Aðsent

Hindrar verndun Sundhallar Keflavíkur uppbyggingu í Reykjanesbæ?
Mánudagur 12. febrúar 2018 kl. 14:11

Hindrar verndun Sundhallar Keflavíkur uppbyggingu í Reykjanesbæ?

Það er uppgangur í Reykjanesbæ, íbúum fjölgar hratt, fjöldi íbúða er þegar í byggingu og verið er að leggja drög að byggingu mörg hundruð íbúða til viðbótar.

Vöxturinn er ekki aðeins mikill heldur einnig hraður og því er afar mikilvægt að vanda vel til verka við skipulagið. Markmiðið getur ekki verið það eitt að koma sem flestum fyrir á sem skemmstum tíma, heldur hlýtur það að vera ekki síður mikilvægt að tryggja að bæjarbúar, og þeir fjölmörgu sem eru að setjast hér að, muni njóta þess að búa í fjölbreyttum, fallegum og skemmtilegum bæ. Bæ sem býður upp á góða þjónustu, fallegt og fjölbreytt umhverfi og sögu sem  bæjarbúar geta verið stoltir af.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ásýnd bæjarins mun eðli málsins samkvæmt breytast all nokkuð við alla þessa uppbyggingu, ekki síst við sjávarsíðuna. Þar hafa gömul hús á undanförnum árum verið látin víkja fyrir nýjum, í flestum tilfellum án mikillar umræðu eða deilna. En nú ber svo við þegar kynntar eru tillögur að breytingu á deiliskipulagi á Framnesvegi 11 sem fela í sér niðurrif á gömlu Sundhöll Keflavíkur, að það kemur í ljós að þar er bygging sem mörgum er afar kær. Enda er þessi bygging samofin sögu bæjarins, táknmynd samstöðu, samstarfs og baráttu sem Suðurnesjamenn hafa oft þurft að heyja í gegnum tíðina, auk þess að vera ein af gersemum Guðjóns Samúelssonar.

Umræðan undanfarið hefur að nokkru leyti snúist um það hvort við eigum annað hvort að halda í þetta gamla eða byggja nýtt, svona eins og það sé bara annað hvort- eða. Það er jafnvel talað um það að bæjarfélagið verði af miklum tekjum ef að laugin verði ekki rifin og að það setji alla uppbyggingu við strandlengjuna í uppnám.

Ekkert er meira fjarri sanni, og þarna er þvert á móti tilvalið tækifæri til þess að blanda saman gömlu og nýju eins og flest framsýn bæjarfélög eru að gera í dag.

Lítum aðeins á stöðuna og þau áform sem hafa verið kynnt. Það er nú þegar fyrirhugað að 10 stór fjölbýlishús með um 300 íbúðum muni rísa við sjávarsíðuna á næstu tveimur árum. Þessi 10 hús koma til viðbótar við þau stórhýsi sem byggð voru þar fyrir fáum árum.

Grunnflötur þessara 10 nýju fjölbýlishúsa, einn og sér, er í kringum 7000 fermetrar og eru húsin frá fjórum upp í níu hæðir. Til samanburðar er grunnflötur Sundhallarinnar tæpir 400 fermetrar.

Sundhöllin stendur við Framnesveg 9 við hliðina á Framnesvegi 11, en farið hefur verið fram á breytingu á deiliskipulagi fyrir þessar lóðir, auk Básvegs 11. Í gildi er deiliskipulag fyrir Framnesveg 11 sem þegar gerir ráð fyrir fjórum fjölbýlishúsum með 68 íbúðum. Það deiliskipulag var samþykkt árið 2016 án nokkurra athugasemda, ólíkt þeirri tillögu að breytingu á deiliskipulaginu sem nú liggur fyrir bæjarstjórn. Alls bárust  átta athugasemdir við það sem flestar snéru að hugmyndum um niðurrif Sundhallarinnar.

Breytingin sem verður með því að taka inn Framnesveg 9 og rífa Sundhöllina felst í því að húsunum verður fækkað úr fjórum í þrjú, þau hins vegar stækkuð, legu þeirra breytt og íbúðum á reitnum fjölgað úr 68 í 87. Með öðrum orðum, niðurrif þessara merku byggingar snýst á endanum um 19 íbúðir af um 300 sem verið er að fara að byggja við strandlengjuna, sem allir sjá að er nú ekki stór partur. Hvað þá þegar allur sá mikli fjöldi íbúða sem verið er að byggja í öðrum hverfum er tekinn með í dæmið.

Það er því ansi langsótt og reyndar hrein fjarstæða að halda því fram að það komi í veg fyrir uppbyggingu í bæjarfélaginu, eða við sjávarsíðuna, ef Sundhöllin fær að standa.

Það hefur greinilega komið mörgum mjög á óvart þegar að það fréttist að til stæði að rífa Sundhöllina og ég hef mikla samúð með þeim sem vilja halda í hana. Ég hef reyndar einnig nokkra samúð með verktakanum sem keypti bygginguna, greinilega með þann ásetning að rífa hana og byggja fleiri íbúðir. Það er hugsanlegt að þessi mikla andstaða við niðurrifið hafi komið honum á óvart.

Ég hef hins vegar ekki neina samúð með bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar í þessu máli því þeir voru meðal annars kjörnir til þess að leysa mál sem þetta. Ég ber þó fyllsta traust til þeirra og trúi því að þeir finni lausn sem allir hlutaðeigandi geta sætt sig við, lausn sem stuðlar að uppbyggingu án niðurrifs Sundhallarinnar.

Guðjón Ingi Guðjónsson
(Höfundur vill að góður bær verði enn betri, er áhugamaður um verndun Sundhallar Keflavíkur, sefur hjá formanni Hollvinasamtaka Sundhallarinnar….og er stoltur af þessu öllu).