Mannlíf

Má menningararfurinn breytast?
Þriðjudagur 19. júní 2018 kl. 06:00

Má menningararfurinn breytast?

-þjóðhátíðarræða Dagnýjar Gísladóttur 17. júní í Reykjanesbæ

Dagný Gísladóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélaginu Heklunni flutti ræðu dagsins á Þjóðhátíðardeginum 17. júní 2018 í Reykjanesbæ. Þar fjallaði hún um menningararfinn.

Ágætu þjóðhátíðargestir!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í ár hvetur Evrópa okkur til þess að veita menningararfinum athygli og skoða samband fortíðar við samtímann.

Það er því vel við hæfi á þjóðhátíðardegi Íslendinga að ræða þetta óræða hugtak. Hvað er menningararfur og hvaða þýðingu hefur hann fyrir okkur?

Ein helstu rök okkar fyrir því að verða sjálfstæð þjóð voru íslensk tunga og einstakar bókmenntir. Menningararfurinn lá því til grundvallar sjálfstæði okkar en án hans er ekkert við.

Menningararfurinn er hreyfiafl og sjónarhorn á okkar daglega umhverfi og er mikilvægur fyrir sjálfsmynd okkar og jákvæð samskipti við aðra hluti heimsins. En hann er líka hápólitískur og bæði sameinar hópa og sundrar.

Hvað á að vernda og hvað má glatast? Og hver á að ráða því?

Á að varðveita gömlu sundhöllina sem er merki um dug og áræðni Keflvíkinga sem söfnuðu fyrir henni um árabil, á að viðhalda ásýnd herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, er keflvíska kokteilsósan menningararfur -  og var bara allt í lagi að rífa Brautarnesti?

Við erum ekki alltaf sammála um menningararfinn okkar og hann byggir á vali. Oft er það þannig að við eigum erfitt með að meta menningu að verðleikum sem er nálæg okkur í tíma og sögu svo það getur tekið tíma fyrir menningararfinn að sanna sig. Kannski verðum við einhvern tímann stolt af því að eiga met í lúgusjoppum.

Við getum verið einkar íhaldssöm þegar kemur að varðveislu menningarminja og þá eru allir orðnir minjaverðir í okkar umhverfi, nokkurs konar stríðsmenn menningararfsins. Við erum einhvern veginn alltaf að bjarga handritunum úr eldinum í Kaupmannahöfn, og höfum sjúklinginn í gjörgæslu - svona eins og íslenska tungu.

Við hreykjum okkur að því að við getum enn lesið íslensku handritin og áhersla er lögð á samhengið í íslenskum bókmenntun. En ef við myndum mæta Agli Skallagrímssyni á Laugarveginum og heilsa upp á hann myndi hann hvá og ekkert skilja. Því þótt ritmálið okkar sé óbreytt hefur hljóðfræðin þróast í takt við tímann.

Á tímum hnattvæðingar hefur eftirspurn eftir því sértæka aukist og vinsældir menningararfsins aldrei verið meiri. Þannig getur hann skapað störf og hagsæld til að mynda í ferðaþjónustu og byggt upp sterkari samfélög. Gott dæmi um þetta er Reykjanes Geopark sem hlotið hefur viðurkenningu UNESCO en markmið hans er að kynna sérstöðu svæðisins, bæði náttúru og menningu.

Annað dæmi er tónlistararfur okkar Suðurnesjamanna og söngvaskáldin sem mótað hafa íslenska tónlistarsögu og ég vil halda því fram að Suðurnesin - og ekki síst Reykjanesbær séu vagga íslenskar rokktónlistar. Margir hafa velt fyrir sér ástæðum þess og er þá helst íslenska herstöðin nefnd enda óhætt að segja að bandarísk þjóðlagahefð eða kántríið hafi fyrst skotið rótum hér. Þá vita færri að fyrsta poppstjarna Íslands, Rúnar Júlíusson var upphafsmaður íslenska reggísins.

Þá má ekki gleyma því að við búum  í ört vaxandi fjölmenningarsamfélagi og er hvatt til þess að fólk bæði deili menningararfi sínum og kynnist arfi annarra hópa og samfélaga. Þannig geta allir tekið þátt í samtalinu og menningararfurinn verður fjölbreyttari.

Við þurfum að spyrja okkur að þessu: Má menningararfurinn breytast? Má vinna með hann og þróa í skapandi samspili fortíðar og samtíðar? Eða viljum við múra fortíðina inni.

Menningararfurinn er lifandi samtal sem við eigum ekki einungis að taka á tyllidögum sem þessum. Menningin er sprelllifandi og stöðugt í endurnýjun, það má því útskrifa sjúklinginn.

Gleðilega þjóðhátíð!