Mannlíf

Háskólanám fyrir 60 ára og eldri
Laugardagur 15. desember 2018 kl. 06:00

Háskólanám fyrir 60 ára og eldri

Hildur Harðardóttir, 75 ára, er aftur sest á skólabekk en ætlar sér ekki að klára einhverja háskólagráðu í þetta sinn heldur er þetta aðeins öðruvísi háskóli þar sem nemendur er sextíu ára og eldri og læra það sem þá langar til. Þetta er alþjóðlegur háskóli þriðja æviskeiðsins og nefnist U3A og kostar 1500 krónur á ári. Allir nemendur velja sér það sem þá langar til að fræðast um og hittast svo tvisvar í mánuði og ræða málin.

Geta allir verið með?
„Já allir sem eru orðnir sextíu ára og eldri eru velkomnir í hópinn. Það þýðir að þegar við erum orðin vitur þá er tími til kominn að læra meira. Þetta er spennandi. U3A eru alþjóðasamtök fullorðins fólks og kom til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum og í fyrra fréttum við af þessu og ákváðum að fara af stað með þetta hér. Þau komu frá U3A í Reykjavík og kynntu þetta fyrir okkur og við héldum stofnfund í september 2017. Þetta er jafningjafræðsla. Við byrjum á að setja fram ósk um það sem okkur langar að læra meira um. Ég hafði mestan áhuga á sögu Suðurnesja. Hópurinn fer á vefinn og grúskar, leitar að upplýsingum um efnið og fræðist. Svo segjum við frá því sem við höfum lært og fræðum hina í leiðinni. Þetta er einnig frábær þjálfun í að flytja erindi, hitta aðra sem langar til að læra meira og vera saman. Við erum orðin 60 talsins en hittumst í minni hópum en þeir ákvarðast eftir áhugasviði. Lærdómurinn byggir á áhuga hvers og eins. Núna erum við með ættfræðihóp, Suðurnesjahóp, spjallhóp um barnæsku þar sem fólk rifjar upp gamla tíma og breytingarnar, ferðahóp sem kynnir sér ákveðinn stað og fer síðan þangað til nánari fræðslu. Ritunarhópur var settur af stað í haust til að þjálfast í að skrifa sögur og ljóð. Ég er með í tveimur hópum en sumir eru með í fleirum. Við hittumst tvisvar í mánuði og getum grúskað heima þess á milli. Þetta er gaman,“ segir Hildur og ljómar öll þegar hún segir frá þessu háskólanámi.

Skrifar bækur
Hildur er mjög félagslega virk og tekur þátt í mörgu. Hún segir: „Annað hvort deyjum við ung eða verðum gömul. Mér finnst gaman að fræðast og það heldur mér hressri ásamt gönguferðunum sem ég fer í. Nú er bróðir minn, Hrafn Andrés Harðarson, fluttur út í Garð úr Kópavogi og þá erum við nær hvort öðru. Honum líkar vel og segir himininn vera svo stóran í Garðinum. Við erum að fagna saman 100 ára afmæli foreldra okkar og ætlum að skrifa ævisögu þeirra. Um daginn gáfum við bókina Sagnir frá Garði og Sandgerði en þá bók skrifaði ég fyrir nokkrum árum. Áður kom út Sagnir úr Reykjanesbæ og ég er bráðum að fara að gefa út samskonar bók með sögnum úr Grindavík og Vogum. Það er svo gaman að þessu og ef það væri ekki gaman þá væri ég að gera eitthvað annað. Ég var miklu duglegri við að ganga en má eiginlega ekki vera að því núna en við bróðir minn gengum samt töluvert í sumar. Við höfum sömu áhugamál og það tengir okkur einnig saman,“ segir Hildur létt og minnir frekar á táningsstelpu en konu á áttræðisaldri því eldmóðurinn er svo mikill. Hún biður áhugasama að fara inn á Facebook og finna hópinn undir U3A Suðurnes.

[email protected]

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024