Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Samráðsteymi komi með tillögu um staðsetningu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ
Gervigrasvöllurinn í Reykjanesbæ. Nú er tekist á um staðsetningu samskonar vallar í Suðurnesjabæ. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 5. apríl 2024 kl. 06:06

Samráðsteymi komi með tillögu um staðsetningu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða að samráðsteymi um uppbyggingar- og viðhaldsáætlun íþróttamannvirkja verði falið að vinna tillögu um staðsetningu gervigrasvallar og skili tillögu til bæjarráðs fyrir 20. maí 2024.

„Bæjarráð leggur áherslu á að knattspyrnufélögin taki fullan þátt og ábyrgð við vinnu að tillögu um staðsetningu vallarins. Jafnframt vinni samráðsteymið að framtíðarsýn um uppbyggingu íþróttamannvirkja og í samstarfi við íþróttafélögin að framtíðarsýn um starfsemi þeirra,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs frá því í síðustu viku.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Umrætt samráðsteymi var samþykkt á 67. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar. Starfsmaður umhverfissviðs, forstöðumaður íþróttamannvirkja og íþrótta- og tómstundafulltrúi sitji í samráðsteyminu.

Íþróttafélögin Reynir og Víðir hafa ekki getað komið sér saman um hvar völlurinn skuli staðsettur – og þar stendur hnífurinn í kúnni. Búið er að samþykkja 200 m.kr. fjárveitingu í verkið á þessu ári, 140 m.kr. á því næsta og 50 m.kr árið 2026.

Hjörtu félaganna þurfa að renna saman í eitt

Anton Kristinn Guðmundsson, fulltrúi B-lista í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar og formaður bæjarráðs, segir að íþróttafélögin hafi ekki getað komið sér saman um staðsetningu vallarins og boltinn því verið sendur á bæjarstjórnina til að fá niðurstöðu; „sem náði ekki að mynda pólitíska samstöðu um málið,“ segir hann.

„Ég er auðvitað kjörinn sem fulltrúi fólksins og við erum að sýsla með almannafé, svo ég horfi aðallega í hvað þetta kostar því það eru fleiri brýn mál og kostnaðarsöm inni á borði Suðurnesjabæjar. Mér finnst mikilvægt að fá íþróttafélögin að borðinu og að þau myndi sameiginlega sýn á uppbyggingu íþróttastarfs í Suðurnesjabæ.

Ég held að til að fá botn í þetta mál þurfi hjörtu félaganna að renna saman í eitt. Nú er ég ekki héðan, ég kem úr Grindavík og er alinn upp við eitt sterkt ungmennafélag. Mér finnst því eðlilegt að spyrja hvort ekki sé rétt að horfa til þess að sameina félögin undir einn hatt. Spyrja hvort við viljum vera með tvö félög sem eru í sífelldri baráttu í neðri deildunum eða hvort við viljum vera með eitt sterkt lið og horfa til efri deildanna, jafnvel þeirrar efstu.

Það þarf að fara dýpra í samtalið og byggja upp ungmennafélagsandann hér í bæ.“

Mikilvægt að þetta sé unnið í sátt við íþróttafélögin og samfélagið

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar og fulltrúi D-lista í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, sagði að málefni gervigrasvallar sé í ferli og hann vildi lítið tjá sig um málið utan þess að hann komi að öllum líkindum til með að una þeirri niðurstöðu sem samráðsteymið skili af sér.

„Þar til nefndin skilar af sér áliti hef ég ekki mikið um málið að segja. Það er mikilvægt að þetta sé unnið í sátt við íþróttafélögin og samfélagið. Ef félögin koma sér saman um staðsetningu vallarins þá mun ég að sjálfsögðu styðja það,“ segir Einar Jón.

Vill sjá nýjan gervigrasvöll rísa á milli byggðakjarnanna

Jónína Magnúsdóttir, fulltrúi O-lista í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, segist vilja sjá nýjan gervigrasvöll rísa á milli bæjarkjarnanna Sandgerðis og Garðs. „Með því er verið að hugsa um uppbyggingu til framtíðar ásamt jafnræði í aðgengi allra bæjarbúa. Stórar ákvarðanir sem þessar ættu alltaf að vera teknar með tilliti til stefnu og framtíðarsýnar,“ segir hún.

Jónína bendir á að hægt er að byggja völlinn upp í áföngum og; „með því að setja hann í miðjuna erum við einnig að taka áþreifanleg og mikilvæg skref í að sameina byggðakjarnana enn frekar.“