Íþróttir

Grindavík áfram og Keflavík tók forystuna á móti Álftanesi
Dedrick Basile skorar sigurkörfu leiksins.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 21:20

Grindavík áfram og Keflavík tók forystuna á móti Álftanesi

Grindvíkingar tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit Subway-deildar karla í kvöld eftir sigur gegn Tindastóli, 91-89. Í hinum leik kvöldsins tóku Keflvíkingar forystuna á móti Álftanesi, unnu 88-84 og leiða seríuna 2-1.

Leikur Grindavíkur og Tindastóls var talsvert frábrugðinn fyrri leikjunum tveimur. Tindastólsmenn byrjuðu af krafti og leiddu þegar mest var með 18 stigum í fyrri hálfleik en Grindvíkingar náðu vopnum sínum og voru nánast búnir að jafna fyrir hálfleik. Jafnt var síðan á öllum tölum í seinni hálfleik og mikil spenna í loftinu. Tindastóll jafnaði með þriggja stiga skoti þegar fimmtán sekúndur voru eftir. Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé og upp úr því skoraði Dedrick Basile sigurkörfu leiksins.

Deandre Kane var stigahæstur Grindvíkinga með 21 stig en sex leikmenn skoruðu tíu stig eða meira. Daniel Mortensen var með flotta tvennu, skoraði 16 stig og tók 10 fráköst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindavík fær því pásu núna á meðan aðrar seríur klárast.

Í hinum leik kvöldsins unnu Keflvíkingar sigur á liði Álftnesinga, 88-84. Leikurinn var æsispennandi. Gestirnir byrjuðu vel í fyrsta leikhluta og skoruðu 28 stig en heimamenn voru sterkari í öðrum leikhluta og í hálfleik var staðan jöfn, 44:44. Spennan var gríðarleg í síðari hálfleik en Keflvíkingar með frumkvæðið og í lokin náðu þeir að knýja fram sigur. 

Sem fyrr var Remy Martin hlutskarpastur Keflvíkinga, skoraði 29 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Sigurður Pétursson skoraði 17 stig.

Næsti leikur á milli liðanna er á Álftanesi á þriðjudagskvöld og með sigri tryggja Keflvíkingar sig í undanúrslitin.

Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, að teikna upp sigurkörfuna.

Grindvíkingar fjölmenntu í Smárann í kvöld.

Körfuboltahjónin Guðmundur Bragason og Stefánía Jónsdóttir, voru á leiknum ásamt fjölda annarra Grindvíkinga