Aðsent

Skora á bæjaryfirvöld að draga ákvörðun til baka
Miðvikudagur 10. apríl 2024 kl. 10:01

Skora á bæjaryfirvöld að draga ákvörðun til baka

Starfsmenn Tónlistarskóla Reykjanesbæjar harma þá ákvörðun bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar að leggja niður Rokksafn Íslands og færa Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll.

Árið 2014 komst starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar loks í gott og sérhannað húsnæði, eftir 15 ára starf í ónothæfum og heilsuspillandi húsum. Reyndar eftir margra áratuga starf, ef talin eru með starfsár forveranna, Tónlistarskólans í Keflavík og Tónlistarskóla Njarðvíkur. Það kom því eins og reiðarslag þegar við fréttum af því að ofangreind ákvörðun hefði verið tekin og það á 10 ára afmæli Hljómahallar!
Á mbl.is þann 4. mars s.l., var eftirfarandi haft eftir bæjarstjóra Reykjanesbæjar:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Rokksafni Íslands verður að óbreyttu lokað ...“

„Bókasafnið fær færri fermetra en það telur sig þurfa. Tónlistarskólinn þarf að samnýta eitthvað af stofum með bókasafninu þannig að tónlistarskólinn mun þurfa að minnka það pláss sem hann hefur fyrir sig, vonandi án þess að það trufli starfsemina eitthvað,“ ... Um sé að ræða kennarastofur hjá tónlistarskólanum og slíkt sem gæti verið samnýtt.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er öflug mennta- og menningarstofnun sem hefur skipað sér í fremstu röð tónlistarskóla á landinu og borið hróður Reykjanesbæjar víða, innan lands og utan. Hann er jafnframt einn af fjölmennustu tónlistarskólum landsins. Í skólanum er þétt setinn bekkurinn og þar er starfsemi fram á kvöld flesta daga vikunnar.

Að þrengja að þessari rótgrónu menntastofnun þegar íbúum bæjarins fjölgar í sífellu, er galið. Í skólanum hefur langur biðlisti verið viðvarandi svo árum skiptir. Þessi ákvörðun bæjaryfirvalda verður til þess að biðlistinn lengist enn frekar. Það lýsir mikilli vanþekkingu á starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar að bæjaryfirvöld telji að minnkun á því plássi sem skólinn hefur til umráða hafi ekki afgerandi skaðleg áhrif.

Starfsfólk Tónlistarskóla Reykjanesbæjar skorar á bæjaryfirvöld að draga þessa ákvörðun til baka.