Mannlíf

Lúða í hlaupi og kjúklingaleggir með álpappír á endunum á veisluborðinu
Þriðjudagur 12. mars 2024 kl. 11:22

Lúða í hlaupi og kjúklingaleggir með álpappír á endunum á veisluborðinu

Bylgja Baldursdóttir fermdist 15. apríl 1984 í Hvalsneskirkju. Í árgangi 1970 voru bara fimmtán fermingarbörn og þau fermdust öll saman hjá séra Guðmundi Guðmundssyni. Það var þröngt við altarið.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Í árgangi 1970 í Sandgerði voru einungis fimmtán fermingarbörn og við fórum fram á það við prestinn að fá að fermast öll í einni athöfn í kirkjunni. Það varð til þess að við þurftum að sitja mjög þétt saman við altarið og þegar einn byrjaði að hlæja þá á endanum hristist allur hópurinn af hlátri en fáir vissu af hverju við vorum að hlæja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Af trúarlegum ástæðum, tók virkan þátt í félagsstarfi kirkjunnar og KFUM/K.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Fermingarundirbúningurinn var frekar hefðbundinn en ég held að mesti undirbúningurinn hafi verið hjá mömmu og ég man eftir einu samtali á milli foreldra minna þar sem pabbi spurði með sinni stökustu ró hvort það væri ekki barnið sem væri að fara að fermast en ekki heimilið. Fermingarfræðslan hjá Sr. Guðmundi var í skólanum einu sinni í viku þar sem hann fór yfir sálma, sögur og trúarjátninguna.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Fermingarveislan var heima á Vallargötunni og vegna fjölda ættingja og vina þá var fólki boðið í tveimur hollum, það fyrra kl. 16:00 og seinna kl. 19:00. Í veislunni var bæði boðið upp á mat og kaffi. Í matinn voru m.a. kjúklingaleggir með álpappír á endunum, nautapottréttur, lúða í hlaupi og hlaðborð með tertum og brauðréttum.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Fermingargjafirnar voru mjög margar, fimm hálsmen, fimm skartgripaskrín, fimm lampar, 8.000 kr. í peningum o.s.frv. en það sem stóð mest upp úr var Ægistjaldið frá móðurfjölskyldunni og diskamyndavél af nýjustu gerð frá góðum vinum.

Manstu eftir fermingarfötunum eða greiðslunni?

Fermingarfötin voru keypt í Reykjavík eftir langa leit. Ég fór í greiðslu til Þórunnar Einars, sem fékk það hlutverk að flétta hárið upp þar sem ég mátti ekki láta klippa mig fyrr en eftir fermingu. Myndin talar sínu máli um herlegheitin.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Mér er boðið í sex fermingarveislur þetta vorið og finnst alltaf jafn ánægjulegt að fagna með fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra.