Flugger
Flugger

Pistlar

Jólatilhlökkun
Föstudagur 15. desember 2023 kl. 06:07

Jólatilhlökkun

Það er eitthvað allt svo fallegt við jólin og aðventuna. Endalaus tilhlökkun og eftirvænting í loftinu sem gerir þennan tíma ársins svo óviðjafnanlegan. Jólahefðirnar allar svo fallegar, jólalögin, jólaljósin, jólasmákökurnar, jólakveðjurnar í útvarpinu. Allt eins og það á að vera. Já og jólastressið líka.

Sem barn hlakkaði ég alltaf til jólanna. Gat hreinlega ekki beðið. Jólin á Garðaveginum eru í minningunni alltaf fullkomin og alltaf eins. Við öll saman, endalaus notalegheit, bókalestur og smákökur. Alltaf sami jólamaturinn. Möndlugrautur í forrétt, sem mér fannst reyndar mjög vondur en var partur af hefðinni, dásamlegu rjúpurnar, ávaxtasalatið í eftirrétt. Biðin eftir pökkunum endalaus af því að það tók svo óendanlega langan tíma að vaska upp. En biðin var alltaf þess virði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég er svo þakklát fyrir þessar dásamlegu minningar.

Svo varð ég fullorðin, fór að halda mín eigin jól og fór að bera ábyrgð á jólaminningum barnanna minna. Það er pínu stressandi, ábyrgðin er mikil. Það mátti ekkert klikka - allt átti að vera fullkomið til þess að þeirra minningar yrðu jafn dásamlegar og mínar.

Og ég þakka fyrir það að jólin okkar hafa alltaf verið dásamleg, jafnvel þó allt hafi ekki alltaf verið fullkomið. Eitt árið lá jólatréð til dæmis á hliðinni þegar við vöknuðum á aðfangadagsmorgun með allar fínu jólakúlurnar mölbrotnar, og annað ár, í upphafi heimsfaraldursins, greindist eldri sonurinn með Covid á Þorláksmessu. Þessi jól gleymast sannarlega ekki.

Ég held í alvörunni að ég hafi aldrei hlakkað jafn mikið til jólanna eins og núna. Mér líður eins og litlu mér, ég tel niður dagana og hreinlega get ekki beðið. Við litla fjölskyldan ætlum að verja jólunum hér heima í París, í endalausum notalegheitum, í sannkölluðu jólafríi. Þar sem starf mitt krefst stanslausra ferðalaga er jólagjöfin frá mér til mín að stíga ekki upp í flugvél í jólafríinu, einu ferðalög mín verða frá svefnherberginu í sófann…með smákökustoppi í eldhúsinu.Ég óska lesendum Víkurfrétta gleðilegra jóla – megi þau verða dásamleg í alla staði.