Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Gefum óábyrgri hagstjórn frí
Laugardagur 14. október 2017 kl. 05:00

Gefum óábyrgri hagstjórn frí

Í kosningunum 28. október næstkomandi gefst okkur Íslendingum færi á að gefa fráfarandi stjórnvöldum falleinkunn. Falleinkunn vegna spillingar, leyndarhyggju og skorts á heiðarleika og réttlæti. Okkur gefst tækifæri til þess að snúa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið og lítil sátt er um, miðað við kannanir um stuðning við ríkisstjórnina.

Við höfum val
Við getum kosið að bæta hag þeirra sem ekki hafa notið hagsældar síðustu ára og óttast margir hverjir um afkomu sína hver mánaðarmót. Um sex þúsund börn búa við skort á Íslandi og ungt fólk fótar sig varla utan foreldrahúsa. Aðgerða er þörf til bóta á kjörum öryrkja, eldri borgara og barnafólks. Einnig verður að létta á spennunni á húsnæðismarkaði, m.a. með átaki í byggingu félagslegra íbúða.

Public deli
Public deli

Við getum kosið stjórnvöld sem virða vilja þjóðarinnar. Stjórnvöld sem taka mark á 86 þúsund manna undirskriftasöfnun um endurreisn heilbrigðiskerfisins, vilja þjóðarinnar til stjórnarskrárbreytinga og sömuleiðis til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Við getum líka kosið stjórnvöld sem vilja breyta áherslum og leikreglum þegar kemur að nýtingu auðlinda landsins. Samfylkingin vill fá sanngjarnt verð fyrir íslenska orku og eðlilegar skattgreiðslur frá stóriðjunni. Við viljum hafa græna hagkerfið að leiðarljósi, beita hvötum í þágu umhverfisverndar og fjárfesta með það fyrir augum að skaða ekki umhverfið og auka sjálfbærni. Við viljum leiða stefnu í mennta- og atvinnumálum til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og leggja áherslu á þekkingariðnað, hugvit, nýsköpun o.fl. umfram stóriðju. Slík stefnumótun kæmi í veg fyrir umhverfisslys eins og við höfum séð á Suðurnesjum með komu United Silicon, þar sem óábyrg hagstjórn, stefnuleysi og óvissa í atvinnumálum gerðu það að verkum að farið var í óðagoti í stóriðjuframkvæmdir sem bitna nú á íbúum Suðurnesja.

Kjósum nýtt, betra og réttlátara samfélag. Kjósum Samfylkinguna.

Marinó Örn Ólafsson
4. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi