Íþróttir

Selena Lott með fjörutíu stig þegar Njarðvík tapaði
Selena Lott var mögnuð í gær en hún gat þó ekki komið í veg fyrir tap Njarðvíkinga. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 21. febrúar 2024 kl. 09:37

Selena Lott með fjörutíu stig þegar Njarðvík tapaði

Njarðvík tapaði fyrir Haukum í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik þegar leikið var í Ólafssal. Haukar náðu að byggja upp forystu í öðrum leikhluta sem Njarðvíkingum gekk erfiðlega að vinna upp. Njarðvíkingar sitja áfram í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Keflavík og fjórum stigum fyrir ofan Grindavík en þessi lið mætast í Blue-höllinni í kvöld.

Haukar - Njarðvík 88:78

Fyrsti leikhluti var hnífjafn en það voru Haukar sem skoruðu síðustu körfuna og náðu tveggja stiga forystu (15:13).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Haukar breyttu svo stöðunni úr 22:18 í 27:18 í fyrri hluta annars leikhluta og héldu níu stiga forskoti þegar flautað var til hálfleiks (41:32).

Þriðji leikhluti var jafn, Njarðvík náði ekki að vinna upp forskotið en héldu þó aftur af Haukum sem höfðu tólf stiga forystu fyrir fjórða leikhluta (67:55).

Njaðvíkingar gengu rösklega til verks í lokaleikhlutanum og tóku að saxa á forskotið. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður jafnaði Selena Lott í 72:72 og virtist vera að hleypa spennu í lokamínúturnar. Haukar svöruðu hins vegar að bragði með þristi og í kjölfarið bættu þær við þremur stigum til að komast í þægilega forystu á ný. Njarðvík náði ekki að vinna upp muninn og annað tapið í röð því staðreynd.

Selena Lott var langatkvæðamest í liði Njarðvíkur og skoraði rúmlega helming allra stiga liðsins, eða fjörutíu alls. Næst henni var Emilie Hesseldal með fimmtán og Ena Viso með níu, þá var Lára Ösp Ásgeirsdóttir með sjö stig, Jana Falsdóttir með fimm og Krista Gló Magnúsdóttir með tvö.