Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Eru íþróttir ekki fyrir alla?
Laugardagur 16. mars 2019 kl. 12:00

Eru íþróttir ekki fyrir alla?

-Heilbrigð sál í hraustum líkama

Reykjanesbær er og hefur verið mikill íþróttabær í gegnum tíðina, í bænum hefur margt afreksfólk verið uppalið í öllu því frábæra íþróttastarfi sem hér hefur verið unnið. Það er gríðarlega mikil gróska í íþróttalífi bæjarins; körfubolti, fótbolti, blak, taekwondo, júdó, jiu-jitsu, hnefaleikar, glíma, fimleikar, kraftlyftingar, ólympískar lyftingar, CrossFit, þríþraut, badminton, sund og golf, allar þessar íþróttagreinar eru iðkaðar í Reykjanesbæ að ógleymdri aðstöðu til að stunda aðra hreyfingu en keppnisíþróttir. Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag.

Börnin okkar geta valið úr íþróttagreinum til að spreyta sig á – það er nóg í boði fyrir alla. Því miður hafa ekki allir jöfn tækifæri til að taka þátt í því góða starfi sem er í boði. Það kostar að stunda íþróttir; æfingagjöld, útbúnaður, æfingaferðir, keppnisferðir, mótsgjöld, allt kostar þetta sitt og því miður er það staðreynd að það hafa ekki allir efni á leyfa börnum sínum að taka þátt í íþróttum. Heilsa barnanna okkar kostar peninga og það er bláköld staðreynd að í samfélagi okkar glíma einstaklingar og fjölskyldur við fátækt. Fleira getur aftrað fólki frá að stunda þessi heilsubætandi áhugamál, eins og tungumálaörðugleikar eða óvissa um hvert sé hægt að snúa sér eftir aðstoð. Alltof stór hluti bæjarbúa nýtir sér ekki þær 28.000 krónur sem Reykjanesbær leggur yngri íbúum samfélagsins til í formi hvatagreiðsla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vel hefur tekist með íþróttaiðkun eldri íbúa hér í bæ, Fjölþætt heilsuefling 65+ hefur slegið í gegn og þeir sem hafa staðið að því verkefni eiga hrós skilið. Fullorðna fólkið flykkist í alls kyns hreyfingu, líkamsræktarstöðvarnar eru vinsælar hjá þeim, hópar hittast til að skokka saman, fer í jóga og þar fram eftir götunum. Fullorðnir einstaklingar geta, á eigin forsendum, valið hvað þeir gera. Þeir sjálfir hafa þann möguleika að geta forgangsraðað sínum málum til að koma heilsurækt að í sínu daglega amstri, hafi þeir á annað borð áhuga á því. Börnin okkar hafa ekki þetta val, þau eru fædd inn í misjafnar aðstæður. Sum geta verið í tónlistarskólanum og öllum þeim íþróttum sem þau vilja. Önnur eru ekki eins heppin.Í óformlegri könnun sem var gerð meðal grunnskólabarna í Reykjanesbæ í byrjun árs 2017 kom í ljós að þátttaka þeirra í íþróttum var frá 45% til 78%, athygli vekur sá gríðarlega mikli munur sem er á milli þeirra skóla þar sem börnin stunduðu íþróttir mest og minnst. Mér finnst mikilvægt að allir fái tækifæri á heilbrigðum lífsstíl, að öll börn hafi jafnan möguleika á að stunda íþróttir sem þau hafa áhuga á. Látum fátækt eða aðrar félagslegar aðstæður ekki spilla möguleikum barnanna okkar á heilbrigðum lífsstíl. Heilbrigð sál í hraustum líkama er staðreynd og betri forvörn er varla hægt að finna. Börn og unglingar sem hafa tileinkað sér heilsusamlegt líferni eru líklegri til að halda áfram á þeirri braut, lenda síður í slæmum félagsskap eða þaðan af verra. Svo geta íþróttir gert gæfumuninn fyrir þá sem ná árangri í sinni grein. Framhaldsnám erlendis getur orðið að veruleika fyrir marga með íþróttastyrk, m.ö.o. íþróttir geta greitt fyrir skólagöngu margra sem annars ættu ekki kost á áframhaldandi námi. Svo má ekki gleyma því sem svo marga krakka dreymir um, atvinnumennskunni.

Í samtölum við fjölmarga aðila innan íþróttahreyfingarinnar í Reykjanesbæ hef ég fundið vilja til að taka á þessum málum. Yfir góðum kaffibolla fæðast margar góðar lausnir, því vil ég bjóða íþrótta- og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar, fjölmenningarfulltrúa Reykjanesbæjar, stjórn Íþróttabandalags Reykjanesbæjar, forsvarsmönnum íþróttafélaga og -deilda bæjarins sem og öðrum sem telja sig hafa eitthvað heilsueflandi samfélagi barna í Reykjanesbæ fram að færa í kaffispjall út í golfskála sunnudaginn 31. mars næstkomandi kl. 14. Þar getum við skipst á skoðunum, tekið höndum saman og fundið lausnir til að aðstoða börnin í bænum okkar. Þau sem vilja taka þátt í þessu verkefni vil ég biðja að tilkynna mér þátttöku svo tryggt sé að við höfum nóg kaffi á boðstólum, netfangið er [email protected]

Með íþróttakveðju,
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs Suðurnesja.