Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Orkuskortur í landi sem á heimsmet í raforkuframleiðslu?
Þriðjudagur 7. nóvember 2017 kl. 18:19

Orkuskortur í landi sem á heimsmet í raforkuframleiðslu?

- Ellert Grétarsson, náttúruunnandi skrifar

Forstjóri HS Orku hefur miklar áhyggjur af  yfirvofandi orkuskorti í landi sem á heimsmet í raforkuframleiðslu.  Hann vill virkja eins og enginn sé morgundagurinn.  Ásgeir Margeirsson og HS Orka virðist koma að öllum þeim virkjunum sem eru á dagskrá: Brúarvirkjun, Svartár og Suðurár, Hverfisfljót, Hvalárvirkjun og Hólmsá auk þess að ætla stúta einstæðri náttúru Eldvarpa, Sandvíkur á Reykjanesi og fólkvangsins í Krýsuvík.

Á sama tíma talar forstjóri OR um að „draga úr virkjanalátum“ til að jafna sveiflur í hagkerfinu, „og nýta betur þá orku sem við vinnum í stað þess að virkja eins og við eigum lífið að leysa og selja svo rafmagnið í kísilbræðslur sem eru einn mest mengandi iðnaður á jarðarbóli.“ Ekki þurfi að virkja allt sem „rennur og kraumar“.

Af hverju tala forstjórar tveggja stórra orkufyrirtækja  svona öndvert hvor við annan eins og þeir séu á sitthvoru landinu?

Jú, munurinn er sá að forstjóri OR starfar fyrir fyrirtæki í almannaeigu. Hinn er forstjóri einkafyrirtækis í erlendri eigu. Þar á bæ hugsa menn allt öðruvísi. Þar snýst allt um hagnað og meiri hagnað.

Talsmanni sænsk/kanadíska orkufyrirtækisins virðist mjög umhugað um raforkuöryggi Vestfirðinga, samfélagsmál í Árneshreppi og velsæld almennra raforkunotenda. Það er slæmt að svona vel meinandi maður skuli ekki vera betur jarðtengdur við raunveruleikann.

Talsmaður OR er á allt öðrum nótum. Orkan sé til, samningar um gríðarlegt magn séu að renna út og þetta sé spurning um það hverjir fái að nota orkuna.

Alkunna er að stóriðjan notar tæp 80% þeirrar raforku sem framleidd er í landinu og hefur  greitt fyrir hana svo lágt verð að afkomu orkufyrirtækjanna hefur lengi verið stefnt í voða. Síðan flytur stóriðjan arðinn úr landi með skattabrellum. Þetta tal um yfirvofandi orkuskort minnir því einna helst á manngerða hungursneyð í þriðjaheimsríki þar sem almenningur líður skort á sama tíma og stór hluti matvælauppskeru er fluttur úr landi.

Á meðfylgjandi töflu frá Orkustofnun má sjá raforkuframleiðslu Íslands í samanburði við önnur lönd. Við eigum heimsmet í raforkuframleiðslu  miðað við höfðatölu, upp á ríflega 52 þúsund kílóvattstundir á mann (samtals yfir 18 þús gígavattsstundir á ári).

Það er meira en tvöfalt það magn sem landið í öðru sæti, Noregur, notar.
Af hverju í ósköpunum þurfum við þá að virkja meira?

Ellert Grétarsson,

náttúruunnandi.




 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024