Fréttir

Börn þurfa að læra að þekkja tilfinningar sínar
Lovísa og Gunnella
Föstudagur 13. október 2017 kl. 08:00

Börn þurfa að læra að þekkja tilfinningar sínar

Lovísa Hafsteinsdóttir og dóttir hennar Gunnella Hólmarsdóttir eru að fara af stað með námskeið fyrir börn á aldrinum tíu ára til tvítugs. Á námskeiðinu leggja þær áherslu á jákvæða sjálfsmynd, að þekkja tilfinningar sínar og kvíðaeinkenni, efla félagsfærni og að standa með sjálfum sér, styrkleika og veikleika, hugarró og núvitund.

Námskeiðið stendur yfir í sex vikur og fer fram einu sinni í viku í eina og hálfa klukkustund í senn. Það mun fara fram í Fjölskyldusetrinu á Skólavegi 1 í Reykjanesbæ.
Lovísa er menntaður námsráðgjafi en í grunninn er hún tómstundafræðingur. Hún hefur einnig lokið námi í hugrænni atferlismeðferð (HAM) þar sem unnið er með kvíða og þunglyndi og svo var hún einnig að útskrifast í jákvæðri sálfræði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Námskeiðið byggist á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði, hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og núvitund, en allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á hamingju og velferð einstaklingsins.

Vanlíðan barna orðin algengari
„Ég er búin að vera með þetta námskeið í maganum í mörg ár en ég er búin að vinna með börnum í þrettán ár. Ástæðan fyrir því að ég fór í HAM var að fá fleiri tæki og tól til að vinna með því sem við erum að takast á við í samfélaginu í dag. Almenn vanlíðan barna er orðin mun algengari og nýjustu rannsóknir koma okkur ekki á óvart. Það er alveg sama hvaða rannsókna þú lítur til, allar benda þær á vanlíðan. Mörg börn þekkja ekki þessar tilfinningar og hafa ekkert í höndunum til að vinna með.“

Læra tjáningu í gegnum leik
Dóttir Lovísu starfar í Borgarleikhúsinu þar sem hún er með leiklistarval og sér einnig um „Leiktu með“ hér á Suðurnesjum. „Ég spurði hana hvort hún vildi ekki taka þátt í þessu verkefni með mér. Hún hefur mikinn áhuga á börnum og mun koma inn með tjáninguna. Þau læra tjáningu í gegnum leik og það að fara aðeins út fyrir rammann, þau fá þá líka hugsanlega þor til að gera það sem þeim langar til að gera.“

Veljum sjálf hamingjuna
„Í dag er áreitið alls staðar og kröfurnar eru miklar. Á námskeiðinu mun ég fara yfir hvernig hægt er að takast á við áreitið og það að við höfum val. Við höfum val um það hvað við gerum, hverjum við fylgjumst með o.s.frv. Það er nauðsynlegt að kenna börnunum okkar að þau hafa val um að vera hamingjusöm, hvernig þau hugsa og hvort þau vilji sjá það jákvæða eða neikvæða í kringum sig.“

Búum við mikla streitu
Lovísa segir að um sex þúsund hugsanir fari í gegnum heilann á degi hverjum og heilinn sé í raun og veru eins og lestarstöð. „Það er síðan þitt að ákveða hvar þú ætlar að stoppa á lestarstöðinni, hvort þú ætlir að stoppa við það jákvæða eða það neikvæða. Við búum við mikla streitu frá morgni til kvölds og þurfum að læra að kúpla okkur út og læra að anda. Núvitund byggist á því að vera hér og nú, staldra við í smástund og anda, því þannig jarðtengir maður sig. Börn verða oft þreytt þegar þau prófa að staldra við og anda því þá eru þau í raun og veru aðeins að kúpla sig út. Þau átta sig ekki á því hvað þau eru í miklu stressi og spennu daglega.“

Sælla að gefa en þiggja
Jákvæða sálfræðin breytti lífi Lovísu og segist hún hafa fengið nýja sýn á lífið eftir að hún útskrifaðist. „Ég hef val og þarf ekki að ströggla í einhverjum erfiðum tilfinningum eða eyða heilu dögunum í neikvæðar hugsanir. Ég hef val og get valið hvað ég vil gera. Það er gott í kringum mig alls staðar, ég hef styrkleika og það er líka mikilvægt að vinna með styrkleika sína og vera duglegur að þakka fyrir sig. Allar rannsóknir sýna það að okkur líður best þegar við gerum eitthvað gott fyrir aðra því sælla er að gefa en þiggja.“


Hægt er að sækja um hvatagreiðslur fyrir námskeiðið á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Námskeiðin verða á miðvikudögum:
5.-7. bekkur kl.16:30- 18:00.
8.-10. bekkur kl.18:10-19:40.
16-20 ára kl.20:00-21:30.
Verð: 29.000 kr.
Skráning á [email protected]
Einnig er ykkur velkomið að hafa samband við Lovísu í síma 894-5097 fyrir nánari upplýsingar.