Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Nærumhverfið
Miðvikudagur 2. janúar 2019 kl. 17:58

Nærumhverfið

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar

Árið 1994 varð Reykjanesbær til með sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Á næsta ári fagnar þetta sameinaða sveitarfélag aldarfjórðungsafmæli. Upphaflega hugmyndin var sú að sameina öll sveitarfélögin á Suðurnesjum en það var ekki fyrr en í ár sem Garður og Sandgerði voru sameinuð í Suðurnesjabæ. Grindavík er ennþá Grindavík og Vogar eru Vogar. Uppbyggingin í Reykjanesbæ á þessum 25 árum hefur verið mest á Njarðvíkursvæðinu. Hafnir eru að mestu gleymdar og yngri kynslóðin telur að sameining sveitarfélaganna þriggja hafi verið Keflavík, Njarðvík og Innri-Njarðvík. Það er sorglegt hvernig komið er fyrir Höfnunum og sú mynd sem þar er að sjá er Reykjanesbæ til háborinnar skammar. Af hverju er einn bæjarhluti látinn vera í niðurníðslu? Er það meðvituð ákvörðun? Eru Hafnirnar það illa staðsettar að þar sé ekkert hægt að gera? Nær hugmyndaflug bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins ekki lengra en sem nemur útsýninu um skrifstofugluggann?

Það er gamall siður að staldra við um áramót og setja sér markmið fyrir komandi ár. Áramótaheit. Ég hvet íbúa Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Voga og Grindavíkur til að kynna sér nærumhverfið á nýju ári. Það er sagt að Reykjanesið hafi allt nema jökul og foss. Sé ferðamannaperla. Erum við eitthvað að njóta hennar sjálf? Vert er að minnast á nýútgefna bók Ellerts Grétarssonar „Reykjanesskagi - Náttúra og undur“.  Kaupið hana. Hún ætti að vera öllum hvatning til að ferðast um skagann og kynnast stórbrotinni náttúru.

Public deli
Public deli

Keyrið í gegnum Suðurnesjabæ um Ósabotnaveg að Höfnum. Þaðan að Brúnni milli heimsálfa og svo út á Reykjanes og til Grindavíkur. Farið í göngutúr einhvers staðar á leiðinni. Það sem betra er, farið þennan hring eða hluta af honum á reiðhjóli. Náttúruöflin fylla ykkur krafti og þið komist að því að heimahagarnir eru frábærir, jafnvel stórkostlegir. Tækifærin liggja víða, það eina sem þarf að gera er opna augun og láta svo hendur standa framúr ermum.

Margeir Vilhjálmsson