Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Gera Safamýri að sínu vígi í sumar
Brynjar Björn, þjálfari Grindvíkinga, fagnar grindvísku marki á síðasta tímabili. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. apríl 2024 kl. 06:04

Gera Safamýri að sínu vígi í sumar

„Það gera sér allir grein fyrir því í hvaða stöðu við erum svo væntingarnar eru mátulegar,“ segir Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindvíkinga.

„Við erum að verða komnir með ágætis leikmannahóp svo þetta leggst bara vel í okkur,“ segir Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur. „Við höfum fengið nýja leikmenn á síðustu tveimur, þremur vikur og nú er bara að sjá hvernig þetta spilast saman sem lið.“

Hefur snúist um að halda mönnum gangandi

Hefur þú náð að byggja liðið upp eftir þínu höfði, hefurðu breytt miklu?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég hef nú ekkert breytt gríðarlega miklu. Við erum búnir að æfa mjög vel í vetur, þeir sem hafa verið á staðnum, og fórum í góða æfingaferð. Þetta er búið að snúast svolítið um að halda mönnum gangandi, halda hópnum saman þar sem við höfum verið að æfa hverju sinni. Eins og fólk veit erum við ekki búnir að vera með fasta æfingaaðstöðu neins staðar.

Margir af ungu strákunum hafa fengið að spila töluvert með okkur í vetur, þetta eru strákar fæddir ‘07 og ‘08. Við áttum ágætis leiki í Lengjubikarnum sem lofaði góðu en menn voru svolítið þreyttir eftir æfingaferðina og við áttum erfiða leiki gegn Stjörnunni og Val – því fóru þeir leikir eins og þeir fóru. Annars er undirbúningstímabilið búið að ganga nokkuð vel.“

Áttu eftir að keyra á ungum strákum í sumar, gefa þeim séns?

„Það á bara eftir að koma í ljós. Þeir eru náttúrulega mjög ungir, sextán og sautján ára. Það er svolítið ungt og ekki að treysta á það en ég held að einhverjir eigi eftir að fá tækifæri, algjörlega.“

Það hefur væntanlega verið áskorun fyrir liðið, félagið og deildina, að hreinlega halda haus.

„Já, bara fyrir allt félagið, leikmennina, þjálfarana og alla í kringum þetta, þá hefur þetta verið töluverð vinna. Æfingalega hefur þetta gengið nokkuð vel, við náðum að halda rútínu alveg út mars í æfingatímum og -stöðum. Við vissum allavega í byrjun vikunnar hvar við yrðum. Síðustu vikur hefur þetta verið svolítið dag frá degi, eða frá því að keppni hófst í efstu deild og æfingatímar hjá Stjörnunni fóru að riðlast. Þá var svolítið erfitt að halda í rútínuna en heilt yfir hefur þetta gengið mjög vel.

Svo er það alltaf þannig þegar nýir menn koma inn að maður þarf að taka eitt, tvö skref til baka og skipuleggja upp á nýtt.“

Miklar breytingar á leikmannahópi Grindavíkur

Grindvíkingar hafa ekki setið auðum höndum á leikmannamarkaðinum í vetur en frá áramótum hafa níu erlendir leikmenn gengið til liðs við Grindavík.

„Þrír þeirra eru nýkomnir; miðjumaðurinn Ion Perelló Machi frá Spáni, Dennis Dennis Nieblas Moreno er hafsent og kom frá Kýpur, svo kom Kwame Quee bara í síðustu viku en hann er sóknarmaður frá Síerra Leóne.

Sigurjón Rúnarsson ákvað að vera áfram með okkur, það var kærkomið. Öflugur leikmaður og Grindvíkingur, við viljum halda þeim, allavega ekki missa þá í liðin í kringum okkur. Svo hefur Adam Árni [Róbertsson] æft með okkur í allan vetur en hann kom frá Þrótti Vogum.“ Skömmu eftir að viðtalið var tekið bættist portúgalskur bakvörður að nafni Nuno Jorge Nobre Barbosa Malheiro í leikmannahóp Grindvíkinga og hann er þá níundi erlendi leikmaðurinn sem gengur til liðs við Grindavík fyrir þetta tímabil.

Svo er komin samkeppni um markmannsstöðuna.

Já, Kristófer Leví [Sigtryggsson] kemur aðeins inn í þetta. Hann er búinn að vera meiddur þannig að hann fær tíma til að æfa með okkur og styrkir þá stöðu hjá okkur. Á sama tíma er Ingólfur [Hávarðarson] búinn að spila með okkur í Lengjubikarnum og staðið sig mjög vel en hann er náttúrulega að spila fyrir annan flokkinn. Þannig að við erum ágætlega settir með markmenn, svona ef eitthvað kemur upp á.

Hvernig líst þér á að spila í Safamýrinni?

„Mér líst ágætlega á það, við höfðum svo sem ekki úr miklu að velja en okkur bauðst Safamýrin. Víkingar voru tilbúnir til samstarfs þegar við leituðum eftir því. Auðvitað jafnast ekkert á við að spila á sínum heimavelli en vonandi náum við að gera þetta svolítið að okkar heimavelli og okkar heimili í sumar. Vonandi fáum við sem flesta á leikina og náum að gera þetta að okkar vígi í sumar.“

Hverjar eru væntingar um árangur í sumar?

„Þær eru hóflegar. Eins og ég segi er búið að vera óvissuástand í kringum félagið og liðið í vetur. Ég held hins vegar að við séum búnir að ná saman ágætis leikmönnum í liðið en svo fer það bara eftir því hvernig það slípast saman.

Annars held ég að deildin verði jöfn í sumar. Það er alltaf þannig að mörg lið telja sig eiga tilkall til að vera í toppbaráttunni og ég myndi segja að við séum með samkeppnishæft lið í deildina. Það gera sér allir grein fyrir því í hvaða stöðu við erum svo væntingarnar eru mátulegar og síðan verðum við bara sjá hvernig boltinn dettur fyrir okkur,“ sagði Brynjar að lokum.