JS Campers
JS Campers

Íþróttir

Rosalega margir sjálfboðaliðar þurfa að koma að þessu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 8. mars 2024 kl. 06:13

Rosalega margir sjálfboðaliðar þurfa að koma að þessu

– segir Jón Ben Einarsson sem hefur verið viðloðandi Nettómótið lengst allra. Sumir segja jafnvel að hann sé Nettómótið sem er stærsta körfuboltamót tímabilsins, fjölskylduhátíð þar sem börnin eru látin ganga fyrir.

„Ég byrjaði sjálfur ekki að æfa körfubolta fyrr en svona fjórtán, fimmtán ára. Þá var eina íþróttahúsið í Keflavík í Myllubakkaskóla, sem er alveg nákvæmlega eins íþróttahús og var við Austurbæjarskóla í Reykjavík. Sama teikning eftir Guðjón Samúelsson, húsameistara ríkisins.

Svo kemur íþróttahúsið í Keflavík [við Sunnubraut] svona 1980 eða 1981. Það voru allir svo spenntir að fá nýtt íþróttahús í Keflavík. Ljónagryfjan var komin í Njarðvík en Njarðvíkingarnir höfðu hana bara fyrir sig, þetta var náttúrulega sitt hvort sveitarfélagið. Ég man alltaf eftir því að það þurfti sjálfboðaliða til að klára gólfið á sínum tíma, þá var ábyggilega eitthvað farið að lækka eitthvað í buddunni hjá bænum. Það var allt svo mikið holrúm undir steyptu plötunni og til að það væri hægt að setja dúkinn á gólfið, það var fljótandi dúkur, þá þurfti að bora alveg milljón göt á plötuna og dæla lími – og þetta vorum við guttarnir að gera og allskonar sjálfboðaliðar bara til að leggja lokahönd á húsið. Spenningurinn var svo mikill að menn töldu þetta ekkert eftir sér,“ segir Jón Ben og bætir við að með nýja húsinu hafi orðið algjör bylting í aðstöðu og upp úr því varð smá sprenging í körfunni og Keflvíkingar náðu sér vel á strik en fram að því höfðu Njarðvíkingar verið talsvert framarlega. „Þeir voru eldri klúbbur og höfðu náttúrulega aðstöðuna. Sennilega hafði Kaninn töluverð áhrif á þetta hérna og ég man að þeir buðu okkur alltaf í mót uppi á Keflavíkurflugvöll þegar tímabilið var búið hjá okkur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jón var lengi í körfunni og spilaði í tvö ár með Reyni Sandgerði í lok ferilsins. „Seinna árið var eina úrvalsdeildartímabilið hjá þeim. Mjög skemmtilegur tími.

Svo árið 1992 var frændi minn, Hannes Ragnarsson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar og hann plataði mig í að koma inn. Þá var ég eiginlega hættur að spila og fljótlega var maður kominn „all in“ – alveg þangað til konan dró mig af landi brott ‘96 þegar ég fór í nám til Danmerkur. Þá var ég búinn að vera framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildarinnar í eitt ár, sökkti mér alveg í þetta.“

Það má ekki plana ferðalög þessa helgi

Jón sogaðist aftur inn í starfið þegar dóttir hans byrjaði að æfa körfu og hann var kominn í unglingaráð á árunum 2007 til 2008. „Þá var ég kominn aftur. Áður var náttúrulega ekkert barna- og unglingaráð, við slitum þetta í sundur síðar,“ segir hann.

„Ég hafði komið að þessum fyrstu mótum, þá hét það Kókómjólkurmótið. Við segjum að mótið hafi orðið til í þessari samvinnu Keflavíkur og Njarðvíkur árið 1990 en ég hef verið ansi innvinklaður í þetta frá svona 2008 eða 2009. Ég kom að þessum mótum þarna ‘93, ‘94 og ‘95 en þetta var miklu minna í sniðum. Þetta voru Keflavík, Njarðvík, Haukar og einhver fjögur, fimm félög. Meira svona rúmlega Reykjanesið en smám sama vatt þetta upp á sig.“

Ég ræddi við einn sem var að vinna í undirbúningi mótsins og hann sagði að þú værir Nettómótið. Þú mættir bara á staðinn og útbýtir verkefnum; þú ferð í þetta, þú í þetta o.s.frv. Þú veist alveg hvernig á að gera þetta.

„Já, þetta er dálítill pakki. Í raun og veru bara mikil útgerð og það eru rosalega margir sjálfboðaliðar sem þurfa að koma að þessu til að mótið gangi upp. Ég man ekki í svipinn eftir neinum sem hefur komið jafnlengi að þessu og ég,“ segir Jón og hlær.

„Maður segir gjarnan að þessa helgi má ekki plana ferðalög eða frí, við þurfum á kröftum allra að halda til að ná að sinna þessu. Eins og á þessum stærstu mótum, þetta er eins og núna 631 leikur og það þarf að dæma þá alla og við vorum núna í fimm íþróttahúsum og höfum verið í sex íþróttahúsum í nokkur skipti. Það er búin að vera þróun í því líka. Við höfum fengið inni í íþróttahúsinu í Garði en vorum í Sandgerði núna og keyrðum því mótið á fjórtán völlum í fimm húsum. Það er spilað í ellefu klukkutíma á laugardeginum og sjö á sunnudeginum. Það eru margir orðnir framlágir snemma á laugardagskvöldinu en fullorðna fólkið er orðið ansi þreytt á sunnudeginum. Maður er orðinn frekar úrvinda eftir þetta áhlaup en þetta er alltaf jafn skemmtilegt þegar vel tekst til,“ segir Jón og brosir að þessu öllu saman.

„Við leggjum alltaf mikinn metnað í að þetta takist vel, þetta er öðruvísi mót heldur en körfuboltamótið í seinni tíð hjá þessum krökkum. Þau hafa svolítið þróast í þá átt að liðin koma bara inn í einhvern glugga, spila þrjá leiki og fara svo heim. Við höfum ekki viljað einfalda útgerðina þannig – okkar umgjörð er svona fjölskylduhátíð og þú þarft að vera tilbúinn sem foreldri að setja barnið í fyrsta sæti og láta þig hafa það að taka helst allt prógrammið. Þetta er náttúrulega stöðug samvera frá því að mótið byrjar á klukkan átta á laugardagsmorgni. Þetta er meira en bara körfubolti því það er líka farið í bíó, sund og svo er skemmtigarður í Reykjaneshöllinni þar sem er blásin upp stærsta hoppukastalaþrautabraut landsins og fleiri hoppukastalar – og þar er rosalegt fjör. Svo borða allir saman hádegisverð og kvöldverð og það er einnig kvöldvaka þar sem er trallað í klukkutíma áður en farið er á gististað þar sem er skúffukaka og mjólk fyrir svefninn.“

Svarti dagurinn í sögu mótsins

Jón Ben segir að mótið hafi ávallt gengið vel þar til Covid kom til sögunnar. „Það má segja að það hafi verið svarti dagurinn í sögu mótsins, föstudagurinn 6. mars 2020,“ segir hann. „Þegar almannavarnir lýsa yfir neyðarstigi út af Covid-faraldrinum. Þá var allt klárt og við bara að fara að flauta á mót. Landsbyggðarliðin voru komin í hús og þetta var hreinlega martröð. Við vorum búin að blása upp mótið og setja okkur í hátíðargírinn eins við gerum yfirleitt. Þetta var skelfilegt. Það voru öll aðföng komin í hús, búið að undirbúa allar máltíðir og allir búnir að greiða þátttökugjöld. Það var bara legið í símanum fyrstu tímana eftir að þessi ákvörðun var tekin til að reyna að slökkva elda, ræða við birgja til að afboða þetta og afboða hitt. Ég man t.d. þegar ég hringdi í flutningabílinn sem var að koma með hoppukastalana, hann var kominn út á Fitjar og þurfti að snúa við,“ segir Jón og hryllir sig við að rifja þetta upp.

„Þetta var algjört högg og maður var tómur í langan tíma á eftir, sem betur fer sýndu allir þessu ótrúlegan skilning. Við vorum búin að gefa út mótsblað og vorum búin að selja fullt af auglýsingum og styrktarlínum í það, ekki gátum við farið að innheimta það. Það voru samt einhverjir sem vildu fá að borga en í fyrsta skipti í sögu mótsins þá var taprekstur á mótinu – þó á endanum yrði hann ekkert svakalegur. Það var verst að þurfa að blása mótið af og að krakkarnir skildu hafa misst af því.“

Jón segir að daginn eftir hafi þau sett á nokkra leiki með liðunum sem voru komin á mótsstað utan af landi og buðu þeim í bíó og pizzu. „Þetta var náttúrulega hundleiðinlegt fyrir lið sem voru kannski komin frá Egilsstöðum, Hornafirði eða Akureyri og fá svo að heyra að það verði ekkert mót. Það er ekkert auðvelt fyrir sex, sjö og upp í tíu ára krakka að takast á við það,“ segir hann.

„2022 var ástandið ekki ennþá orðið nógu gott og við gátum ekki byrjað að undirbúa mótið í janúar, við vorum bara ekki tilbúin í annað svona vesen. Þannig að við ákváðum að seinka því og það er svolítið erfitt að finna tíma því KKÍ og félögin eru með sínar áætlanir og mót í gangi – en við fundum loks glugga í apríl. Við blésum það mót ekkert upp og það voru einhverjir 750–800 iðkendur sem tóku þátt.“

Jón segir að þau hafi þurft tíma til að vinna mótið upp í fyrra horf því þegar loks var hægt að halda Nettómótið árið 2022 voru í raun liðin þrjú ár frá síðasta móti og fólk orðið ryðgað í fyrirkomulaginu. Núna hefur Nettómótið náð fyrri stærð og þátttakendur voru um 1.250 um helgina.

„Við erum að ná fyrri stærð en ég vildi samt ekki blása í of mikla flugeldasýningu í útgáfumálum og þannig því það var eiginlega búið að lofa okkur að Stapaskóli yrði klár. Það er mjög hagkvæmur leikstaður þegar hann verður tilbúinn, þar verður hægt að vera með fjóra velli og á Sunnubrautinni eru sex. Það er betra að vera á færri og stærri stöðum heldur en að dreifa liðunum í minni íþróttahús. Mótið núna var alveg í járnum að koma því fyrir, við hefðum ekki mátt fá mikið fleiri iðkendur því við lofum liðunum ákveðnum leikjafjölda – en þetta tókst allt mjög vel,“ segir Jón sæll og ánægður að loknu vel heppnuðu Nettómóti – stærsta körfuboltamóti tímabilsins.

Myndirnar í myndasafninu sem er neðat á síðunni tók Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, á Nettómótinu um síðustu helgi.

Nettómótið 2024