Flugger
Flugger

Íþróttir

Tap hjá Grindavík í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar
Símon Logi Thasaong (hér í leik gegn Vestra á síðasta tímabili) skoraði glæsimark með skalla – stöngin inn. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. maí 2024 kl. 11:05

Tap hjá Grindavík í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar

Grindavík þurfti að sætta sig við tap í fyrsta leik Lengjudeildar karla í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Fjölni í gær. Grindvíkingar fengu á sig mark og misstu síðan mann meiddan af velli snemma í leiknum en Brynjari Birni Gunnarssyni, þjálfara Grindavíkur, fannst Grindavík hafa spilað góðan fótbolta, haft stjórn á leiknum en Fjölnir skorað þrjú mörk nánast án þess að fá færi. Frá þessu sagði hann í viðtali við Fótbolti.net eftir leik.

Grindavík - Fjölnir 2:3

Það var vel mætt á fyrsta deildarleik Grindvíkinga í Safamýri en um 850 manns mættu á völlinn og sáu þegar Grindvíkingar lentu undir snemma í fyrri hálfleik þegar þeim mistókst að hreinsa frá marki sínu og fengu dæmt á sig víti sem Fjölnismenn skoruðu úr (7’).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindavík varð fyrir öðru áfalli skömmu síðar þegar Adam Árni Róbertsson þurfti að fara meiddur af velli (16’). Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindavíkur, sagði í viðtali við Fótbolti.net eftir leik að hann hefði fengið olnbogaskot, tönn brotnað og mikið blætt en þá hafi ekkert víti verið dæmt.

Fjölnismenn tvöfölduðu svo forystuna í uppbótartíma fyrri háflleiks (45’+6).

Í seinni hálfleik minnkaði Grindavík muninn þegar Einar Karl Ingvarsson átti góða sendingu inn fyrir vörn Fjölnis þar sem Kristófer Konráðsson kom aðvífandi og afgreiddi boltann af öryggi í netið (66’).

Skömmu síðar gerðist Kristófer sekur um slæm mistök í öftustu línu þegar Dagur Ingi Axelsson vann af honum boltann og var þá einn á móti Aroni Degi Birnusyni í marki Grindavíkur. Dagur Ingi setti boltann framhjá Aroni og Fjölnir aftur kominn með tveggja marka forystu (75’).

Símon Logi Thasapong minnkaði muninn í uppbótartíma (90’+2) með góðum skalla en lengra komust Grindvíkingar ekki og tap í fyrsta leik Lengjudeildarinnar því niðurstaðan.


Viðtalið við Brynjar Björn má sjá í færslu á Fótbolti.net