Karlakórinn
Karlakórinn

Fréttir

Áframhaldandi landris eykur líkur á öðru kvikuhlaupi þó eldgos sé yfirstandandi
VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 19. apríl 2024 kl. 15:24

Áframhaldandi landris eykur líkur á öðru kvikuhlaupi þó eldgos sé yfirstandandi

Eftir að fjórða eldgosið hófst þann 16. mars hægði landris verulega á sér fyrst um sinn og nánast stöðvaðist. Það gaf til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi og uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni (mynd 1). 

Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi (mynd 2).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos með frekar stöðugu hraunrennsli er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni á sama tíma og land rís í Svartsengi. Því er meiri óvissa nú en áður um mögulega þróun atburðarins. Þetta kemur fram í nýrri uppfærslu á vef Veðurstofu Íslands.

Kvikustreymi_1

(Mynd 1)

Kvikustreymi_2

(Mynd 2)

Líkanreikningar gera ráð fyrir því að nú hafi rúmlega 6 milljón m3 af kviku bæst við  í kvikuhólfið undir Svartsengi síðan 16. mars. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar  á bilinu 8 til 13 milljónir m3 hafa bæst við í kvikuhólfið frá síðasta atburði.

Meiri óvissa um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur

Hingað til hefur verið talað um auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í kjölfar þess í tengslum við atburðarrásina á Sundhnúksgígaröðinni. Gott er að rifja upp að kvikuhlaup er skyndilegt og mikið flæði af kviku sem streymir út úr kvikuhólfi og getur endað með því að kvika nær að brjótast upp á yfirborð. Eftir kvikuhlaupið 2. mars, sem endaði ekki með eldgosi, varð breyting á virkninni sem hafði frá desember verið nokkuð formföst.

Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða aukast líkur á öðru kvikuhlaupi á næstu dögum eða vikum, þrátt fyrir að eldgos sé enn í gangi. Það að fá kvikuhlaup út úr kvikuhólfinu í Svartsengi samhliða eldgosinu sem nú er í gangi, er sviðsmynd sem ekki hefur verið uppi áður. Meiri óvissa er því um þróun jarðhræringanna næstu daga eða vikur.

Líkleg atburðarrás ef kvikuhlaup á sér stað samhliða núverandi eldgosi:

  • Kvika hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, líkt og í síðustu sex skipti.

  • Í kjölfar kvikuhlaupsins gætu nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells eða/og núverandi gosop stækkað með skyndilegri aukningu í hraunflæði. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annars staðar á kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember má búast við mun lengri fyrirvara, líklegast er áköf smáskjálftavirkni, aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum.

  • Einnig er mögulegt að ekki verði kvikuhlaup, heldur að flæði í núverandi gosi hætti að minnka og fari að aukast jafnt og þétt þar til nýju jafnvægi milli innstreymi kviku að neðan og flæði uppá yfirborð úr gíg er náð.

  • Ef kvikuhlaup endar með því að nýjar gossprungur opnast annarsstaðar en á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells myndi slíkri atburðarás þó mjög líklega fylgja mikil skjálftavirkni og aflögun með talsvert meiri fyrirvara en undanfarin eldgos.

Graf19042024

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir  Svartsengi á milli þeirra  eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. 

Uppfært hættumat

Í ljósi þeirrar óvissu sem vaxandi þrýstingur í kvikuhólfinu undir Svartsengi veldur, hefur Veðurstofan hækkað hættu vegna gosopnunnar á svæðum 1, 4 og 7 úr litlum í töluverðar". Heildarhætta (litur) á viðkomandi svæðum breytist þó ekki vegna þessa.

Haettusvaedi_VI_19april_2024

(Smellið á kortið til að stækka)