Mannlíf

Tækifæri til að efla sjálfstraust kvenna og fá þær til að sjá fegurðina í sjálfum sér
Sunnudagur 17. mars 2024 kl. 06:03

Tækifæri til að efla sjálfstraust kvenna og fá þær til að sjá fegurðina í sjálfum sér

Nafn: Guna Mežule
Aldur: 33 ára
Menntun: Bachelor í viðskiptafræði
Við hvað starfar þú og hvar? Rekstrarstjóri hjá Teya


Guna Mežule er frá Lettlandi en hún kynntist Íslandi þegar hún starfaði á alþjóðavettvangi fyrir leyfishafa á alþjóðasvæðum hjá Avis Budget Group. „Ísland var eitt af löndunum sem ég fékk að kynnast og varð ég yfir mig ástfangin af þessu landi í fyrstu viðskiptaheimsókn minni.“ Í dag starfar hún sem rekstrarstjóri hjá Teya, er talsmaður Doterra, sjálfstætt starfandi ljósmyndari og býr til handgerða skartgripi undir vörumerkinu Mežule Gems.

Hver er konan?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég heiti Guna Mežule, er 33 ára gömul, með Bachelor of Business Administration gráðu og starfa sem Business Operations Manager hjá Teya.

Við hvað starfar þú og hvar?

Ég starfa sem rekstrarstjóri hjá Teya, er talsmaður Doterra, sjálfstætt starfandi ljósmyndari og svo bý ég til handgerða skartgripi undir vörumerkinu Mežule Gems.

Sem rekstrarstjóri Teya aðstoða ég forstjórann og vinn náið með deildarstjórum. Ég leiði ýmis verkefni þvert á deildir með því markmiði að straumlínulaga ferla og draga úr kostnaði, auka hagnað og bæta innri og ytri ánægju viðskiptavina. Þessa dagana er ég í fæðingarorlofi.

Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt eða áhugavert?

Verkefnin sem ég vinn að hjá Teya eru alltaf spennandi, við leggjum mikla áherslu á það hvernig við getum þjónað viðskiptavinum okkar betur og hvernig við getum einfaldað daglegt líf þeirra. Markmið Teya er að auka ánægju eigenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með því að leyfa þeim að einbeita sér að rekstri fyrirtækjanna í stað þess að eyða tíma í að reikna út gjöldin sín og fleira. Ég tel það ótrúlega valdeflandi að starfa hjá fyrirtæki sem einbeitir sér að því að styrkja og valdefla aðra.

Er eitthvað áhugavert sem þú ert sjálf að gera?

Eins og ég nefndi er ég sjálfstætt starfandi ljósmyndari, talsmaður Doterra og skartgripasmiður en þessar ástríður mínar efla mig mikið. Með ljósmyndun fæ ég tækifæri til að efla sjálfstraust kvenna og fæ þær til að sjá fegurðina í sjálfum sér. Sem talsmaður Doterra aðstoða ég konur að lifa heilbrigðara lífi. Konur í viðskiptalífinu hafa tilhneigingu til að leggja mjög hart að sér og þannig er auðvelt að gleyma eigin vellíðan, þannig að ástríða mín er að minna á og tala fyrir mikilvægi þess að hugsa um sjálfan sig fyrst svo þú getir séð um aðra. Nýjasta ljósmyndaverkefnið sem ég tók þátt í var Ljósmyndadagur FKA Suðurnes, það var skemmtilegt tækifæri til að tengjast og kynnast fleiri konum og sögum þeirra. Það er ánægjulegt að sjá konurnar vera uppfæra prófíla sína á LinkedIn og  samfélagsmiðlum sínum með fall-egu, nýju andlitsmyndum sem ég tók af þeim.

Hvað hefur þú verið að gera, hvað ertu að gera núna og hver eru framtíðarplönin?

Upphaflega kem ég frá Lettlandi en þar hóf ég ferilinn minn í ferðaþjónustu þar sem ég var deildarstjóri hjá bílaleigu. Síðar var ég sölustjóri hjá Avis og Budget bílaleigum og SIA Ideal Services ásamt því að sjá um þjónustu- og söluverkefni í Eystrasaltslöndunum. Eftir það fékk ég ómissandi tækifæri til að leiða þjónustu- og söluverkefni fyrir leyfishafa á alþjóðasvæðum hjá Avis Budget Group sem er Forbes 500 fyrirtæki. Þetta var mjög spennandi tækifæri þar sem ég var 26 ára á þeim tíma. Ég var í því starfi í þrjú ár og öðlaðist dýrmæta reynslu af því að vinna á alþjóðavettvangi.

Ísland var eitt af löndunum sem ég fékk að kynnast og varð ég yfir mig ástfangin af þessu landi í fyrstu viðskiptaheimsókn minni. Í starfi mínu hér hef ég verið að ráðleggja fyrirtækjum hvernig þau geta bætt þjónustu sína og sölustig, ég hef hannað sérsniðnar aðgerðaáætlanir til að gera starfsemi þeirra skilvirkari og sá um þjálfun á  teymunum þeirra. Samhliða því hélt ég ýmisleg námskeið í Evrópu og í Asíu. Svo skall Covid á og ég flutti til Íslands þar sem ég kynntist unnustanum mínum.

Síðastliðin þrjú ár hef ég starfað hjá Teya þar sem ég byrjaði í samstarfs- og viðskiptadeild áður en ég tók við rekstrarstjórnunarhlutverkinu sem ég er í nú. Framtíðaráætlanir eru áframhaldandi efling í starfi ásamt því að taka meiri þátt í verkefnum þar sem ég get nýtt reynsluna mína. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á hagræðingu í rekstri en besta kunnátta mín snýr að úrlausn vandamála og verkefnastjórnun. Í framtíðinni vonast ég til þess að halda áfram að veita aukna fyrirtækjaráðgjöf og hjálpað fleiri fyrirtækjum að verða skilvirkari.

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum og hvaða kostir telur þú fylgja því að búa hér?

Ég flutti til Íslands síðla vors árið 2020 og hef búið í Innri-Njarðvík síðan. Ég gjörsamlega elska kyrrðina sem ég upplifi hér og nálægðina við hafið.

Kostir þess að búa á Suðurnesjum er hversu nálægt það er höfuðborginni en hér er miklu meiri ró. Hér er samfélag sem er mjög náið. Ég elska tilfinninguna sem ég upplifi þegar ég fer í matarinnkaup og maður hittir alltaf að minnsta kosti eina manneskju sem maður þekkir.

FKA og ég

Ég tel mig vera mjög heppna að vera hluti af FKA Suðurnes en ég gekk í félagið í fyrra. Konurnar í FKA Suðurnes eru hvetjandi og vinna virkilega hart að sér að því að tengja konur saman. Ég vil fá að hrósa stjórninni fyrir þann tíma og fyrirhöfn sem þær leggja í að skipuleggja mánaðarlegu viðburði félagsins sem eru virkilega áhugaverðir og nytsamlegir.

Sem kona sem hefur verið í stjórnendastörfum frá unga aldri, þá aðallega í atvinnugreinum þar sem karlmenn eru við stjórnvölin, þekki ég mikilvægi og kraft þess að hafa öflugar konur sem bakland. Eftir að ég heyrði af FKA og fyrir hvað félagið stendur fyrir þótti mér eina rökrétta ákvörðunina að ganga í félagið. Þetta er tækifæri til að kynnast konum sem eru sambærilegar mér og tækifæri fyrir mig til að koma mér betur inn í íslenskt samfélag.

Það er mikill fjöldi af fræðslu-, tengsla- og öðrum viðburðum sem hjálpa mér við að byggja upp bæði faglegt tengslanet ásamt því að fá að aðlagast samfélaginu hraðar. Hjá FKA getur falleg, persónuleg og fagleg vinátta fengið að blómstra. FKA hjálpar mér að vaxa á þeim sviðum sem mig langar að þróast áfram á á þessu ári. Ég er einnig að taka þátt í leiðbeinandaverkefni FKA og var svo heppin að fá einmitt þann leiðbeinanda sem mig langaði í.

Mitt heilræði til kvenna á Suðurnesjum er hversu mikilvægt það er að koma sér af stað, hitta nýtt fólk, að vera opin fyrir nýjum möguleikum og þú veist aldrei hvaða jákvæðu áhrif það mun hafa í líf þitt.

FKA Suðurnes

Markmið með verkefninu er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna og sýna hversu megnugar og magnaðar þær eru.