Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Bílar & Hjól þjónusta bíla frá KIA
Bílar & Hjól eru í þessu húsi við Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ.
Laugardagur 1. júlí 2017 kl. 08:00

Bílar & Hjól þjónusta bíla frá KIA

-Yfir 2000 KIA bílar seldir á Suðurnesjum frá 2011

Bílaumboðið Askja hefur formlega samið við fyrirtækið Bílar & Hjól í Reykjanesbæ sem þjónustuverkstæði fyrir KIA bíla á Suðurnesjum. Bílar & Hjól hafa annast þjónustuna fyrir Öskju frá árinu 2011 en það er ekki fyrr en nú sem formlega hefur verið gengið frá samningum milli fyrirtækjanna.
 
Mikill vöxtur hefur verið í sölu KIA bíla á Suðurnesjum á síðustu árum en frá árinu 2011 hefur K. Steinarsson í Reykjanesbæ selt um 2.000 KIA bíla á svæðinu.
 
Garðar Gunnarsson stofnaði Bíla & Hjól árið 2003. Fyrst annaðist verkstæði hans bílasprautun og réttingar ásamt tjónaskoðun á bifreiðum fyrir tryggingafélögin. Starfsmenn fyrirtækisins voru þá þrír en eftir að verkstæðið tók að sér þjónustuviðgerðir og þjónustuskoðanir fyrir Öskju á KIA bílum hefur fyrirtækið stækkað jafnt og þétt og í dag eru starfsmenn átta talsins og má segja að þjónustan við KIA bílana hafi skapað fimm störf hjá fyrirtækinu. Með samningi við Öskju er starfsmönnum fyrirtækisins tryggð sérhæfð þjálfun og fræðsla í öllu sem kemur að KIA bílum.
 
Bílaþjónusta er orðin stór atvinnugrein í Reykjanesbæ. Fjölmörg þjónustuverkstæði eru í bænum, enda hefur bæði íbúum fjölgað ört og þá skipta bílaleigubílar á svæðinu þúsundum og verkstæði spretta upp í kringum þær. Garðar segir að það sé nóg að gera í bílaviðgerðum af öllu tagi. Það sé í raun vitlaust að gera og í raun anni menn ekki eftirspurn þegar kemur að viðgerðum og málningarvinnu.
 
Þar sem KIA bílar eru fjölmargir á Suðurnesjum fara margir bílar í gegnum þjónustu- og málningarverkstæðið hjá Garðari í hverri viku. Lætur nærri að hans fólk afgreiði um tug bíla á hverjum virkum degi.
 
Garðar segir að í dag skipti tölvur í bílum orðið miklu máli og með því að tengja bíl við tölvu og lesa af honum upplýsingar megi finna bilanir sem útilokað væri að finna án tölvugreiningar. Þess vegna leggur hann áherslu á að eigendur KIA bíla komi á sérhæfð KIA verkstæði eins og Toyota-eigendur fari á sérhæfð Toyota verkstæði o.s.frv.
 
Við báðum Garðar að horfa til baka og segja okkur hvað hefði breyst frá því hann stofnaði sitt verkstæði árið 2003. Hann sagði tæknina hafa breyst mikið en vildi þó fara aðeins lengra aftur í tímann. Félagi hans hafi stofnað bílasprautun árið 1990. Þá var notast við heimasmíðaðan málningarklefa og kvittanahefti. Það er eitthvað sem gengi ekki í dag. Þá er mikið meira um það í dag að skipt sé um bílaparta í stað þess að rétta þá sem skemmast. Það séu helst afturbretti bíla sem þurfi að rétta því þau séu soðin föst við skrokk bílsins og það því í raun meiri skemmd á bílnum að losa um allt brettið í stað þess að rétta og mála upp á nýtt.
 
Í dag er vöntun á starfsmönnum í bílaviðgerðir. Verkstæðin eru eins og aðrir að keppa við flugvöllinn um starfsmenn. Vaktavinnan heillar marga en það er eitthvað sem þjónustuverkstæðin geta ekki boðið. Garðar sagði að verkstæðin væru þó að bjóða fín laun en því miður væri lítil endurnýjun í bransanum. Hann sagði líka að bílaviðgerðir væru ekki auðveld vinna. Þar er hröð þróun og mikil endurmenntun t.a.m. hjá bifvélavirkjum. Garðar segist þó vera heppinn með starfsfólk og sé með starfsmenn sem brenna af áhuga fyrir starfinu.
 
 
 
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, Harpa María Sturludóttir og Garðar Gunnarsson, frá Bílar & Hjól, og Óskar Páll Þorgilsson, forstöðumaður þjónustusviðs Öskju, við undirritun samninga um þjónustuverkstæði KIA á Suðurnesjum. VF-mynd: Hilmar Bragi
 

 
KIA bifreið í þjónustuskoðun.
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024