Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Dregur hægt úr hraunflæði í gosinu en landris er hraðara
Ferðamenn virða fyrir sér eldgosið í gærkvöldi. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 9. apríl 2024 kl. 15:09

Dregur hægt úr hraunflæði í gosinu en landris er hraðara

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar í gær, 8. apríl. Út frá þeim gögnum sem safnað var í fluginu var hægt að leggja mat á stærð hraunbreiðunnar og hraunflæði í eldgosinu. Niðurstöðurnar sýna að dregið hefur jafnt og þétt úr krafti eldgossins. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Meðalhraunflæði frá gígunum á milli 3. og 8. apríl er metið 3,6  ± 0,7 m3/s. Byggt á gögnum sem Verkfræðistofan Efla safnaði þann 3. apríl í drónaflugi var meðalhraunflæðið metið 6,6 ±  0,3  m3/s frá 27. mars til 3. apríl. Flatarmál hraunbreiðunnar er orðið 6,14 km2 og rúmmál 31,3 milljón m3. Undanfarið hefur hraun runnið að mestu til suðurs frá gígnum, en tímabundið rann það skammt til norðurs á sunnudagskvöld (7. Apríl) þegar gígbarmur brast eins og fjallað var um í síðustu fréttauppfærslu. Eins og sést á meðfylgjandi korti þá hefur hraunið þykknað mest nærri gígnum og skammt sunnan þeirra þar sem mest virkni er í hraunbreiðunni. Engin greinileg merki eru um framrás hrauns við varnargarða norðan Grindavíkur, Suðurstrandarveg eða Melhólsnámu.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindavik_Svartsengi_lava_thickness_map_8april2024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Hraði landriss aukist undanfarna viku

Landris í Svartsengi heldur áfram og hefur hraði þess aukist undanfarna viku á sama tíma og dregið hefur úr krafti eldgossins. Það gefur til kynna að meirihluti kvikunnar sem streymir undir Svartsengi safnist saman þar og valdi auknum þrýstingi og landrisi. Á meðan eldgosinu stendur er þó áfram opin tenging á milli kvikusöfnunarsvæðisins í Svartsengi og Sundhnúksgígaraðarinnar og hluti kvikunnar flæðir þar upp á yfirborð.

Skjálftavirkni í kvikuganginum við Grindavík hefur haldið áfram að vera mjög lítil, og er helst milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells en einnig aðeins í vestanverðri Grindavík. Við Fagradalsfjall heldur áfram smáskjálftavirkni sem hefur verið viðvarandi undanfarna mánuði, og eru þeir áfram mjög staðbundir á um 6-7 km dýpi.

Gasmælingar sem framkvæmdar voru í gær, 8. apríl, áætla að 10-18 kg/s af brennisteinsdíoxíð (SO2) flæði úr gígunum. Áfram mælast tímabundið há gildi af SO2 í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Samkvæmt veðurspá verður norðan gola í dag og gasmengunin berst til suðurs. Hæg breytileg átt síðdegis og þá eru líkur á mengun nærri gosstöðvunum. Austan og suðaustanátt á morgun og gasmengunin berst þá til vesturs og norðvesturs. Gasdreifingarspá hér.

Hættumat óbreytt.

Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 16. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) og svæði 6 eru áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar. 

Haettusvaedi_VI_9april_2024

(Smelltu á kortið til að sjá stærra)

Þrátt fyrir að dregið hafi úr krafti eldgossins eru ekki merki um að heildar kvikuflæði frá dýpi sé að minnka. Þar er átt við samanlagt magn kviku sem safnast undir Svartsengi auk kvikunnar sem flæðir uppá yfirborð í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Erfitt er að spá fyrir um hvenær þessu eldgosi lýkur, það gæti haldið áfram í lengri tíma með stöðugu flæði eða stöðvast á næstunni. Þar sem kvika safnast áfram undir Svartsengi og þrýstingur þar eykst er líka möguleiki á að kraftur eldgossins aukist aftur, líkt og gerðist í Fagradalsfjalli 2021. Ef eldgosið stöðvast á næstunni er líklegast að kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi og svipuð atburðarrás, eins og sést hefur síðustu mánuði, muni endurtaka sig.