Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Hraunbreiðan við varnargarða austan Grindavíkur hefur þykknað
VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 23. apríl 2024 kl. 15:23

Hraunbreiðan við varnargarða austan Grindavíkur hefur þykknað

Áfram gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk, eins og hefur gert frá 5. apríl. Líkt og áður rennur hraun stutta vegalengd í opinni hraunelfur til suðurs frá gígnum en lengra í lokuðum rásum. Sá hluti hraunbreiðunnar sem liggur meðfram varnargörðum austan Grindavíkur hefur þykknað undanfarna daga eins og meðfylgjandi hreyfimyndir sýna. Myndirnar sýna muninn hraunbreiðunni á milli 18. og 23. Apríl. Efri myndirnar eru úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Neðri myndirnar eru einnig úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs.

8c6cfe1b-c87b-4501-bd10-41e7c2079707

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er á varnargarði austan Grindavíkur og horfir á hrauntunguna sem rann í átt að Suðurstrandarvegi í upphafi eldgossins. Gulur kassi er utan um það svæði hraunbreiðunnar sem þykknar mest á tímabilinu.

57f4a945-2487-4adc-af84-b11fcc474350

Myndir úr vefmyndavél Almannavarna sem staðsett er uppi á Hagafelli og horfir til suðurs. Gulur kassi merkir svæði þar sem hraunið nærri varnargörðunum hefur þykknað mest.

Mælingar á hraunflæði í eldgosinu sýna að frá því í byrjun apríl hefur það verið á milli 3 og 4 m3/s. Síðustu mælingar eru síðan 15. apríl og búist er við því að nýjar niðurstöður liggi fyrir í næstu viku sem mun varpa ljósi á það hvort mælanlegar breytingar hafi orðið á hraunflæði frá 15. apríl.

Landris í Svartsengi mælist á svipuðum hraða sem bendir til þess að kvikusöfnun haldi áfram. Líkanreikningar byggðir á GPS og gervitunglagögnum áætla að um 7 til 8 milljón m3 hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því að eldgosið hófst 16. mars. Í fyrri kvikuhlaupum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta kvikuhlaupi.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á því að kraftur eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni aukist verulega.

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningu í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Einnig er mögulegt að það verði kvikuhlaup sem endi með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þessi sviðsmynd er talin ólíklegri en hinar og henni myndi fylgja töluverð skjálftavirkni og aflögun með meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Uppfært hættumat

Á vísindafundi Veðurstofunnar í morgun var hættumat yfirfarið. Líkur á gosopnun á svæði 1 (Svartsengi), 4 (Grindavík) og 7 hafa verið lækkaðar frá því að vera metnar töluverðar í litlar. Á föstudag, vegna áframhaldandi kvikusöfnunar og mikillar óvissu vegna nýrrar stöðu og mögulegra þróunar jarðhræringanna, var ákveðið tímabundið að auka líkur á gosopnun innan þessara svæða. Á vísindafundinum í morgun var það metið að ekki væru skýrar vísbendingar að svo stöddu að auknar líkur væru á gosopnun innan þessara svæða.

Haettusvaedi_VI_23april_2024

Á meðan áfram gýs við Sundhnúk er talið líklegast ef það kemur til aukins kvikuflæðis þá muni kvikan fylgja þeirri opnu rás sem nú fæðir eldgosið og/eða nýjar gossprungur muni opnast þar nærri. Vegna þessa eru líkur á gosopnun án fyrirvara áfram taldar mjög miklar á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni). Að öllu óbreyttu gildir hættumatið til 30. Apríl.