Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Fyrstu nemendur á flugnámsbraut Icelandair og Flugakademíu Keilis hefja nám
Hópurinn sem hóf nám við Flugakademíu Keilis þann 17. Nóvember sl.
Mánudagur 20. nóvember 2017 kl. 14:42

Fyrstu nemendur á flugnámsbraut Icelandair og Flugakademíu Keilis hefja nám

Fyrsti hópur nemenda á flugnámsbraut (cadet nám) Icelandair hóf nám í Flugakademíu Keilis 17. nóvember síðastliðinn. Alls voru innritaðir 26 nýnemar, þar af tuttugu cadet nemendur, og er þetta fjórði bekkurinn sem hefur samtvinnað atvinnuflugmannsnám hjá Keili á þessu ári. Þetta er í fyrsta skiptið sem boðið er upp á cadet nám hér á landi, en í þar býðst nemendum meðal annars aðstoð við fjármögnun námsins auk þess sem þeir njóta forgangs til starfa hjá Icelandair að námi loknu. Áætlað er að fyrstu cadet nemendur Keilis geti hafið störf hjá félaginu sumarið 2019.

Á undanförnum árum hefur Icelandair ráðið til sín 50 - 60 flugmenn árlega og gert er ráð fyrir að fjöldinn verði svipaður á næstu árum. „Þessi leið við nám og þjálfun nýrra flugmanna er þekkt meðal alþjóðlegra flugfélaga og við viljum fara þessa leið til þess að tryggja áframhaldandi vaxtarmöguleika Icelandair“, segir Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri Icelandair. „Hér er um að ræða nýja leið að flugmannsstarfi, viðbótarleið við þær leiðir sem fyrir eru og hafa gefist vel, sem miðar að því stækka þann hóp sem vill leggja flugið fyrir sig“, segir Hilmar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samtals hafa um eitt hundrað nýnemar hafið atvinnuflugmannsnám í Keili það sem af er ársins og er samanlagður fjöldi atvinnuflugnema í skólanum vel yfir 200. Þá hafa hátt í sextíu umsóknir borist í næsta bekk atvinnuflugmannsnema sem hefst í janúar 2018 og verður námsárið því það lang fjölmennasta í Flugakademíunni frá upphafi.

Í ljósi fjölda umsókna mun umsóknarferli Flugakademíunnar breystast á næsta ári og þurfa þá umsóknir að hafa borist að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir upphaf námsins. Samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugmannsnám hefst í janúar, maí og ágúst 2018. Áhugasamir nemendur eru hvattir til að sækja um sem fyrst þar sem námskeiðin fyllast fljótt og eru umsóknir afgreiddar í þeirri röð sem þær berast.