Mannlíf

Árið 1983 var toppurinn að vera í teinóttu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 9. mars 2024 kl. 09:03

Árið 1983 var toppurinn að vera í teinóttu

Hélt ögn betri ræðu en frænka sín í sameiginlegri fermingarveislu

Ingvar Guðjónsson er fæddur árið 1969, fermdist því á hinu herrans ári 1983 en hann og fermingarsystkini hans voru þau fyrstu sem fermdust í nýrri kirkju Grindavíkur.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Hversu langt er síðan. Bara góðar minningar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Til að staðfesta skírnina, ég og mitt fólk erum kirkjunar fólk. 

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Hann var bara hefðbundinn, presturinn var Sr. Jón Árni Sigurðsson og fyrsta ferming í nýju kirkjunni í Grindavík.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Veislan var haldin á Sjómannastofunni Vör. Ég og Guðrún Willards frænka héldum veisluna saman. Lágstemmd og vandræðaleg ræða okkar Guðrúnar stendur þar upp úr. Ég var ögn betri en alls ekki mín besta ræða.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Já ég man að ég fékk tvöfalt segulbandstæki, geggjuð græja. Einnig fékk ég 80 cm rúm með hillusamstæðu fyrir ofan frá foreldrum. Svaf í því rúmi þar til ég flutti að heiman, dugði vel en gat verið þröngt á unglingsárunum stundum.

Manstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni?

Árið 1983 var toppurinn að vera í teinóttu og auðvitað var ég í teinóttum jakkafötum og vesti, leðurbindi og svartir spariskór.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Veit það bara ekki en finnst það líklegt, konan veit örugglega meira um það. Mér sýnist ég aldrei sleppa, hef farið í fleiri en tíu stykki sama árið.