Aðsent

Flóttafólk og umræðan
Föstudagur 1. mars 2024 kl. 06:06

Flóttafólk og umræðan

Þegar umræða í samfélaginu er komin algerlega út um allt og varla vit í henni lengur er mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar, sem starfa í umboði íbúa landsins, tjái sig og bendi á mikilvægu atriðin og réttu staðreyndirnar.

Reykjanesbær er með tvo samninga í gildi varðandi fólk á flótta

Annars vegar er samningur um alþjóðlega vernd – alls 70 manns. Þennan samning höfum við verið með frá 2004. Ekki hefur verið fjölgað í þessum samning, þrátt fyrir beiðni þar um.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hins vegar er samningur um samræmda móttöku flóttafólks – alls 264 manns. Árið 2023 samþykkti sveitarfélagið að taka á móti 350 manns með skilyrðum um fækkun. Nýi samningurinn nú hljóðar upp á 250 manns. Ekki hefur verið samþykkt að fjölga í þessum samning, þrátt fyrir beiðni þar um.

Staðreynd málsins er að Vinnumálastofnun ber samkvæmt lögum að taka á móti og hýsa flóttafólk. Þar sem sveitarfélagið neitaði að stækka sína tvo samninga ákvað stofnunin, sem er ríkisstofnun, að sjá um þetta fólk sjálf þar sem ekki var mikið af öðrum sveitarfélögum að taka við fólki en þau eru nú fjórtán í heildina af 64 sveitarfélögum, eða 22%! Þessi fjöldi, sem Vinnumálastofnun sér um í okkar sveitarfélagi, er um 1.119 manns. Þessi fjöldi er hér vegna ákvörðunar umræddrar stofnunar að taka á leigu húsnæði í Reykjanesbæ. Aftur, þetta er stofnun á vegum íslenska ríkisins undir stjórn ráðherra. Hvorki sveitarfélagið sjálft né meirihlutinn stýrir því ef ríkisstofnun tekur á leigu húsnæði í okkar sveitarfélagi. Við komum ekki að þessu máli á neinn hátt. Að halda öðru fram er lygi.

Það að lesa grein bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ var frekar skondið en þar heldur hann fram að stjórnleysi í málaflokki flóttafólks, búseta þeirra í sveitarfélaginu á vegum Vinnumálastofnunar og kostnaður verndar á Íslandi sé á vegum vinstri meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Vinstri meirihlutinn eða Samfylkingin hefur hvorki firrað sig ábyrgð né gert lítið úr okkar ábyrgð á móttöku flóttafólks. Sökudólgur eða ekki, ríkið er með umræddan ráðherra sem stýrir Vinnumálastofnun sem er með málefnið, húsnæðið og ber ábyrgð á ákvörðuninni um að setja þennan mikla fjölda hér í Reykjanesbæ. Erfitt er að standa á móti ríkinu sem hefur þegar gert samninga í okkar sveitarfélagi sem við getum ekki lagalega haft nein áhrif á.

Að lokum er mikilvægt að benda á umfjöllun liðinna ára um málefnið:

Velferðarráð Reykjanesbæjar – október 2018:

Velferðarráð Reykjanesbæjar hafnaði beiðni um að sjá um þjónustu við fleiri hælisleitendur en bærinn aðstoðar nú allt að 70 hælisleitendur.

Reykjanesbær samþykkti ekki tillöguna eins og áður sagði en Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir að þótt svo hafi verið >> þá breyti það ekki áformum stofnunarinnar um nýtingu húsnæðisins til þjónustu fyrir hælisleitendur.

Vísir – ágúst 2022:

Meirihluti sveitarstjórnar Reykjanesbæjar er ósáttur við þrýsting ríkisins á sveitarfélagið um að taka á móti fleira flóttafólki og fólki í leit að vernd, án þess að fjármagn fylgi. Að sama skapi gagnrýnir meirihlutinn að ríkið hafi tekið á leigu húsnæði fyrir yfir fjögur hundruð manns á Ásbrú, án þess að ræða við sveitarfélagið.

Þrátt fyrir það hefur Útlendingastofnun ... ýtt sterklega á sveitarfélagið á að taka við fleiri einstaklingum og stækka samninginn. Þessu höfum við ítrekað neitað undanfarin ár ...

Umfjöllun Samfylkingarinnar

Það vakti mikið umtal þegar formaður okkar í Samfylkingunni, hún Kristrún Frostadóttir, fór í hlaðvarpsþáttinn Ein pæling. Það sem formaðurinn okkar kom inn á var málefnaleg umræða um að til lengri tíma verðum við að horfa á þróun málaflokksins og einblína á það sem við getum gert og gera það vel. Hömlulaus útgjöld, löng málsmeðferð og stefnuleysi er ekki það sem við viljum að einkenni þessi mál.

Staðreyndir málsins eru þessar:

  • 20 milljarðar hafa farið í verndarkerfið, helmingur í kostnað við að skoða mál sem fá synjun á endanum.
  • Til að setja tölur í samhengi þá kosta allar heilsugæslur á Íslandi 20 milljarða.
  • 9.000 umsóknir um vernd hafa borist undanfarin tvö ár (heil Árborg) en 100 umsóknir árið 1992.
  • Árið 2023 voru 77% umsókna um alþjóðlega vernd frá Úkraínu og Venesúela.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta á Alþingi undanfarin ellefu ár, verið með utanríkisráðherra undanfarin sjö ár og dómsmálaráðherra undanfarin ellefu ár.

Hvorki á Alþingi né í sveitarstjórn hefur Samfylkingin leitt málefni fólks á flótta undanfarin ellefu ár né ber ábyrgð á ákvörðunum Vinnumálastofnunar í sveitarfélaginu okkar. Það er kannski staðreyndin sem bæjarfulltrúinn neitar að horfast í augu við, hvar ábyrgðin liggur.

Kjarni málsins

Í lokin viljum við taka fram að umræðan um flóttafólk, hælisleitendur og jafnvel útlendinga í leit að starfi á landinu okkar er stundum hent í einn hóp til að stækka töluna og jafnvel ala á ótta og óöryggi.

Fjölgun íbúa á Íslandi hefur verið gríðarlega hröð á stuttum tíma, alveg sama hvaðan fólkið kemur eða í hvaða tilgangi. Þegar þessar breytingar gerast svona hratt er hætt við að við missum tök á ýmsum atriðum eins og fjölgun leik- og grunnskóla, fjölgun framhaldsskóla, fjölgun starfsfólks í innviðum okkar eins og heilbrigðisstarfsfólks, lögreglu og landamæravörslu, sjúkraflutninga ofl. Allt þetta hefur áhrif og það er ekki hollt fyrir okkur sem samfélag að horfast ekki í augu við stöðuna því þessar breytingar eru kostnaðarsamar fyrir sveitarfélögin.

Hvernig væri að við færum að skipuleggja okkur og sinna þessu risastóra verkefni okkar saman? Og kannski enn og aftur að hvetja ráðherra til að koma fólki á flótta fyrir um allt Ísland, ekki bara í okkar besta Reykjanesbæ, líkt og við höfum margoft bent á.

Höfundar eru bæjar- og varabæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.