Íþróttir

Fannst rosalega leiðinlegt að hlaupa
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 11. febrúar 2024 kl. 09:31

Fannst rosalega leiðinlegt að hlaupa

Það má segja að Börkur og Guðný Petrína Þórðardóttir hafi hlaupið í fangið á hvort öðru þegar þau kynntust í hlaupahópi 3N fyrir nokkrum árum. Parið felldi hugi saman og hafa þau verið óaðskiljanleg síðan. Börkur og Guðný eru bæði þjálfarar hjá þríþrautardeild Njarðvíkur en þau eru einnig mjög virk við að taka þátt í hlaupamótum. Víkurfréttir kíktu í kaffi til hjónaefnanna og ræddu við þau um lífið á hlaupum.

Áður en við byrjuðum viðtalið ræddum við um ástandið í Grindavík og stöðuna sem Grindvíkingar eru í eftir að hafa þurft að rýma bæinn. Börkur er Siglfirðingur og ég spyr hann hvort hann tengi kannski við snjóflóðahættuna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Já, já. Ég bjó í snjóflóðahúsi og við þurftum stundum að rýma. Þannig að maður veit alveg hvernig það er að þurfa að fara – en það var aldrei nema kannski ein, tvær nætur. Ekki oft sem það gerðist og amma mín bjó ská fyrir ofan okkur og hún var stundum látin koma til okkar, það var ekki lengra en það.“

Aðspurður segir Börkur ástæðuna fyrir því að hann flutti til Reykjanesbæjar vera þá að hann hafi kynnst konu frá Keflavík og eignast með henni þrjú börn (tólf, sextán og átján ára). Þau skildu en hann ílengdist hér barnanna vegna. Svo lágu leiðir hans og Guðnýjar saman en hún átti tvö börn fyrir (ellefu og tólf ára) svo það er líflegt á heimilinu aðra hvora viku. Börkur og Guðný hafa verið saman í tæp fjögur ár en þau kynntust árið 2020, þegar Covid var allsráðandi.

„Stefnumótamenningin þá ... við gátum ekki einu sinni farið út á deit, þorðum því eiginlega ekki,“ segja þau einum rómi.

„Ég byrjaði í hlaupahópnum 2020 og fljótlega fórum við svolítið að taka eftir hvoru öðru,“ segir Guðný.

Þannig að þið tvö eruð hlaupagikkir og það leiddi ykkur saman.

„Já, það má eiginlega segja það,“ segir Guðný. „Minn bakgrunnur er reyndar fótbolti en svo leiddist ég út í þetta. Mér þótti aldrei neitt sérstaklega gaman að hlaupa bara, það þurfti að vera einhver tuðra fyrir framan mig, eitthvað markmið. Svo veiktist ég svolítið illa árið 2018 og þá leiddist ég út í þessa tegund af þjálfun en áður hafði ég verið að taka þátt í svona þrekmótaröðum og svoleiðis. Þannig að það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég er að hlaupa.“

„Ég byrjaði í hlaupahópnum 2020 og fljótlega fórum við svolítið að taka eftir hvoru öðru,“ segir Guðný.

Guðný á svo sem ekki langt að sækja það að keppa í þrekmótaröðum en mamma hennar, Þuríður Þorkelsdóttir [Þurý], er ein af hópnum Fimm fræknar sem hefur gert góða hluti í þannig keppnum.

En þú Börkur, hefur þú alltaf verið hlaupandi?

„Mér fannst rosalega leiðinlegt að hlaupa þegar ég var yngri. Ég æfði skíði þangað til ég var sautján ára og við áttum alltaf að hlaupa á sumrin, æfa okkur svoleiðis. Ég nennti því ekki, keypti mér fjallahjól og hjólaði um allt. Svo dettur maður út úr íþróttunum þegar maður eldist aðeins og 2015, þegar ég byrjaði að vinna hjá Isavia, þá voru þeir alltaf að fara í hjólaferðir, WOW Cyclothon. Voru að hjóla í kringum landið og voru með lið. Ég skráði mig bara og átti ekkert hjól eða neitt, þannig að ég var alltaf að æfa mig á þrekhjóli. Svo pantaði ég mér hjól og hjólaði með þeim tvö ár í röð. 2017 fór ég svo að hjóla og hlaupa með 3N. Ég heillaðist þá af hlaupunum og það átti vel við mig – mér fannst skemmtilegt að pína mig,“ segir Börkur og Guðný bætir við: „Svo er þetta skemmtilegur félagsskapur og ég held að það dragi mann svolítið í þetta. Að vera með fólkinu, mæta með því og hlaupa.“

Maður sér þetta fólk hlaupandi um allan bæ, er þetta fólk á öllum getustigum?

„Já og á öllum aldri. Eftir að við tókum við þá höfum við reynt að fá þessa byrjendur inn í hópinn,“ segir Guðný. „Í fyrra fórum við af stað með nýliðanámskeið, ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur. Við byrjuðum með þau síðasta vor og svo aftur síðasta haust. Síðan þá hefur hópurinn stækkað umtalsvert, flestir eru í hlaupahópnum en sumir eru í öllum greinum.

3N snýst um þrjár greinar; hlaup, hjólreiðar og sund. Hlaupahópurinn er langstærsti hópurinn af þessum þremur, það eru hátt í áttatíu manns skráðir í hann.“

Guðný segir að Covid hafi svolítið ýtt undir fjölgun í hlaupahópnum en á tímum Covid byrjuðu margir að hlaupa. Meira að segja hafa nokkrir hlaupahópar orðið til í bænum.

„Við erum bæði saman með hlaupahópinn og ég er hjólaþjálfari líka,“ segir Börkur sem er líka í stjórn 3N þar sem hann er varaformaður.

En nýliðanámskeið í hlaupum, þarf að kenna fólki að hlaupa?

„Já, ég hefði viljað fara á nýliðanámskeið þegar ég byrjaði að hlaupa,“ segir Börkur. „Ég byrjaði rosalega vitlaust að hlaupa. Maður gerði alltaf of mikið, hljóp allt of hratt. Þannig að maður var alltaf búinn á því í staðinn fyrir að dreifa álaginu, hlaupa rólega einhverja daga og hratt aðra. Það er líka rosalega gott að læra hvernig maður beitir líkamanum þegar maður er að hlaupa. Það er allt of algengt að fólk hugsi of stórt þegar það fer af stað, flestir hugsa um maraþon þegar þeir byrja að hlaupa.“

Byrjar það kannski að hlaupa í byrjun sumar og ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni nokkrum vikum síðar?

„Já, skella sér bara beint í heilt maraþon – og svo fær fólk ekki góða upplifun og hættir bara,“ segir Guðný. „Kannski ertu alveg ónýtur í líkamanum eftir þetta af því þú ert ekki búinn að undirbúa þig nóg. Mér fannst það ekkert rosalega heillandi þegar Börkur sagði mér að það að verða góður hlaupari tekur alveg sjö til tíu ár. Það er allt of algengt að við viljum einhverjar skyndilausnir.

Börkur og Guðný eru þjálfarar hjá 3N, þríþrautardeild Njarðvíkur.

Nýliðanámskeiðin kenna fólki að taka réttu skrefin, fara öll skrefin. Þetta er þolinmæðisvinna og við sáum líka að fólk miklaði svolítið fyrir sér að ganga í þennan hóp. „Þetta er þríþrautarhópur og allir búnir að vera svo lengi.“ Nýliðanámskeiðin eru stökkpallur til að undirbúa fólk svo það sé tilbúið fyrir hlaupahópinn. Ef fólk getur ekki hlaupið, endist kannski bara upphitunina, þá gefst það upp fljótlega en sé fólk farið að ná að hlaupa fimm kílómetra og þá nýtur það sín betur hlaupahópnum – og þegar fólk er búið að ná fimm kílómetrunum er auðvelt að bæta sig.

Hópurinn hefur breikkað mikið hjá okkur en við erum tvö að þjálfa og getum skipt okkur milli hópa. Svo eru líka svo geggjaðir einstaklingar í þessum hópi sem eru alltaf til í að hjálpa til. Það er mjög skemmtilegt að vera hluti af þessum félagsskap, þessi hópur er alveg ótrúlegur og tekur vel á móti öllum svo fólk þarf ekki að vera hrætt við að mæta. Það er þó nokkuð af fólki sem er bara að byrja og þetta snýst bara um að taka skrefið og koma sér út úr dyrunum.“

Hlaupahópurinn er skemmtilegur félagsskapur sem tekur vel á móti öllum nýliðum.


Fresta brúðkaupinu fyrir heimsmeistaramót

Börkur og Guðný trúlofuðu sig á Tenerife fyrir ári síðan og höfðu áætlað að gifta sig á þessu ári.

„Ég held að við bíðum samt aðeins með það,“ segir Guðný. „Við erum að stefna á að fara til Ástralíu þar sem hann [Börkur] er að fara að taka þátt í heimsmeistaramóti 40 ára og eldri í maraþoni. Okkur langar svolítið að setja peninga og kraft í það.“

Heimsmeistaramótið sem Börkur er að fara að keppa í er á vegum Abbott World Marathon Majors sem sér um öll þessi stóru maraþon um allan heim.

Ferðalagið til Sydney er langt og kostnaðarsamt, þar að auki er undirbúningur fyrir maraþon mikill og Börkur segir að hann gefi sér fjóra mánuði í undirbúning fyrir maraþonhlaup. „Þetta fjögurra mánaða ferli er mjög skemmtilegt og krefjandi, ekki síður en hlaupið sjálft. Bara það að komast í gegnum þessa fjóra mánuði, allt þetta ferli sem tilheyrir því, það er rosagóður sigur. Hlaupið er svo rúsínan í pylsuendanum – og náttúrlega að standa sig vel í hlaupinu er rosalega góð tilfinning.

Bónorðið var borið upp á Tenerife fyrir ári síðan.

Þetta er heimsmeistaramót og það þarf að ná lágmarkstímamörkum inn á þessi mót en svo er líka hægt að taka þátt í alþjóðlegu heimsmeistaramóti öldunga sem þarf ekki lágmarkstíma á en það mót er í Búkarest á þessu ári,“ segir Börkur. „Ég náði lágmarkinu á heimsmeistaramótið þegar ég hljóp maraþon á lágmarkstíma í Frankfurt núna í október. Heimsmeistaramótið verður í september í Sydney og það er verið að reyna að safna peningum í það, reyna að safna einhverjum styrkjum og svona. Svo eru önnur markmið að bæta sig í styttri hlaupum þangað til.“

Til að æfa sig fyrir svona langhlaup þarf maður líklega að hafa mikinn sjálfsaga.

„Já, sérstaklega ef maður er að stefna að einhverjum markmiðum. Þetta er stöðugleiki, þolinmæði og sjálfsagi.“

Hvernig undirbýr maður sig fyrir maraþon í Sydney? Það er svolítið annað veðurfar þar.

„Reyndar er í raun og veru vor hjá þeim þarna í september, þannig að það er möguleiki á svona átján stiga hita. Það gætu nú bara verið kjöraðstæður. Annars er bara svona hefðbundinn undirbúningur, hlaupa nógu mikið og passa upp á að lenda ekki í meiðslum í undirbúningnum.“

Næring hlýtur að skipta miklu máli í svona undirbúningi og hlaupinu sjálfu.

„Jú, það er svona kolvetnainnbyrðing – það er gel sem maður dælir í sig á svona fimm kílómetra fresti. Maður er með næringarplan og skýtur reglulega á sig svona geli – og svo vökvi inn á milli.

Maður nær ekkert að drekka mikið. Maður grípur glas og nær kannski tveimur, þremur sopum. Hraðinn er svo mikill þegar maður hleypur í gegn.“

Guðný bendir á að það þurfi líka að æfa næringuna, hvernig líkaminn bregðist við hinum og þessum kolvetnum. „Maður prófar aldrei neitt í keppnishlaupinu sjálfu, það getur endað með magaverkjum og einhverju veseni,“ bætir Börkur við.

Hvíld og svefn skipta miklu máli í undirbúningnum og Börkur segir að hann verði að borða mikið af allskonar mat því með öllum þessum hlaupum brenni hann mjög miklu. Hann segist vera svo heppinn að fá alltaf mat í hádeginu í vinnunni. „Þannig að það er alltaf þriggja rétta máltíð fyrir mig þar,“ segir Börkur sem starfar sem smiður hjá Isavia.

Hefurðu verið mikið að fara erlendis til að hlaupa?

„Ég er búinn að hlaupa heilmaraþon í Berlín, Kaupmannahöfn og Frankfurt. Svo tók ég svona fjallamaraþon úti á Kanaríeyjum, það var mjög skemmtilegt. Þetta var í mars 2020 og það var mjög heitt. Maður drakk rosalega mikið, var í vesti með vökva og fyllti á brúsa á öllum drykkjarstöðvum. Það var svolítið öðruvísi en svona götumaraþon. Það var óvenjulega heitt á þessum tíma, um 24 gráður, og við hlupum í gegnum dali og yfir fjöll. Ég man hvað það var sérstaklega heitt þar sem var algert logn, það lak alveg af manni.

Svo höfum við tekið hálfmaraþon líka. Gerðum það í Kaupmannahöfn í september,“ segir Börkur.

„Það var svolítið markmiðið mitt, að bæta mig í hálfmaraþoni,“ segir Guðný. „Núna stefni ég á utanvegahlaup, svo ég ætla að taka mér tvö ár í að fara svolítið í það. Mig langar að fara Laugaveginn 2025, þannig að ég ætla að vinna mér inn ákveðin ITRA-stig til að komast auðveldlega inn í hlaupið.“

Er nóg framboð af hlaupakeppnum hér innanlands?

„Já, alveg endalaust framboð,“ segja þau bæði.

„Yfir vetrartímann eru þetta svona eitt, tvö á mánuði en í maí verður dagskráin þétt og maður getur í hverri viku valið úr mótum til að mæta í – og maður er svolítið duglegur að taka þátt í þessum hlaupum,“ segir Börkur. „Í fyrra tók ég þátt í víðavangshlaupi og tveimur dögum síðar tók ég hálfmaraþon í vormaraþoninu, bætti mig í báðum hlaupunum og varð í öðru sæti í vormaraþoninu. Svo fór ég í Studio Sport-hlaupið sem er á Selfossi, það er tíu kílómetra hlaup og þar vann ég. Svo fórum við í Akureyrarhlaupið og þar náði ég besta tímanum mínum í tíu kílómetra hlaupi og var í þriðja sæti.“

Skötuhjúin segja að það sé lítið pláss fyrir fleiri áhugamál þegar fólk er „all in“ í hlaupakeppnum og þau eru þar að auki að sinna þjálfun hjá 3N. „Svo erum við bara með stórt heimili þess á milli, það er bara þannig,“ sögðu þau að lokum.