Íþróttir

Wallen tryggði Keflavík eins stig sigur á Njarðvík úr víti
Daniela Wallen var stigahæst Keflvíkinga og tryggði sigurinn úr víti á lokamínutunni. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 4. apríl 2024 kl. 08:55

Wallen tryggði Keflavík eins stig sigur á Njarðvík úr víti

Keflvíkingar höfðu betur í toppslag Subway-deildar kvenna í körfuknattleik þegar tvö efstu liðin, Keflavík og Njarðvík, áttust við í Blue-höllinni í gær.  Á sama tíma vann Grindavík fjögurra stiga sigur á útivelli gegn Stjörnunni. Þetta var lokaumferð Subway-deildarinnnar og Suðurnesjaliðin skipa sér í þrjú efstu sætin þegar úrslitakeppnin fer í gang.

Keflavík - Njarðvík 70:69

Það var hart tekist á í fyrsta leikhluta og gestirnir úr Njarðvík leiddu með tveimur stigum að honum loknum (17:19).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áfram hélt baráttan og um miðbik annars leikhluta sigu Keflvíkingar fram úr og höfðu fjögurra stiga forystu í hálfleik (44:40).

Enn og aftur varð viðsnúningur og Njarðvík leiddi með fimm stigum eftir þriðja leikhluta (51:56) en Keflvíkingar sóttu hart að gestunum og jöfnuðu leikinn þegar þrjár og hálf mínúta voru liðnar af síðasta leikhluta (63:63). Þær komust svo yfir skömmu síðar og hleyptu Njarðvíkingum ekki fram úr sér eftir það. Það var svo Danela Wallen sem skoraði sigurkörfuna þegar hún hitti öðru af tveimur vítaskotum sínum þegar hálf mínúta var til leiksloka.

Keflavík: Daniela Wallen 28 stig/16 fráköst/2 stoðsendingar, Anna Ingunn Svansdóttir 12/2/0, Sara Rún Hinriksdóttir 10/7/1, Birna Valgerður Benónýsdóttir 7/2/0, Elisa Pinzan 7/4/6, Thelma Dís Ágústsdóttir 4/2/2 og Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2/0/0.
Njarðvík: Selena Lott 23 stig/11 fráköst/ 5 stoðsendingar, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 15/11/1, Ena VIso 14/4/2, Emilia Hesseldal 12/11/4, Andela Strize 3/5/1 og Jana Falsdóttir 2/3/1.

Dagný Lísa átti góða rispu í upphafi þriðja leikhluta og kom Grindavík yfir í leiknum.

Stjarnan - Grindavík 73:77

Grindvíkingar hófu leikinn vel og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta (17:23) en Stjörnukonur sneru dæminu sér í vil og leiddu með tveimur í hálfleik (38:36).

Dagný Lísa Davíðsdóttir kom Grindavík yfir snemma í þriðja leikhluta þegar hún setti niður þrist og fylgdi honum eftir með tveimur sniðskotum (41:42). Danielle Rodriguez og Eve Braslis juku forskotið með sínum þristinum hvor og Grindavík komið sjö stigum yfir (41:48).

Eftir þessa orrahríð náðu Stjörnukonum vopnum sínum á nýjan leik og leiddu með einu stigi fyrir lokaleikhlutann (60:59).

Leikurinn hélst í járnum en Grindavík reyndist sterkari á lokasprettinum og hafði að lokum fjögurra stiga sigur (73:77).

Grindavík: Danielle Rodriguez 25 stig/8 fráköst/7 stoðsendingar, Eve Braslis 21/8/3, Ólöf Óladóttir 8/1/2, Hulda Björk Ólafsdóttir 7/1/1, Dagný Lísa Davíðsdóttir 6/9/1, Alexandra Sverrisdóttir 5/6/1 og Hekla Eik Nökkvadóttir 5/1/2.