Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Sátt um Helguvík
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 23:25

Sátt um Helguvík

Umræðan um málefni Helguvíkur hefur verið mun heitari síðastliðið kjörtímabil en áður og er það gott merki um að íbúar bæjarins séu farnir að taka meiri þátt í að móta umhverfi sitt. Eins og flestum er orðið kunnugt er iðnaðurinn í Helguvík að mestu leyti mengandi og höfum við í Beinni leið sem og flestir íbúar ekki verið sáttir við starfsemina eins og hún hefur verið.
  
Í byrjun júní 2015 var kosið um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík. Við þá afgreiðslu sat ég hjá og bókaði eftirfarandi: „Ég hef lengi verið ósátt við ákvörðun fyrrverandi bæjarstjórnar að setja mengandi iðnað á svæði rétt um kílómetri við íbúabyggð. Ég vil að íbúar fái að njóta vafans sem er töluverður. Þegar ákvarðað er hvort mengunin muni verða innan eða utan marka er byggt á spám sem óvíst er að gangi eftir enda mæla eftirlitsstofnanir með að svæðið verði vaktað þegar verksmiðjur hefja störf.“  
 
Síðan þá hefur mikið gengið á og mjög mikil samstaða hefur verið um það í bænum að koma í veg fyrir það að kísilver fari í gang aftur. Til þess að sátt náist um framtíðina í Helguvík erum við í Beinni leið með tvær hugmyndir:
 
Við höfum nú þegar lagt fram tillögu í bæjarráði um að gerð verði úttekt á þeim verkferlum sem voru viðhafðir hjá Reykjanesbæ í samskiptum sveitarfélagsins við United Silicon. Slík úttekt mun ná bæði til samskipta embættismanna við fyrirtækið en einnig til kjörinna fulltrúa. Í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á aðkomu ríkisins að United Silicon teljum við brýnt að gerð verði úttekt á aðkomu sveitarfélagsins og allir þættir skoðaðir svo að við og aðrir geti dregið lærdóm af. Tillaga þessi verður tekin til afgreiðslu í bæjarráði á fimmtudag og vonandi samþykkt þar.
 
Einnig viljum við að setja í gang strax eftir kosningar samráðsvettvang með fulltrúum allra flokka og fulltrúum íbúa. Þar verði núverandi staða í Helguvík greind og allar mögulegar sviðsmyndir settar fram fyrir íbúakosningu, ef hópurinn leggur slíkt til. Það er mikilvægt að sem flestir komi að því að finna lausnir á málinu til að við náum almennri sátt um starfsemina í Helguvík. 
 
Kolbrún Jóna Pétursdóttir
Bæjarfulltrúi og í 2. sæti hjá Beinni leið
Public deli
Public deli