Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Auðlindagjald: Skattur eða greiðsla fyrir aðgang?
Mánudagur 12. febrúar 2018 kl. 09:51

Auðlindagjald: Skattur eða greiðsla fyrir aðgang?

Enn á ný sprettur upp umræða um veiðigjöld útgerðarinnar. Gildandi lög sem renna út við lok fiskveiðiársins eru stórgölluð og auðlindarentan sem lögin áttu að endurspegla birtast nú í ýktri mynd, þar sem hljóð og mynd hafa ekki farið saman. Því til viðbótar er tekur gagnaöflun sem grundvallar veiðigjaldið langan tíma að viðmiðunarár gjaldsins byggir á tveggja ára gömlum upplýsingum um afkomu útgerðarinnar. Á yfirstandandi fiskveiðiári er viðmiðunarárið 2015/16, þar sem allt lék í lyndi, gengið á þokkalegu róli og afkoman skínandi góð.  Síðan þá hefur staðan breyst. Nýir kjarasamningar hafa verið gerðir við sjómenn enda löngu tímabært, gengið hefur styrkts verulega með þeim afleiðingum að skilaverð útflutnings lækkað um 30-35%. Því fylgir mikið tekjutap fyrir útgerðina og um leið kjaraskerðing fyrir sjómenn. Þessi lög um veiðigjöld sem sett voru á kjörtímabilinu 2013-2016 koma því illa við sjávarútveginn þegar tekjur og afkoma lækka verulega. Þá var skuldaálag vegna kvótakaupa frádráttarbært frá veiðigjöldum en álagið féll niður og leggst veiðigjaldið nú af fullum þunga  á allar útgerðir. Smáar og meðalstórar útgerðir eiga erfiðast með að bera þessi auknu veiðigjöld og þeim fækkar enn.
 
Rauntíma gjald
 
Ég og fleiri höfum verið talsmenn þess að veiðigjald verði föst prósenta, rauntímagjald af verðmæti landaðs afla. Það er einföld leið og þekkt en aflagjald er reiknað hlutfall af aflaverðmæti og því gæti innheimta veiðigjalds verið með sama hætti og aflagjald hafna á löndunardegi. Veiðigjaldið á að vera eðlileg greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni og gjaldið á m.a.. að standa undir rekstri Hafró og Fiskistofu. Ég nefni sem dæmi að 5% gjald á hvert kíló af lönduðum þorski lægi nú á bilinu 10 krónur eins og meðalverð á fiskmörkuðum hefur verið síðustu mánuði. Aðrar fisktegundir bæru sama gjald, þar með talið fiskeldi í sjó, en vinnsluskip greiddu helming gjaldsins eins og aflagjöld hafna gera ráð fyrir. Í dag er veiðigjald af þorski yfir 20 kr. á kg. vegna afkomu viðmiðunarársins 2015/16.
 
Sýnileg gjaldtaka
 
Gjaldtaka með þessum hætti er að ryðja sér til rúms á fleiri sviðum og gæti því verið fyrirmynd til almennrar gjaldtöku fyrir nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda landsmanna. Þjóðgarðar er að taka upp gjaldtöku fyrir aðgang að náttúrminjum, köfun í Silfru og þá eru hugmyndir um farþegagjald í skoðunarferðum bíla  innan þjóðgarða. Þá eru komnar fram hugmyndir um 5% framleiðslugjald af fiskeldi í sjó. Auðlindagjöld af annarri starfsemi sem byggir á nýtingu eða afnotum að náttúruauðlindum í almannaeigu gætu verið af sama grunni, eða sýnilegt auðlindagjald sem allir greiða sem selja aðgang eða nýta náttúruna með einum eða öðrum hætti. Skoða verður vel grunn auðlindagjalds á alla nýtingu fyrir notkun auðlinda í þjóðareigu enda ekki um skattlagningu að ræða. Hér er ég aðeins að varpa fram hugmyndum um einfalda aðferðarfræði sem er sýnileg rauntíma gjaldtaka og gæti náð til allrar atvinnustarfsemi sem byggir á auðlindum þjóðarinnar.
 
Greitt fyrir allar auðlindir
 
Í mínum huga er auðlindagjald greiðsla fyrir aðgang sem allir greiða og verður gjaldið því að vera hóflegt. Fyrirmyndir af útfærslu afsláttargjalda eða frítekjumarka er til í núverandi veiðigjaldakerfi og ekkert því til fyrirstöðu að nota slíkt kerfi í öllu umhverfinu.  Aðrir hafa bent á að veiði- eða náttúrugjald mætti líka innheita með hærri tekjuskattsprósentu á hagnað fyrirtækjanna sem nýta auðlindir. Það gjald væri þá ekki mjög sýnileg gjaldtaka, en sýnileiki gjaldsins er mikilvægur þáttur að mínu mati.
Með nánari útfærslu gæti hér verið skýr, einföld og sýnileg leið til að innheimta náttúru- og eða veiðigjöld. Samfélagið á að njóta afrakstrar auðlinda sem nýttar eru til tekjuöflunar í atvinnuskini. Hér er bent á einfalda og skilvirka leið, sem er ekki skattur heldur gjald sem hægt er að útfæra af öllum auðlindum þjóðarinnar.
 
Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.
Public deli
Public deli