Mannlíf

Er spennt að fermast á Bessastöðum
Sunnudagur 17. mars 2024 kl. 06:05

Er spennt að fermast á Bessastöðum

Þórey Arna Arnþórsdóttir er í hópi grindvískra fermingarbarna sem fermast á næstunni. Systkini Þóreyjar héldu öll veisluna sína í Northern light Inn hótelinu við Bláa lónið og fjölskyldan vonast eftir að geta haldið í hefðina. Þórey er ekki búin að ákveða hvað hún ætlar sér að verða þegar hún verður stór en þangað til ætlar hún að mennta sig og æfa bæði fótbolta og körfubolta.

Þórey hefur kunnað vel við sig í nýja umhverfinu í Kópavogi. „Ég hef náð að venjast þessu bara vel, ég fer í safnskólann í Ármúla, tek rútu sem byrjar á Suðurnesjunum og er klukkan hálf átta rétt hjá þar sem við búum. Við vitum ekki ennþá hvernig verður með skólann á næsta ári, ég held að ég myndi vilja prófa að fara í nýjan skóla en það fer svolítið eftir því hvað vinkonur mínar ætla að gera, við viljum halda hópinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég er að æfa bæði fótbolta og körfubolta og það hefur alveg verið flókið, mamma þurfti mikið að skutla mér til að byrja með en ég er búin að læra á strætóana svo þetta hefur vanist. Fótboltinn æfir á Álftanesi, í Sporthúsinu og hjá ÍR en karfan oftast í Smáranum, stundum líka í Garðabæ hjá Stjörnunni.

Fermingarundirbúningurinn byrjaði eðlilega og við fórum í Vatnaskóg strax í upphafi eins og hefur alltaf verið gert. Við lærðum mikið þar og ferðin var mjög skemmtileg, svo var smá pása frá fermingarfræðslunni og við byrjuðum aftur í lok september. Þá hittum við sr. Elínborgu einu sinni í viku og áttum líka að mæta í messu. Þetta breyttist síðan allt 10. nóvember, við gátum ekkert hist fram að áramótum en sem betur fer var ákveðið að fara aðra ferð í Vatnaskóg. Það var sömuleiðis mjög skemmtileg ferð og við erum búin að læra það sem við þurfum að læra og nú er bara að undirbúa sjálfa ferminguna. Það verður gaman að fermast á Bessastöðum, vonandi fáum við að hitta Guðna forseta. Ég er að fermast til að staðfesta trú mína en viðurkenni líka alveg að ég hlakka til að fá gjafir. Mest vil ég fá pening held ég, er að safna mér fyrir ferð til Spánar í sumar, körfuboltaliðið mitt er að fara í æfingabúðir og við keppum líka. Það er ekki komið á hreint hvar veislan verður haldin, upprunalega átti að halda hana á Northern light Inn hótelinu við Bláa lónið en auðvitað er vafaatriði hvort það gangi eftir. Mamma og pabbi vilja samt halda veisluna þar og halda þannig í hefðina, allar fermingarveislur systkina minna hafa verið þar og það yrði gaman ef ég get haldið mína veislu þar líka en það kemur bara í ljós.“

Íþróttaálfur

Blaðamaður spurði Þóreyju og foreldrana um þessi kaflaskil, að fara frá því að vera barn yfir í að vera táningur. Þórey telur sig ekki mikið hafa breyst en hvað ætlar hún að verða þegar hún verður stór?

„Ég held að ég hafi nú ekkert breyst við að verða táningur, mamma segir samt að ég hafi byrjað að hugsa meira um útlitið þá, kannski er eitthvað til í því og svo hef ég nú þroskast eitthvað segja mamma og pabbi. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, framtíðarplönin núna eru bara að klára skólann og fara í framhaldsskóla, ég ætla líka að stunda íþróttirnar, ég hef mjög gaman af því. Ég er ekki búin að ákveða hvora íþróttina ég legg fyrir mig, mér finnst þær jafn skemmtilegar en mér liggur líka ekkert á að velja alveg strax. Ég ætla bara að hafa gaman af því að vera til, standa mig í skólanum og hafa áhyggjur af því síðar hvað ég ætla mér að verða þegar ég verð stór,“ Þórey Arna að lokum.