Public deli
Public deli

Pistlar

Óraunverulegt raunveruleikasjónvarp
Föstudagur 19. janúar 2024 kl. 06:03

Óraunverulegt raunveruleikasjónvarp

Sunnudagurinn 14. janúar 2024 mun aldrei gleymast, verður einn af þessum dögum sem breytir heimsmynd okkar og ekkert verður einhvern veginn eins. Við Íslendingar munum örugglega öll aldrei gleyma hvar við vorum þegar byrjaði að gjósa í Grindavík í beinni útsendingu og við fylgdumst agndofa með. Við hjónin sátum límd við skjáinn heima hjá okkur í París. Þetta var óraunverulegt raunveruleikasjónvarp, hálfgerð vísindahrollvekja sem var sýnd hægt. Þarna horfðum við líka á sannkallaðar hetjur sem sýndu ótrúlegt hugrekki og dirfsku – björgunarsveitarfólk og verktakar sem með miklu snarræði gátu bjargað mikilvægum tækjum og miklum verðmætum.

Ég er fjarri þessum atburðum og afleiðingar þeirra hafa ekki bein áhrif á daglegt líf mitt og minna nánustu. Það er því óhugsandi fyrir mig að setja mig í spor íbúa Grindavíkur sem um margra mánaða skeið hafa mátt búa við nánast stanslausar hamfarir og óöryggi. Þetta er fordæmalaus upplifun hvað öryggi og framtíðaráætlana íbúanna varðar – öryggi fjölskyldunnar, heimilisins, fjárhagslegs öryggis og sjálfrar framtíðar samfélagsins sem þeir lifa og hrærast í. Við þekkjum það öll hversu gott það er að koma heim eftir langan dag í vinnu eða skóla, eða eftir lengri fjarveru. Heim í öryggið. Við leggjum okkur fram um að gera heimili okkar eins öruggt og mögulegt er til þess að láta okkur líða enn betur og öruggari heima. Við setjum upp reykskynjara, höfum slökkvitæki og eldvarnarteppi við hendina til öryggis, við lokum stigaopum til að koma í veg fyrir að börnin okkar falli ekki niður bratta stiga og fáum okkur þjófavarnakerfi til að auka enn frekar á þá öryggistilfinningu sem við viljum tengja við heimili okkar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En gagnvart móður náttúru stöndum við nú máttvana. Hvernig er hægt að tryggja öryggi íbúa í þessum aðstæðum sem við erum að upplifa, verður lífið í Grindavík einhvern tímann eins? Varnargarðar utan um byggð og þar með heimilin geta vissulega gert mikið gagn en eins og sannaðist á sunnudaginn þegar sprungan opnaðist fyrir innan garðinn náðu þeir ekki að tryggja það öryggi sem að var stefnt.

Grindvíkingar eru sterkir, úrræðagóðir og þrautseigir töffarar. En jafnvel þeir eru margir hverjir að bogna svo ég vísi til ummæla Fannars bæjarstjóra, sem hefur staðið sig með eindæmum vel í að halda utan um fólkið sitt og stappa í það stálinu. Nú þarf fyrst of fremst að byggja varnargarða utan um íbúana – fólkið sjálft – og veita því alla þá aðstoð sem möguleg er. Við getum ekki eytt óvissunni sem náttúruöflin valda en það felst öryggi í því að finna stuðning – hann eigum við og getum veitt.

Hugur minn er hjá Grindvíkingum.