Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Golf á hverjum morgni
Þeir Guðmundur Rúnar, Brynjar, Kristinn Þór og Sigurður í Leirunni.
Þriðjudagur 21. maí 2019 kl. 15:57

Golf á hverjum morgni

Sumarið er komið. Golfvellirnir eru að fyllast af fólki á öllum aldri sem langar að eltast við pínulítinn bolta í grasinu, með kylfu í annarri hendi og derhúfu á höfði eða þannig lítur þessi íþrótt út fyrir þeim sem ekki spila golf. Sidda fannst þetta ekki vera nein íþrótt á árum áður en lét samt tilleiðast og byrjaði að spila árið 1982 eftir að nágranni hans náði honum út á golfvöll en eftir það var ekki aftur snúið. Í dag er Siddi, eða Sigurður Friðriksson réttu nafni, orðinn áttræður og spilar alla morgna með þremur félögum sínum í Golfklúbbi Suðurnesja sem heita Brynjar Vilmundarson, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Kristinn Þór Guðmundsson. Þeir aka um völlinn í Leirunni á þremur golfbílum og segja bílana gera það að verkum að þeir geti spilað í dag. Allir eru þeir í kringum áttrætt. Við spurðum þá félaga hvort það væri gaman í golfi.

Public deli
Public deli

Brynjar Vilmundarson er einn af stofnendum GS en klúbburinn var stofnaður árið 1964.
„Já, ég segi þetta við hann Sidda ef hann er eitthvað að ybba sig að ég eigi þennan golfvöll. Ég segi að þetta sé tímaeyðsla núna þegar maður er orðinn gamalmenni því þá er gott að koma hingað út á völl og eyða tímanum hér. Ég tók pásu árið 1978 en byrjaði aftur að spila 2009.“

Sigurður „Siddi“ Friðriksson: „Já þetta er skemmtileg íþrótt en fyrst fannst mér þetta ekki vera íþrótt. Það er nú smá saga á bak við það að ég byrjaði að spila golf en nágranni minn á Nónvörðunni, hann Ástþór Valgeirsson, var búin að vera í golfklúbbnum og ég hló að honum. Ég hafði æft sund í mörg ár sem keppnisíþrótt og fannst golf nú ekki vera íþrótt í samanburði við það. Svo lét ég tilleiðast og fór út á golfvöll og hef ekki hætt síðan en þetta var árið 1982. Það er stór plús að spila golf þegar maður eldist.“

Kristinn Þór Guðmundsson „Kiddi í Dropanum“: „Ég er nú búinn að vera byrjandi í fimmtíu ár. Ég hef ekki stundað golf af alvöru fyrr en núna með þessum hópi en ég sé orðið illa boltann en Rúnar sér hann fyrir mig. Ég slæ bara.“

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson „Rúnar Hallgríms“: „Ja, ég er nú bara kaddí hjá honum Kidda en við keyrum í sama bílnum. Ég get kennt konu minni um það að ég fór að spila golf en ein jólin gaf hún mér þrjár kylfur í jólagjöf blessunin. Ég var um fimmtugt en fór ekki að spila reglulega fyrr en eftir sextugt þegar ég hætti á sjónum.“

Brynjar: „Kiddi slær vel en púttar eins og hálfviti, Rúnar er hins vegar afburða púttari.“ Þeir hlæja allir að þessari athugasemd og velta því fyrir sér hvort það megi setja svona ummæli í blaðið.

Siddi: „Það er góð hreyfing sem við fáum hér alla daga en á veturna mætum við í Reykjaneshöllina og göngum þar saman og hittum fleiri Keflvíkinga sem eru að hreyfa sig. Við erum að byggja upp þol fyrir golfið. Golfbílarnir auðvelda þetta fyrir okkur í Leirunni.“

Brynjar: „Ég fer ekki í Reykjaneshöllina á veturna því þá spila ég bridds á Nesvöllum.“

Brynjar var í hópi golfáhugamanna sem byrjuðu snemma að eiga við hvíta boltann á Hólmsvelli í Leiru.

„Grænásmenn komu þessu af stað, menn í lögreglunni og flugmálastjórn. Þorgeir Þorsteins, þáverandi lögreglustjóri og Kiddi Pé, Kristján Pétursson, tollari, voru í þessum hópi og fleiri góðir menn. Ásgrímur Ragnarsson var fyrsti formaðurinn. Þá voru þeir að smala mönnum saman og fá þá til þess að byrja að spila golf. Þeim sé þökk fyrir þetta framtak. Unga fólkið í dag heldur sumt að þessi golfvöllur hafi dottið niður af himni en svo er ekki, það liggur mikil vinna í vellinum í öll þessi ár. Það er heilmikil saga á bak við þetta framtak. Við byrjuðum fyrst með sex holu völl og svo urðu þær níu en í dag er völlurinn átján holu völlur.“

Kiddi: „Brynjar er langbestur af okkur í golfi en við Rúnar erum frægastir. Þetta er bara svo gaman og hópurinn góður. Þeir eru nýbyrjaðir að leyfa mér að vera með sér.“

Siddi: „Já, við erum góðir félagar og eyðum ákveðnum tíma saman á hverjum degi, hittumst hér á milli tíu og hálfellefu á morgnana og spilum átján holur. Maður þarf að hreyfa sig, það er svo gott og heldur manni frískum. Gaman að því hversu margir byrja að æfa sig á gamla æfingasvæðinu, Jóelnum, og koma svo hingað og spila völlinn en þannig byrjaði ég.“

Rúnar: „Við erum ljónheppnir að hafa heilsu til að vera hérna og spila. Mér finnst golf vera góð afþreying og góð útivera. Þetta er ljómandi gott og aldrei kalt. Svo fáum við okkur kaffi hér í golfskálanum á eftir og spjöllum saman áður en við förum heim.“

Brynjar: „Kaffi og með því til þess að styrkja veitingasöluna í golfskálanum. Það þarf að kaupa til þess að þjónustan lifi. Já, það er mikil ánægja og gleði hjá okkur og ég segi aldrei ljótt orð úti á golfvelli enda er ég vaxinn upp úr því.“ Þeir hlæja allir sem einn að þessum ummælum frá Brynjari.

[email protected]

Það ríkir þögn á meðan verið er að pútta.