Viðskipti

Alltaf vinsælt að gefa tæknilega gjöf
Föstudagur 7. desember 2018 kl. 10:36

Alltaf vinsælt að gefa tæknilega gjöf

Omnis er staðsett í húsi gömlu símstöðvarinnar við Hafnargötu. Húsið stendur við eitt helsta kennileiti bæjarins, símamastrið sem á árum áður var alltaf skreytt með hundruð marglitra jólaljósa yfir jólin. Björn Ingi Pálsson er eigandi og rekstrarstjóri Omnis í Reykjanesbæ. Björn Ingi er gamalreyndur í tæknibransanum en hann hefur verið í verslunarrekstri með tölvubúnað í Reykjanesbæ frá árinu 1994.
 

Allt í einni verslun

 
„Við erum á besta stað með góðar rætur. Omnis er tæknifyrirtæki og slagorð okkar er „upplýsingatækni í heimabyggð“ fyrir fólk og fyrirtæki. Við erum einnig umboðsaðili fyrir Símann og þjónustu þeirra. Hér er mikið að gera allt árið um kring en við erum umboðsaðilar fyrir Smith & Norland, erum með Siemens og Bosch vörur þaðan. Við seljum einnig Hewlett Packard tölvur, Dell og Lenovo svo eitthvað sé nefnt. Opin kerfi, Nýherji sem heitir núna Origo og Advania eru samstarfsaðilar okkar ásamt A4. Hér erum við einnig með almenna tölvuþjónustu og viðgerðaverkstæði.Tæknilausnir finnum við fyrir hvern og einn þannig að fólk á ekki að þurfa að fara til Reykjavíkur því við erum með daglegar ferðir þangað ef viðskiptavini okkar vantar eitthvað þaðan. Við reddum því sem redda þarf,“ segir Bjössi brattur. 
 

Sumir leyfa sér meira um jól

 
Aðspurður um hvort jólaverslun sé byrjuð hjá þeim þá segir hann fólk vera að kaupa tæknivörur allt árið en nálægt jólum séu þó sumir að leyfa sér meira. Þá er fólk að gefa sjálfu sér jólagjöf eða gjöf fyrir heimilið.
„Við erum með mjög breiðan aldur viðskiptavina. Allt frá börnum til eldri borgara. Sumir nota jólin til að endurnýja heima hjá sér, eldhúsið kannski og þá vantar ný heimilistæki. Einhverjir réttlæta stærri gjafakaup um jólin og gefa sjálfum sér eitthvað sniðugt sem kostar aðeins meira. Þá fær öll fjölskyldan að njóta þess. Við erum með alls konar smávöru einnig á heimilið. Heilsuúrin frá Garmin hafa verið mjög vinsæl en þau mæla allt mögulegt þegar fólk hefur þau á úlnliðnum sínum. Starfsmenn í Leifsstöð hafa td. verið að mæla skrefin á vaktinni sinni. Þetta tæki er fyrirferðarlítið og mjög forvitnilegt, það mælir allt mögulegt. Einhverjir mæla svefnstigin sín yfir nóttina með þessu úri eða fylgjast daginn eftir með svefnhreyfingu sinni yfir nóttina. Þá getur fólk séð eftir nóttina hversu lengi það svaf djúpsvefni. Þetta úr mælir einnig hjartslátt og fleira og fleira,“ segir Bjössi kampakátur að lokum.


Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024