Mannlíf

Þegar gúanófnyk var fagnað
Loftmyndin yfir svæðið er nokkuð mögnuð.
Mánudagur 14. maí 2018 kl. 09:00

Þegar gúanófnyk var fagnað

- Byggði stórhýsi ofan í gamlar lýsisþrær

„Þegar ég rakst á þessa gömlu mynd af lýsisbræðslunni og Gúanóinu í Keflavík, vöknuðu minningar 65 ár aftur í tímann. Pabbi var þá að aka lýsi á tankbíl tvisvar á dag til Reykjavíkur. Á þeim tíma voru þessar byggingar fyrir utan bæinn, milli Keflavíkur og Ytri Njarðvíkur. Áður en einhverjir hugrakkir athafnamenn réðust í þessa áhættusömu fræmkvæmdir var lítið til hnífs og skeiðar. Þegar ilmurinn (fnykurinn) fór yfir bæinn varð mikill fögnuður bæjarbúa og boðaði þessi lykt betri tíma. Hún var ævinlega kölluð peningalyktin,“ segir Einar Guðberg Gunnarsson fyrrverandi byggingaverktaki í Keflavík en fyrirtæki hans, Meistarahús, byggði tvö sjö hæða stórhýsi á nákvæmlega sama stað 65 árum síðar.

Einar segist hafa fengið góða tilfinningu þegar hann fór að rifja þetta upp. „Á þessum tíma löbbuðum við Júlli bróðir sem strákar oft til pabba í vinnuna og fengum að fara með honum í borgina á lýsisbílnum. Þetta eru ljúfar minningar og þökk sé þessum hugrökku mönnum sem lögðu allt sitt undir til að gera okkur lífið bærilegt. Þessi rekstur átti eftir að skipta miklu máli fyrir samfélagið þó svo að oft hafi fólk kvartað yfir lyktinni sem fylgdi þessari bræðslu. Þessar minningar rifjuðust vissulega upp þegar við félagarnir í Meistarahúsum fórum að grafa fyrir tveimur sjö hæða íbúaturnum ofan í lýsisþrærnar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar segir að hann og Júlíus bróðir hans hafi gengið niður á vestustu bryggjuna í Keflavíkurhöfn og reynt að finna spor myndasmiðsins sem tók myndina frá höfninni. „Ég notaði stafræna myndavél, ekki kassamyndavél sem var tæknibylting þess tíma. Ég held að ég sé ansi nálægt þeim stað sem ljósmyndarinn á þeim tíma tók myndina,“ segir Einar og bætir við: „Hverjum hefði átt að geta látið sér koma til hugar fyrir 65 árum að þetta svæði yrði að nýjum miðbæjarkjarna sameinaðs sveitafélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Hver treystir sér til að búa til sýn þessa svæðis eftir 65 ár?“

Myndirnar eru teknar frá sama stað og sýna tvo heima.


Fleiri stórhýsi við höfnina

Einar Guðberg var fyrstur til ljúka við byggingu stórhýsa við Keflavíkurhöfn en það eru fleiri sem sjá mikla framtíðarsýn á svæðinu en þar eru auk tveggja stórhýsa Meistarahúsa við Pósthússtræti annað stórt fjölbýlishús sem Húsagerðin byggði og hefur hafið byggingu á öðru. Þá eru hafnar framkvæmdir við tvö 9 hæða hús sunnan megin við Pósthússtræti með möguleika á því þriðja auk þriggja annarra húsa sem Húsanes hefur í hyggju að byggja hinum megin við. Í þessari framtíðarsýn við Keflavíkurhöfn gætu risið á næstu árum sjö stórhýsi til viðbótar við þau þrjú sem þar eru núna.

Hér sést yfir þann hluta Keflavíkurhafnar þar sem stórhýsin hafa risið og munu rísa. Myndin að neðan sýnir svipað sjónarhorn og gamla myndin efst í fréttinni.