Aðsent

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Samningatækni hornamannsins
Mánudagur 19. febrúar 2018 kl. 07:00

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Samningatækni hornamannsins

Það eru ekki margir sem vita það en ég þótti liðtækur „hornamaður“ í körfubolta þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í meistaraflokki Keflavíkur. „Hornamenn“ í körfubolta eru þeir kallaðir sem eru yfirleitt út í horni að skjóta þegar raunverulega liðið er að spila fimm á fimm á fullan völl. Óvíst er að til sé sá leikmaður í sögu íslensks körfubolta sem eytt hefur jafn mörgum mínútum á hornkörfum og undirritaður. Blessunarlega var ég nú laus úr viðjum hornsins mín síðustu ár í körfubolta en síðasta tímabilið mitt var 2008-2009 er ég lék með Njarðvík úrvalsdeild.

Margir hafa spurt mig hvernig í ósköpum það æxlaðist að ég fór í Njarðvík því þrátt fyrir að hafa verið mikill aðdáandi félagsins á mínum yngri árum æfði ég alltaf með Keflavík og lærði snemma að elska bláa litinn en hálfpartinn hata þann græna. Aðdragandinn að þessum félagaskiptum var í stuttu máli sá að Njarðvíkingar höfðu mikinn áhuga á að fá Magnús Þór Gunnarsson, æskuvin minn, yfir í Njarðvík. Þó áhuginn á því að fá undirritaðan sem uppfyllingarefni í laskaðan hóp, hálfgert kítti í hriplekan vask, væri einhver var öllum ljóst að stórstjarnan Magnús Þór var heitari biti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég sem mikill vinur Magnúsar Þórs hugsaði mér hins vegar gott til glóðarinnar. Nú skildi „hornamaðurinn“ loksins fá eitthvað fyrir sinn snúð! Við félagarnir vorum boðaðir á fund félagsins og talaði ég Magnús Þór inn á að best væri að ég færi fyrstur inn. Hann myndi svo fylgja í kjölfarið. Hugsun mín var skýr – nú skildi ég narra fram tímamótasamning- sko, fyrir sjálfan mig. Ekki skrítið að maður hafi fengið háar einkunnir í samningatækni!

Á þessum fundi gaf ég forráðamönnum Njarðvíkur skýrt til kynna að ef þeir gengju að kröfum mínum væri Magnús Þór þeirra líka. Eftirleikurinn var auðveldur. Eftir að ég hafði grenjað út einhverjar úttektir og selt Magnúsi Þór þá æðislegu hugmynd að nú loksins gætum við félagarnir spilað saman, því þó við hefðum jú æft saman með meistaraflokki Keflavíkur í mörg ár fór lítið fyrir því að við spiluðum saman því yfirleitt var Magnús Þór hvíldur þegar mér var sýnt traustið síðustu 47 sekúndur leikjanna sem unnust með 40+ stigum, skiptum við félagarnir í Njarðvík á tímamóta samningum báðir tveir. Var það fyrst í fyrrasumar sem ég hætti að nota Outback grillið úr Húsasmiðjunni sem Magnús Þór gaf mér sem „umboðslaun“ fyrir vel unnin störf.