Aðsent

  • Gerum betur
  • Gerum betur
Laugardagur 17. maí 2014 kl. 12:49

Gerum betur

– Einar Bragi Einarsson skrifar

Undanfarna daga hef ég verið að keyra um bæinn líkt og margir aðrir. Á þessum ferðum mínum hef ég rekið augun á svo margt sem betur mætti fara. Það er einn hlutur sem ég verð frekar mikið var við og langar mig að nota tækifærið til að vekja athygli á þeim ákveðna hlut eða ætti ég að segja vandamáli. Á nokkrum stöðum hér í Reykjanesbæ er erfitt fyrir suma einstaklinga sem glíma við fötlun að komast leiðar sinnar hindrunarlaust. Hvort sem um ræðir einstaklinga sem notast við hjólastóla, göngugrindur eða glíma við fötlun af einhverju öðru tagi. Það sýnir sig að enn í dag, í okkar nútímasamfélagi sem við erum svo stolt af, gleymist alltaf einhver og því miður er það oftast sami hópurinn sem verður útundan.
Það eru til dæmi um stórfyrirtæki sem eru með útibú hér, en svo virðist sem að þau hafi ekki gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra. Sem dæmi má nefna var ég að versla hjá ónefndu fyrirtæki hér í Reykjanesbæ. Þennan dag var ágætis veður úti, ég sá tvo einstaklinga koma inn planið. Annar þeirra var í hjólastól og hinn var gangandi, þegar þeir voru komnir upp að þeirri verslun sem þeir ætluðu að fara í fór sá aðili sem gat gengið, inn og átti ekki í neinum vandræðum með að versla og sinna sínum erindum, en sá sem sat í hjólastólnum þurfti að dúsa fyrir utan á meðan bara vegna þess að hann komst hvergi inn á stólnum, þetta var sárt að horfa upp á og situr fast í minningunni.

Endilega segið mér hvað er rétt við þetta? Erum við ekki öll jöfn og ættum við ekki að sitja við sama borð? Hvað á að gera fyrir þessa einstaklinga sem komast ekki allt vegna fötlunar sinnar? Ég spyr þig kæri kjósandi er ekki kominn tími á að við tryggjum öllum jafnt aðgengi og að við getum verið stolt af því að vera bæjarfélag fyrir alla, er ekki tími breytinga og lagfæringa?

Píratar í Reykjanesbæ vilja að allir njóti sömu forréttinda og berjast fyrir hagsmunum allra.

Einar Bragi Einarsson,
skipar 3. sæti á lista Pírata í Reykjanesbæ

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024