sagði Nanna.

Sólóplata og framtíðin

Eins og kom fram var Nanna lengi búin að spila ein áður en hljómsveitin var stofnuð. Eðlilega breytti hún sínum aðferðum við að semja því hljómsveitin vinnur öll lög saman. Unga, litla Nanna var kannski búin að sitja á hakanum allan þennan tíma og þegar COVID brast á ákvað Nanna að endurnýja kynnin við hana og gaf út sína fyrstu sólóplötu, How to start a garden.

„Ég gaf sólóplötuna út í maí í fyrra en hún var tekin upp í nágrenni New York, m.a. í stúdíói sem heitir Dreamland og var áður kirkja, hljómburðurinn þar er einstakur. Á plötum hljómsveitarinnar hefur alltaf læðst eitt og eitt rólegt lag en yfir höfuð eru alltaf meiri læti hjá okkur en ég var vön þegar ég byrjaði ein. Þess vegna hefur sú hlið mín kannski verið í farþegasætinu og mér fannst kjörið tækifæri að endurvekja hana í COVID, ég þurfti að fá útrás fyrir þá hlið í mér. Raggi sem er með mér hljómsveitinni kom aðeins að gerð plötunnar með mér en annars vann ég hana alfarið með nýju fólki, t.d. Bjarna Þór Jenssyni sem er frábær tónlistarmaður og vinur minn. Hann er að taka nýju plötu OMAM upp núna en hún verður öll tekin upp í stúdíóinu okkar hér á Íslandi. Við erum sjálf að fara gefa þessa plötu út, þ.e. við erum ekki með útgáfufyrirtæki og því er engin tímapressa á okkur. Ég er svolítið spennt yfir þessu því þetta minnir mig á þegar við byrjuðum, þá vorum við ekki hjá neinu útgáfufyrirtæki. Ég held að það sé raunhæft að stefna á að platan komi út í lok árs eða í byrjun næsta árs.

Ef þú spyrð mig hvað síðasta plata seldist í mörgum eintökum þá veit ég ekki einu sinni svarið við því, þetta er svo ofboðslega breytt landslag, það kaupir enginn plötur lengur. Hörðustu aðdáendurnir kaupa alltaf plötuna en eins og ég segi, ég hef ekki hugmynd um hvað sú síðasta seldist í mörgum eintökum.“

Hvar verður Nanna eftir þrjú ár?

„Góð spurning. Þegar við verðum búin að klára fjórðu plötuna og fylgja henni eftir finnst mér líklegt að ég fari að taka upp næstu sólóplötuna mína en annars veit maður aldrei, kannski verð ég komin í allt aðrar pælingar þá. Ég er 35 ára gömul í dag og er spennt fyrir framtíðinni, hljómsveitin er á frábærum stað og verður fróðlegt að sjá hvernig við munum þróast.

Ég fer oft út í Garð, mamma og amma búa þar og mér finnst alltaf jafn gott að koma þangað og er ofboðslega þakklát fyrir að hafa alist þar upp. Allt þetta frelsi gerði mér gott, þarna byrjaði sköpunargleðin að krauma í mér og ljóst að mér mun alltaf þykja mjög vænt um Garðinn minn. Ætli ég eigi ekki eftir að semja fleiri lög um staðinn í framtíðinni en eitt laganna á sólóplötunni minni, Seabed, fjallar um Garð. Það er eina lagið sem ég hef að hluta til sungið á íslensku en alltaf þegar ég flutti lagið á tónleikaferðinni eftir útgáfu plötunnar sagði ég áheyrendum að lagið væri um heimabæinn minn á Íslandi, sem mér þykir svo vænt um,“ sagði Nanna að lokum.