Mannlíf

Góð kvöldstund á Djöflaeyjunni
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 22. mars 2024 kl. 06:07

Góð kvöldstund á Djöflaeyjunni

Leikfélagi Keflavíkur tekst verulega vel upp með sviðsetningu sinni á leikverkinnu Þar sem Djöflaeyjan rís. Leiksýningin var frumsýnd í Frumleikhúsinu við Vesturbraut í Keflavík síðasta föstudagskvöld. Áhorfendur brugðust mjög vel við sýningunni og var leikurum fagnað vel og lengi í lok sýningar.

Þar sem Djöflaeyjan rís er skáldsaga eftir Einar Kárason sem kom fyrst út 1983 og fjallar um líf fjölskyldu Karólínu spákonu sem býr í braggahverfinu Thulekampi í Reykjavík á umrótstímum fyrstu áranna eftir Síðari heimsstyrjöldina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Leikgerðin, sem samin er af Kjartani Ragnarssyni, er byggð á bókum Einars Kárasonar Þar sem Djöflaeyjan rís og Gulleyjan. Friðrik Þór Friðriksson gerði samnefnda kvikmynd, Þar sem djöflaeyjan rís, eftir sögunni árið 1996.

Hópurinn sem kemur að sviðsetningu verksins hjá Leikfélagi Keflavíkur er fjölbreyttur. Í leikarahópnum eru bæði reynsluboltar og einnig leikarar sem eru að stíga sín fyrstu skref á leiksviði. Á bakvið tjöldin er einnig fólk með mikla reynslu og það skilar sér vel inn í sýninguna. Ýmis tæknileg atriði eru leyst meistaralega vel með sviðsmyndinni og myndvarpa sem kemur tíðarandanum og umhverfinu vel til skila.

Atvinnuleikhús og áhugaleikfélög hafa sett upp þessa leikgerð sem Leikfélag Keflavíkur tókst á hendur. Árni Grétar Jóhannsson leikstýrði verkinu en hann hefur mikla reynslu í áhugaleikhúsum. Óhræddur lét hann karl takast á við hlutverk konu og konu í hlutverk karls.

Hjá Leikfélagi Keflavíkur taka fimmtán leikarar þátt í uppsetningu sýningarinnar og leika þau tuttugu og fjögur hlutverk sem eru í sýningunni, þar sem nokkrir leikarar fara með tvö og jafnvel þrjú hlutverk.

Norðanmaðurinn Daði Freyr Þorgeirsson er burðarmaður í sýningunni. Hann leikur Karólínu spákonu og fer listavel með hlutverkið. Í viðtali við Víkurfréttir í aðdraganda sýningarinnar sagði hann alls ekki auðvelt að leika gamla konu, verandi fúlskeggjaður karlmaður þegar hann mætti á fyrstu æfingu. Skeggið fékk að fjúka og Daði Freyr sagði að þegar hann hafi hætt að reyna að leika gamla konu og farið að túlka Karólínu eða Línu, hafi allt gengið upp. Hann rúllaði upp hlutverkinu á frumsýningunni og stóð sig með mikilli prýði.

Í leikverkinu er fylgst með fjölskyldu Karólínu yfir þó nokkur ár. Þau Danni, Baddi og Dollí, sem eru systkini, leika einnig stórt hlutverk, alveg frá því þau eru börn og fram á fullorðins ár. Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld leikur Dollí og túlkar persónuna skemmtilega. Hún minnti undirritaðan vel á Dollí úr kvikmyndinni Þar sem Djöflaeyjan rís. Þá verð ég að hrósa Margréti Örnu Ágústsdóttur fyrir túlkunina á Gretti Ásmundssyni. Þar skellti leikstjórinn kvenmanni í hlutverk karlmanns, sem tæklaði hlutverkið stórvel.

Lísa Einarsdóttir og Birgitta Ösp Smáradóttir eru stórgóðar söngkonur í sýningunni. Lísa leikur Gógó sem í upphafi sýningarinnar fer til Ameríku en birtist svo í söng í sýningunni. Birgitta er í hlutverki Þórgunnar og syngur einnig listavel í sýningunni.

Það má segja um alla leikarana að þeir komast mjög vel frá sýningunni. Enga hnökra var að sjá á frumsýningu og það er eftirtektarvert að það heyrðist vel í öllum. Öll voru mjög skýr í tali.

Það verður að hrósa fólkinu á bakvið tjöldin fyrir tæknilega útfærslu á sýningunni. Sviðsmyndin er mjög góð og myndvarpinn setti flottan svip á sýninguna. Þá er flugslysið undir lok sýningarinnar gæsahúðar atriði.

Undirritaður tók sautján ára dóttur sína með á frumsýninguna og hún hafði á orði að það væri ekkert gefið eftir þegar kom að áflogum í sýningunni. Leikræn túlkun tekin alla leið. Hún roðnaði yfir kynlífssenunum og var brugðið þegar hvíti kötturinn hafði mætt örlögum sínum.

Það er algjörlega hægt að mæla með kvöldstund í Frumleikhúsinu Þar sem Djöflaeyjan rís.


Takk fyrir mig.
Hilmar Bragi Bárðarson