Aðsent

Viðsnúningur í rekstri eða viðsnúningur í árferði?
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 22:59

Viðsnúningur í rekstri eða viðsnúningur í árferði?

Á síðustu árum má sannarlega segja að aðstæður hafi breyst á Íslandi. Efnahagsaðstæður hafa batnað mikið og smjörið drýpur nánast af hverju strái, og það er jafnvel betra ástand en 2007.
 
Eftir efnahagshrun þurftu flest sveitarfélög að setja álögur sínar í topp til þess að ná endum saman, og laga reksturinn. Í Sveitarfélaginu Vogum var það sama uppi á teningnum.
 
Síðan 2013 hafa tekjur sveitarfélagsins af fasteignagjöldum hækkað sem nemur rúmum 80% og útsvarstekjur hækkað um 63,4%. Þetta eru hreint út sagt rosalegar tölur.
 
Þetta þýðir jú að fasteignaverð hefur farið mikið hækkandi enda enda lítið sem ekkert um nýbyggingar. Þetta þýðir einnig að atvinnuleysi hefur minnkað og tekjur hækkað hjá íbúum.
 
Þessir tveir tekjustofnar eru mjög mikilvægir fyrir sveitarfélagið og samanlagt gefa þeir 262,6 milljónum meira 2017 en þeir gerðu 2013.
 
Aðrir tekjustofnar eins og framlög úr jöfnunarsjóði og fleira hafa aukist minna en vega samt þungt þegar á heildina er litið.
 
Að reka sveitarfélag í svona árferði er eins og að sigla á lygnum sjó, allt er auðveldara og tekjuöflun gengur vel.
 
Til þess að fá fullan styrk úr jöfnunarsjóði þurfa sveitarfélög að fullnýta alla sína tekjustofna. Sé til dæmis fasteignaskattur lækkaður, lækkar einnig framlag jöfnunarsjóðs.
 
Við hjá D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra lögðum til á yfirstandandi kjörtímabili að það yrði skoðað hversu mikið framlag jöfnunarsjóðs mundu lækka fyrir hverja prósentu af lækkuðum fasteignaskatti. Þetta var gert og varð úr að fasteignagjöld lækkuðu lítillega. Við vildum ganga lengra og lækka vatnsgjaldið en sú tillaga fékk ekki fram að ganga hjá meirihluta. Lækkunin var það lítil að hún ást upp af hækkuðu fasteignamati og sáu íbúar ekki mikinn mun á reikningnum milli ára.
 
Fasteignagjöld á íbúa Voga og Vatnsleysu eru orðin afar íþyngjandi og ætlum við að lækka þau enn frekar því betur má ef duga skal. Núna árar einstaklega vel og þá er líka vel við hæfi að íbúar sveitarfélagsins fái að njóta þess.
 
Kristinn Benediktsson
6. Sæti á D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Sveitarfélaginu Vogum
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024