Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Kúrekasstígvélin vinsæl í West Virginia
Kormákur hér fyrir miðju ásamt liðsfélögum.
Sunnudagur 15. október 2017 kl. 05:00

Kúrekasstígvélin vinsæl í West Virginia

-Kormákur Andri Þórsson lærir sálfræði og spilar fótbolta í Bandaríkjunum

Hvað ertu að gera í Bandaríkjunum?
„Ég er að læra sálfræði í háskóla sem heitir Alderson Broaddus í West Virginia, ásamt því að spila fótbolta með skólaliðinu.“

Hvernig gengur hjá þér úti?
„Þetta hefur byrjað bara nokkuð vel. Liðsfélagarnir hafa tekið vel á móti mér og ég var fljótur að komast inn í hlutina. Mér gengur vel námslega og mér líkar vel við fólkið hérna úti.“

Public deli
Public deli

Finnst þér Bandaríkin ólík Íslandi?
„Já, mjög. Það fyrsta sem mér dettur í hug er maturinn, þeir djúpsteikja allt og ef það er einhver leið til að gera matinn óhollari en hann er, þá hika þeir ekki við það. Það mætti flokka fylkið sem ég bý í sem sveitafylki og fólkið hérna er öðruvísi heldur en heima. Kúrekaskór eru mjög vinsælir til dæmis og það eiga nánast allir pallbíl. Það er kannski full ýkt að kalla þetta menningarsjokk, en ég þurfti að aðlagast töluvert, því fólkið hérna er mjög gamaldags miðað við heima.“

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?
„Hefðbundinn dagur hjá mér byrjar kl. 9 á morgnana þegar ég fer í tíma. Kl. 11 fer ég og hitti „Athletic Trainer“, sem er eiginlega eins og sjúkraþjálfari, og geri æfingar eða fæ meðferð ef ég er meiddur eða aumur, fæ mér svo að borða og fer aftur í skólann. Skólinn er búinn um 15 og þá annað hvort læri ég eða slappa af. Æfingar eru alltaf 18 til 20 á kvöldin ef það er ekki leikur. Eftir æfingu borðar liðið saman og svo er frjáls tími restina af kvöldinu.“

Hvað er það besta við að vera þarna úti?
„Úrvalið á Netflix er töluvert betra heldur en heima, svo verður líka þægilegt að geta fylgst með NBA án þess að þurfa að vaka allan sólarhringinn.“

Hvað er planið eftir nám?
„Ég fæ Bachelor gráðu í sálfræði hérna og draumurinn er að byggja ofan á það og mennta mig eitthvað meira.“