JS Campers
JS Campers

Íþróttir

Björgu tókst hið ómögulega
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 8. mars 2024 kl. 06:11

Björgu tókst hið ómögulega

Það kom að því að Gunnar Már Gunnarsson frá Grindavík yrði sleginn niður og þurfti konu til verksins. Björg Hafsteinsdóttir kom með geysilegum krafti inn í tippleik Víkurfrétta, var með ellefu leiki rétta fyrir lokaleik laugardagsins og þar sem Gunnar Már var bara með níu rétta á þeim tímapunkti var ljóst að nýr aðili væri kominn á stall. Leikar enduðu 11-10 en Gunnar Már getur verið stoltur af sinni framgöngu, hann kom sér upp fyrir Hámund Helgason og er í öðru sæti með alls 36 leiki rétta. Grétar Ólafur Hjartarson er áfram efstur með 46, Hámundur í þriðja sæti með 34 og Grindvíkingurinn Jónas Þórhallsson ennþá inni í undanúrslitunum með 26 leiki rétta.

Það var lítið um óvænt úrslit og því voru alls 3.301 sem náðu þrettán réttum, þar af  31 Íslendingur og fékk hver rúmar 50 þúsund krónur í sinn hlut. 533 Íslendingar náðu tólf réttum, heilar 790 krónur fengust fyrir það.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ferðinni er næst heitið út í Sandgerði og þó ekki því Magnús Þórisson á Réttinum býr í Keflavík en er alinn upp í Sandgerði. Það var stór spurning hvort Magnúsi yrði hleypt að kjötkötlunum því fyrrum starfsmaður hans, Grindvíkingurinn Bjarki Guðmundsson, fékk tækifæri fyrr í vetur í tippleik Víkurfrétta og gerði hreinlega upp á bak í viðureign sinni á móti Hámundi Erni Helgasyni. Það voru uppi pælingar með að þar með væri annað starfsfólk Réttarins búið að fyrirgera rétti sínum að geta tekið þátt en Víkurfréttir eru með stórt hjarta og hafa fyrirgefið Bjarka. Magnús er fyrrum dómari, er gallharður stuðningsmaður Reynis og Manchester United.

„Ég er með þann vafasama heiður að hafa sjö sinnum farið á Old Trafford til að sjá mína menn og þeir hafa aldrei unnið. Ég ætla ekki að mæta á leik minna manna á móti Liverpool í bikarnum þann 17. þessa mánaðar, ég vil fá sigur í þeim leik þar sem þetta er síðasti séns minna manna á titli þetta tímabilið. Ég var ánægður með mína menn í Reyni, við unnum þriðju deildina og ég vil sjá okkur fara beint upp í Lengjudeildina svo við getum mætt grönnum okkar hér á Suðurnesjunum, það yrði gaman. Ég er keppnismaður fram í fingurgóma og mun mæta með blóð á tönnum í þessa viðureign gegn Björgu. Hún er greinilega hörkutippari fyrst hún afgreiddi Gunnar Má og ég er ánægður að fá tækifæri á að spreyta mig. Ég átti ekki von á því eftir að starfsmaður minn gerði sig nánast að fífli í leiknum fyrr í vetur,“ sagði Magnús að lokum.

Björg var yfir sig ánægð með að hafa náð að lækka rostann í fallbyssukjaftinum frá Grindavík.

„Það var kominn tími til þess að sýna Gunna hvar Davíð keypti ölið. Hann reyndi greinilega að beita sálfræðinni á mig en hann átti að vita að ég er eldri en tvævetur þegar kemur að keppni og þessi tilraun hans var skot langt yfir markið. Fyrst ég er komin á stall ætla ég mér að sjálfsögðu að vera þar eins lengi og ég þarf til að koma mér í undanúrslitin. Mér líst vel á að mæta Magga á Réttinum, hann á skilið að fá að taka þátt enda verið ötull stuðningsaðili íþróttalífs á Suðurnesjunum. Mér hefði þótt ansi ósanngjarnt gagnvart honum ef skita Bjarka, fyrrum starfsmanns hans, hefði útilokað Magnús frá leiknum. Maggi er United-maður og þar sem United og mínir menn í Liverpool munu mætast í átta liða úrslitum bikarsins verður viðureign okkar Magnúsar á vissan hátt fyrirboði þess stórleiks. Ég hlakka til að mæta honum og mun ekki sýna honum neina miskunn,“ sagði Björg að lokum.