Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Telur sig hafa fundið flak Goðafoss í Faxaflóa
Miðvikudagur 7. desember 2005 kl. 00:52

Telur sig hafa fundið flak Goðafoss í Faxaflóa

Tómas J. Knútsson, sportkafari og forsvarsmaður Bláa hersins, segist sannfærður um að hann hafi fundið flak Goðafoss, sem sökkt var í síðari heimsstyrjöldinni á Faxaflóa eftir sprengjuárás þýsks kafbáts. Tómas hefur komist í samband við fjársterkan aðila og nú er beðið eftir réttu tækifæri til að kafa niður að flaki skipsins með neðansjávarkvikmyndabúnaði og mynda skipið. Myndirnar verða síðan notaðar í kvikmynd um Goðafoss sem landsþekktur þáttagerðarmaður er að vinna að.

„Fyrir rúmum 20 árum kviknaði áhugi hjá mér að leita að E/S Goðafossi. Síðasta sjóferð þessa skips var mikil harmsaga og margir fórust með skipinu. Fjölmargir sjónarvottar voru að atburðinum er skipið sökk eftir sprengjuárás þýsks kafbáts. Í nokkur ár safnaði ég að mér vitnisburði nokkurra manna og geymdi þá með mér,“ sagði Tómas J. Knútsson, kafari í samtali við Víkurfréttir.

Tómas hefur kafað á þeim slóðum sem skipið fórst og á miðjum áttunda áratug síðustu aldar kafaði Tómas niður að flaki skips sem bæði var illa farið og á miklu dýpi. „Ég var sannfærður um að þetta væri skipið. Köfun á þessum slóðum er hins vegar stórhættuleg sökum strauma, dýpis og myrkurs,“ segir Tómas.

En hvað varð til þess að nú skal ráðist í að kvikmynda flakið neðansjávar?
„Undanfarin ár hefur áhugi minn á flakinu vaknað á ný og þá sérstaklega að ljósmynda það eða jafnvel kvikmynda. Það var síðan fyrir tæpum tveimur árum sem þekktur sjónvarpsmaður kom að máli við mig, þar sem hann var að vinna að kvikmynd um Goðafoss. Með okkur tóks samkomulag um að ég skyldi finna styrktaraðila sem gæti hjálpað okkur með leigu á neðansjávarkvikmyndabúnaði fyrir verkið. Þá væri hægt að klára myndina og sýna hana hér heima“.

Tómas sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri staðan sú að fjársterkur aðili hafi sýnt verkefninu áhuga. „Nú bíður áhugahópur minn eftir rétta tækifærinu til að ljúka verkefninu og vonandi tekst það sem allra fyrst. Megi Guðs blessun hvíla yfir þeim sem fórust þennan örlagaríka dag árið 1944,“ sagði Tómas J. Knútsson í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Goðafoss. Tómas J. Knútsson telur sig hafa fundið flak skipsins og bíður eftir rétta tækifærinu til að senda myndavélar niður að flakinu.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024