11. september 17:51
„Sumarið var frábært ævintýri sem reyndi á rödd og líkama“

„Morgana var eitt af mínum draumahlutverkum og er næststærsta kvenhlutverkið í óperunni,“ segir Grindavíkurmærin Berta Dröfn Ómarsdóttir sem eyddi sumrinu  á tónlistarhátíð í Trentino á Ítalíu. Á hátiðinni voru settar upp fjórar óperuuppfærslur, fjöldinn allur af galatónleikum og masterklössum. Berta söng m.a. á galatónleikum í höll í Tonadico og á útisviði í Mezzano, en stærsta upplifunin að hennar sögn var þegar hún lék Morgönu í óperunni Alcina eftir Händel.

Áheyrnarprufur fyrir tónlistarhátíðina fóru fram víða um heim og var því sérvalin söngvari í hverju óperuhlutverki. Berta var valin úr hópi umsækjenda eftir áheyrnarprufur í Karlsruhe í Þýskalandi.  „Ég var mjög ánægð, þetta er stórt hlutverk og því mikil sviðsvera, mikill leikur og söngur. “

Leikstjóri óperunnar var Andjela Bizimoska en óperan fjallar um tvær systur, þær Morgönu og Alcinu, sem er drottning á ævintýraeyju. Þær systur notfæra sér þá karlmenn sem koma á eyjuna og breyta þeim í dýr, steina eða tré ef þeir sýna mótþróa eða ef þær fá leið á þeim. Þegar óperan hefst kemur ungur drengur á eyjuna til að leita föður síns sem hvarf. Óperan endar svo á að upp kemst um systurnar.

„Raddþjálfarinn minn var Harolyn Blackwell, algjörlega guðdómleg söngkona og frábær kennari. Hún hjálpaði mér að takast á við þær raddlegu og líkamlegu áskoranir sem fylgdu hlutverkinu,“ segir Berta sem var blá og marin eftir fyrstu dagana. Sviðsetningin var mjög lifandi en frekar kynferðisleg, það er mikil áskorun að syngja með fullum stuðning þannig að það berist yfir heila hljómsveit liggjandi á maganum eða bakinu. „Til að halda heilsu og lina verkina fór ég reglulega í sund og gerði teygjuæfingar áður en ég fór að sofa.“ Þó að Bertu hafi fundist þetta líkamlega erfitt þá fannst henni þetta mjög gaman og hópurinn sem hún vann með alveg frábær.

Mitchell Piper er stjórnandi hátíðarinnar, en hann rekur líka umboðsskrifstofu fyrir söngvara; Piper Anselmi Artist Management. Þegar Piper sjálfur var ungur listamaður ákváðu tveir góðkunningjar fjölskyldunnar að styðja við hann fjárhagslega á meðan hann var að koma sér á framfæri og öðlast reynslu. Hann lofaði þeim að hann myndi borga þetta til baka með því að styðja við næstu kynslóð söngvara: sem var hvatinn hans til að stofna þessa tónlistarhátíð í Trentino. Berta söng á masterklassa hjá Piper og hrósaði hann henni mikið. Hann sagði að hún hefði mikla útgeislun og tjáningu í andlitinu sem er hennar helsi kostur ásamt því að hún sé hlý og einlæg í söng og tali beint til áheyrandans.

„Eftir hátíðina lá leiðin til Fidenza. Þar söng ég á tónleikum í útileikhúsi ásamt velþekktum baritón, Romano Franceschetto, sem átti söngferil í Scala óperunni. Tónleikarnir voru svo vel sóttir að síðustu tónleikagestirnir sátu fyrir utan leikhúsið og heyrðu óminn af tónleikunum. Við fengum frábæra dóma og umfjöllun í ítölsku dagblaði.“

Það erfiðasta við sumarið var að amma Bertu, Sigríður Reimarsdóttir, lést á meðan hátíðinni stóð og hún gat ekki farið í jarðarförina. „Það er það erfiðasta við þennan starfsvettvang, þegar maður er búinn að skuldbinda sig í ákveðið verkefni er nánast ómögulegt að fá sig lausan,“ segir Berta en hún huggar sig við það að amma hennar var stolt af því sem hún var að gera. „Undanfarin ár hef ég alltaf sent henni póstkort þegar ég fer til nýrra staða og segi henni frá söngævintýrum mínum í útlöndum. Ég var nýbúin að kaupa eitt slíkt, sem ég var of sein að senda. Síðast þegar ég sá ömmu var á tónleikum mínum í Hörpu 27. maí.“