Fréttir

Fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndrápstilraun
Fimmtudagur 24. janúar 2008 kl. 16:17

Fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndrápstilraun

Robert Olaf Rihter var í dag dæmdur í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir tilraun til manndráps. Rihter, sem er pólskur ríkisborgari veittist að samlanda sínum á heimili sínu í Reykjanesbæ í nóvember sl. og sló hann endurtekið með brotinni glerflösku, m.a. í höfuð og háls.

Þeir höfðum að sögn Rihters setið að sumbli fram eftir kvöldi og lenti svo saman með þessum afleiðingum. Rihter bar fyrir sig minnisleysi en hann hafi brugðist við með þessum hætti því brotaþolinn hafi haft flösku í hendi og hann hafi óttast um öryggi sitt. Þess vegna hafi hann tekið sjálfur aðra flösku og brotið hana til að verja sig gegn hinum manninum.

Fórnarlambið skarst mjög illa og fannst í blóðpolli utan við húsið þegar lögregla kom á vettvang. Var mikil mildi að hann hafi lifað af því blóðmissir var mikill.

Bar hann fyrir dómi að hann hafi verið genginn til náða þegar hann vaknaði við mikinn skarkala í íbúðinni. Þegar hann fór fram til að kanna málið sagðist hann hafa hitt Rihter fyrir þar sem hann braut allt og bramlaði og réðist svo á hann með flöskuna að vopni.

Auk fangelsisdómsins er Rihter gert að greiða skaðabætur, málskostnað að upphæð samtals um 2,5 milljónir króna.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024