Pistlar

Mokveiði og stuttir túrar
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 29. mars 2024 kl. 06:07

Mokveiði og stuttir túrar

Það líður að páskum og þá munu allir fylla maga sinn af gómsætu súkkulaði – og líklegast munu sjómennirnar okkar gera það líka.

Eftir mokveiðina í janúar og febrúar þá hefur núna í mars verið meiri stýring á bátunum og það sést nokkuð vel á línubátunum því þeir hafa róið mun sjaldnar núna í mars en í janúar og febrúar. Til dæmis er Margrét GK aðeins búin að fara í sex róðra núna í mars en samt komin með um 100 tonna afla, sem er ansi gott miðað við aðeins sex róðra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ef við lítum á aðra báta þá er Indriði Kristins BA t.d. með 177 tonn í ellefu róðrum. Af þessum afla bátsins eru 55 tonn lönduð í Sandgerði, þar á undan var báturinn búinn að landa á Bolungarvík, Tálknafirði og Ólafsvík.

Auður Vésteins SU 166 tonn í sextán róðrum, Óli á Stað GK 158 tonn í tólf, Kristján HF 157 tonn í ellefu og mest 23,5 tonn í róðri, Gísli Súrsson GK 140 tonn í tíu, allir að mestu í Sandgerði en reyndar eru Einhamarsbátarnir komnir aðeins í Grindavík þegar þessi pistill er skrifaður. Hópsnes GK 88 tonn í tíu róðrum, Dúddi Gísla GK 82 tonn í aðeins fimm róðrum, Sævík GK 77 tonn í sjö og mest 18,6 tonn í róðri, öllu landað í Þorlákshöfn, Geirfugl GK 69 tonn í átta, Daðey GK 49 tonn í sex. Gulltoppur GK er eini báturinn sem er fyrir norðan en hann er á Siglufirði og hefur landað þar 31 tonn í sjö róðrum.

Dragnótabátarnir hafa lítið róið en veiðin hjá þeim er engu að síður búin að vera mjög góð. Sigurfari GK með 137 tonn í aðeins sex róðrum og mest 28 tonn í róðri, Siggi Bjarna GK 116 tonn í sjö og mest 22 tonn, Benni Sæm GK 103 tonn í sex og mest 20 tonn og Aðalbjörg RE 59 tonn í sex og mest 13,9 tonn. Maggý VE sem var búin að vera í Sandgerði frá áramótum er komin til Vestmannaeyja og hefur landað í heildina 138 tonnum í tíu róðrum, af því eru 44 tonn lönduð í Sandgerði.

Togararnir hafa mokveitt en þeir hafa mikið verið á veiðum í kringum Vestmannaeyjar og er Áskell ÞH kominn með 437 tonn í róðrum og mest 95 tonn og Vörður ÞH 443 tonn í fimm og mest 100 tonn. Báðir þessir togarar eru svokallaðir 29 metra togarar og eru í eigu Gjögurs ehf. Hafa þeir landað í Þorlákshöfn og Hafnarfirði.

Sturla GK, sem Þorbjörn ehf. í Grindavík gerir út, hefur mokveitt og þegar þessi pistill er skrifaður þá hefur Sturla GK landaði 658 tonnum í átta róðrum og mest 92 tonn. Landað í Þorlákshöfn og kom með 80 tonn til Grindavíkur í einni löndun. Myndin sem fylgir með þessum pistli er tekin þegar Sturla GK var að sigla fram hjá Sandgerði en báturinn hafði þá verið að veiðum vestur af Vestmannaeyjum og sigldi sem leið lá alla leið til Hafnarfjarðar. Nokkuð löng leið.

Mokveiði sem Sturla GK er í hefur verið þannig að túrarnir hafa allir verið mjög stuttir, innan við tveir sólarhringar, en hafa komist upp í 82 tonna löndun eftir aðeins tæpa tvo daga á veiðum. Það er um 41 tonn á dag.

Sóley Sigurjóns GK er komin norður á rækjuveiðar og hefur landað 22,4 tonnum í einni löndun, af því var rækja 10,78 tonn. Togarinn landar á Siglufirði en rækjunni er ekið til Hvammstanga. Mest af fiskinum, sem sé þorski, ýsu og ufsa er ekið í vinnslu Nesfisks í Garðinum og hlýra, steinbít og grálúðu er ekið til vinnslu hjá Miðnesi ehf. í Sandgerði (sem áður var Ásberg ehf. og þar á undan Miðnes hf.).

Grásleppuvertíðin árið 2024 er hafin og eins og staðan er núna þá hefur aðeins einn bátur hafið grásleppuveiðar frá Suðurnesjum, það er Guðrún GK 96 sem Sævar Baldvinsson í Sandgerði á en það má geta þess að Sævar á líka annan bát sem líka heitir Guðrún GK. Sá bátur er Guðrún GK 90 og hefur Sævar róið á honum á færunum og var til að mynda næst aflahæsti handfærabátur Íslands árið 2022 á þeim báti. Á grásleppubátnum hefur Guðrún GK 96 landað 380 kílóum í einni löndun og af því var grásleppa 350 kíló.