Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Fæstir komast í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni
Borgar með borinn á lofti í krossasmíðinni.
Sunnudagur 21. apríl 2019 kl. 06:00

Fæstir komast í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni

-segir Borgar Ólafsson sem smíðar leiðakrossa

„Ég hef verið að smíða kross á leiði síðan haustið 1999 þegar ég keypti hluta af fyrirtæki hans Óla Sigurðs á Skólaveginum í Keflavík. Ég byrjaði fyrst með þetta í bílskúrnum heima hjá mér en svo ákvað ég að flytja starfsemina, sem heitir Skilti og merkingar ehf. á Iðavelli 9a í Keflavík. Ég bý til krossa með skiltum í þremur stærðum sem notast eftir stærðum leiða og er sennilega sá eini á landinu sem gerir það. Fólk er einnig að kaupa kross eða púlt á leiði gæludýra sinna. Í seinni tíð tíðkast að setja kross við leiði strax að lokinni jarðarför enda kross nær helmingi ódýrari en einn krans. Oft er krossinn látinn standa þar til legsteinn kemur á leiðið en stundum lengur enda getur krossinn vel enst í 30 til 40 ár með góðri hirðu, það er allur gangur á því,“ segir Borgar.


Krossar í vinnslu hjá Borgari.

Public deli
Public deli

Með sterkt hjarta
„Mér finnst voða gott að hafa eitthvað að dunda við. Ég er að verða 74 ára gamall og á meðan ég tek ekki hjartapillur þá er ég ánægður og ætti að geta unnið áfram þar til ég verð gamall. Ég er með gamaldags vélstjóramenntun og var því vélstjóri í landi og á sjó hjá útgerðinni hans pabba heitins í mörg ár, honum Óla Björns. Einnig vann ég sjö ár hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli. Ég er nú kannski þekktastur fyrir Boggabar sem ég rak í ellefu ár niður við höfnina í Keflavík en ég seldi hann árið 1998. Ég er vanur að ráða mér sjálfur og líkar það vel. Ég er í samstarfi við Útfararþjónustu Suðurnesja með krossana. Fyrir utan framleiðslu á krossum er ég að framleiða hurðaskilti og allskonar ígrafnar merkingar, ég gef mig mest út á þetta. Það er nóg að gera hjá mér. Svo er ég líka með heimasíðu þar sem ég sel nokkuð en vefsíðan er www.skiltiogmerkingar.is  Ég hef stundum sagt að krossinn sé settur til merkingar á síðasta heimilisfangið sem við fáum hér á jörðinni.  Ég er líka að framleiða hurðaskilti til merkingar svo að pósturinn rati til okkar.“

Þakka fyrir það liðna
„Fæstir komast í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni og ef hún breytir manni ekki þá er fátt sem getur gert það því sorgin nístir í hjarta. Ég missti móður mína um tvítugt og þá kynntist ég sorginni í fyrsta sinn. Þetta er sá skóli sem við þurfum flest að fara í gegnum. Það er að hafa þakklæti í sorginni, þakka fyrir það sem maður hefur og átti,“ segir Borgar og bendir á að kímni sé nauðsynleg og verði einnig að vera með í för þegar starfað sé á þessum vettvangi sem snertir andlát.

[email protected]