Íþróttir

Meistaraflokkar Grindavíkur spila á Víkingssvæðinu í Safamýri í sumar
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, voru kátir þegar þeir handsöluðu samkomulagið á Víkingssvæðinu í Safamýri.
Fimmtudagur 14. mars 2024 kl. 15:01

Meistaraflokkar Grindavíkur spila á Víkingssvæðinu í Safamýri í sumar

Knattspyrnufélagið Víkingur og Ungmennafélag Grindavíkur hafa gert með sér samkomulag um að meistaraflokkar Grindavíkur í knattspyrnu, karla og kvenna, leiki og æfi á Víkingssvæðinu í Safamýri í sumar.

Töluverður aðdragandi er að málinu sem þurfti stuðning og samþykki Mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Víkingur lánar Grindavík, endurgjaldslaust, aðstöðuna í sumar en Ráðuneytið og Reykjavíkurborg tryggja að umgjörð fyrir leiki liðanna verði til mikils sóma m.a. með framlagi á borð við nýja vallarklukku og að stúkusætum í eigu ÍBR verði komið upp við völlinn.

Meistaraflokkar Grindavíkur munu æfa á grasæfingasvæðinu í Safamýri en spila leiki sína í Lengjudeildunum á gervigrasvellinum.

Grindavík mun leggja til vallarstjóra og starfsmenn  við íþróttamannvirkin í Safamýri en fá á móti skrifstofuaðstöðu og annan aðgang að mannvirkjunum skv. samkomulagi. Einnig mun Grindavík stilla upp auglýsingaskiltum með sínum styrktaraðilum við völlinn í sumar.

Lagt er upp með að fyrsti leikur beggja liða, karla og kvenna, í Lengjudeildunum verði leiknir í Víkinni við Íslandsmeistara umgjörð og mun Knattspyrnudeild Víkings manna miða- og veitingasölu til að Grindvíkingar geti notið dagsins í stúkunni. Þá mun allur ágóði af veitingasölunni renna óskiptur til Grindvíkinga, sem eiga alla miðasölu og fylla vonandi völlinn í bæði skiptin.

,,Það er félaginu og Víkingum öllum ákaflega ánægjulegt að geta aðstoðað Grindvíkinga með þessu hætti í sumar. Frá fyrsta samtali höfum við lagt áherslu á að leita lausna með Grindvíkingum en til þess þurfti einnig sterka aðkomu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Við erum þakklát fyrir það hversu vel var tekið í þetta frá fyrsta fundi," segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings.

„Við í Grindavík erum afar þakklát Víking fyrir allt saman. Við erum komin með heimavöll í sumar og getum þurrkað þá óvissu út og gefið allt í botn fyrir komandi keppnistímabil. Bæði liðin okkar ætla sér langt og þetta er stórt skref fyrir okkur. Víkingur í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðneytið og Reykjavíkurborg eiga hrós skilið fyrir þetta. Engin orð fá lýst því hversu þakklát við erum,“ segir Þorleifur Ólafsson, framkvæmdastjóri UMFG.



Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024