Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Fyrsta frystitogaralöndunin í Grindavík eftir hamfarirnar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 4. apríl 2024 kl. 09:44

Fyrsta frystitogaralöndunin í Grindavík eftir hamfarirnar

Þorbjörn hefur alltaf hafið vinnslu í Grindavík við fyrsta tækifæri

„Grindavík er okkar heimahöfn, við löndum þar ef við getum,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri frystitogara hjá Þorbirni, en fyrsta löndun eftir hamfarirnar 10. nóvember átti sér stað þriðjudaginn 2. apríl þegar Tómas Þorvaldsson kom í heimahöfn.

„Síðasta löndun hjá okkur var 24. október, þá var það líka Tómas Þorvaldsson sem landaði en síðan þá hafa hann og Hrafn Sveinbjarnarson landað í Hafnarfirði. Við erum grindvískt fyrirtæki og ef við getum landað í Grindavík gerum við það.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tómas fór út 7. mars og er að landa verðmætum upp á 282 milljónir, 500 tonn sem gerir um 750 tonn upp úr sjó. Hann fer síðan út annað kvöld, við þurfum að gefa okkur tvo daga í löndun þegar svo mikið magn er.“

Eiríkur með starfsmanni Klafa löndunarþjónustu.

Þorbjörn hefur verið með vinnslu í Grindavík þegar það hefur verið heimilt og Eiríkur er bjartsýnn á framhaldið.

„Við vorum byrjaðir með vinnslu í lok nóvember og fyrsta löndun úr ísfisktogara var 30. nóvember. Vinnslan var komin á fullt en svo þurftum við að hætta 18. desember en við höfum alltaf hafið vinnslu um leið og það hefur verið leyft. Ég leyfi mér að vona að það versta sé yfirstaðið, var ekki Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að gefa í skyn að þetta sé síðasta eldgosið við Grindavík, ég veit svo sem ekkert hvað hann hefur fyrir sér í því, vona bara að hann hafi rétt fyrir sér. Varnargarðarnir veita okkur mikið öryggi og ég trúi því að uppbygging geti hafist í Grindavík fljótlega. Sjálfur gisti ég heima hjá mér í fyrsta sinn um páskana síðan við þurftum að rýma 10. nóvember og það var æðislegt. Við hjónin stefnum á að flytja til Grindavíkur sem fyrst, ég held að það sé bara bjart framundan,“ sagði Eiríkur að lokum.